Sigríður Kristín Óladóttir

30.12.04

Jólaball

Við Hlynur fórum á jólaball með Þórði hjá HB Granda í gær og skemmtum okkur vel. Gísli Einars stjórnaði og Hannes Baldursson spilaði á skemmtara. Þeir stóðu sig frábærlega vel í þessum hlutverkum. Hlynur er svo ófeiminn að hann svaraði Gísla Einars þegar spurt var hvort krakkarnir væru búin að sjá jólasveina þetta árið. Hlynur var líka spurður hvort hann kynni Nú er Gunna á nýju skónum... Þegar hann svarið því játandi var hann settur uppá stól þar sem hann söng í magnarann og tókst söngurinn mjög vel hjá honum, hann á ekki langt að sækja það að syngja vel, drengurinn er nefnilega sonarsonur minn, ha ha ha.
Hlyni fannst skemmtilegast þegar jólasveinarnir komu og honum fannst Stekkjarstaur skemmtilegri.

Þegar ballið var eiginlega búið bað Hlynur Gísla um að fá að segja nokkur orð. Gísli beindi orðum sínum að Ingibjörgu Pálma þegar hann kynnti Hlyn og sagði að ef til vill væri kominn upprennandi stjórnmálamaður, hver veit. Hlynur fór aftur uppá stól og fékk magnarann í hendur og sagði: Krakkar fannst ykkur jólasveinarnir ekki skemmtilegir?, hélt svo áfram og sagði: Búið.

Svo mörg voru þau orð og sem betur fer var ræðan hans ekki lengri en þetta í þetta sinn.

Í framhaldi af þessu og reyndar oft áður, þá hef ég verið að hugsa um Óla Örn sem framtíðarpólitíkus fjölskyldunnar. Ég er viss um að hann á fullt erindi á þeim vettvangi, hvað segið þið um það?



28.12.04

Gleðileg jól

Ég óska öllum þeim sem lesa þessar línur Gleðilegra jóla.

Mér finnst að það eigi að segja gleðileg jól þótt komið sé fram yfir annan í jólum en ekki gleðilega rest eins og sumir segja.

Við höfum haft það mjög gott um jólin, gert mikið af öllu sem tilheyra jólum eins og að borða, drekka, spila, sofa, liggja í leti svo eitthvað sé nefnt. Það hefur lítið farið fyrir hollustu og hreyfingu en það verður bara tekið síðar.

Hlynur kom á annan í jólum og verður fram yfir áramótin. Það er óhætt að segja að hann lífgar mjög mikið uppá heimilishaldið hér hjá okkur, þó er hann alltaf stilltur og góður lítill fjörkálfur. Hann tók upp pakkana sína þegar hann kom og las sjálfur á merkimiðana og vildi endilega geyma þá.

Það er óhætt að segja að gjafirnar mínar voru merktar á fjölbreyttan hátt. Algengust var þó merkingin frú Sigríður Kristín, svo kom frú Sigríður, síðan Mamma Rokk og Sigga. Ég fékk margar fínar gjafir t.d. kristalsrauðvínsglös, takið eftir þessu, (það eru sko engin vandræði með rauðvínsglös á þessu heimili), fleiri kristalsglös, hálsmen, þvottapoka, engil og mokkabolla svo eitthvað sé nefnt. Svo fékk ég tvö sérlega skemmtileg gjafabréf, bæði voru auðvitað stíluð á frú Sigríði Kristínu.

Annað bréfið var svona:
Frú Sigríður Kristín, handhafi þessa gjafabréfs á inni skápaþrif. kjallaraþrif og bílaþrif hjá eftirtöldum börnum sínum; Óla Erni, Þóru og Atla Þór. Handhafi gjafabréfsins má velja hvert barnanna framkvæmir hver þrif. Ennfremur gildir gjafabréf þetta í Þýskalandi þar sem að handhafi á inni tilgangslausan skemmtirúnt með dóttur sinni; Helgu.
Gjafabréfið nær þó ekki yfir maka eða börn systkinanna nér annað skyldfólk og vini.
Gjafabréfið má innleysa hvenær sem handhafi þess þóknast á árinu 2005.
Fyrir hönd barnanna og Helgu: síðan kom undirskrift hinna þriggja.

Seinna gjafabréfið var svona:
Handhafi þessa gjafabréfs; frú Sigríður Kristín á inni tvo miða í leikhús að eigin vali (svo lengi sem það sé á leiksýninguna Tenórinn í Iðnó). Þessu gjafabréfi fylgir jafnvel einkabílstjóri til og frá leiksýningu (svo lengi sem það feli ekki í sér einhvern óþarfa rúnt. Einnig verður handhafi gjafabréfsins að sjá einkabílstjóra fyrir mat og einhverri dægrastyttingu á meðan á sýningu stendur).
Handhafi gjafabréfsins getur tekið með sér einn gest að eigin vali á umrædda sýningu, handhafanum og gestinum að kostnaðarlausu (svo lengi sem umræddur gestur sé Þórður Sveinsson)

Svo koma smáa letrið:
Séu þessi skilyrði ekki uppfyllt fellur gjafabréf þetta úr gildi. Einkabílstjórinn er valkostur sem handhafi þarf ekki að nýta sér. Fyrir hönd útgefenda gjafabréfsins: undirskrift barnanna Þóru, Óla og Atla Þór.

Ég fékk reyndar eitt gjafabréf í viðbót frá Brekkubæjarskóla. Innihald þess bréfs var holl og góð hreyfing og meðfylgjandi voru 10 sundmiðar og sturtusápa. Sniðug hugmynd, þetta verður væntanlega nýtt út í æsar á næsta ári.

22.12.04

Frómas og fiskur

Mér datt í hug þegar ég var í sturtunni í morgun og það er alveg öruggt að ég var fiskur í fyrra lífi. Af hverju? Jú mér finnst ég alltaf vera komin heim þegar ég fer ofan í heita pottinn.

Ég reyndi að setja kleinuuppskriftina mína á heimasíðuna hjá Alex í morgun, en eitthvað hefur þetta klikkað hjá mér. Alex þarft þú að samþykkja aðgerðina?

Ég set hér uppskriftina mína af sherrýfrómasnum sem ég geri alltaf á aðfangadagsmorgun. Einnig set ég uppskriftina af ávaxtafrómasnum sem mamma mín gerir alltaf um jólin. Uppskriftin hennar er tekin orðrétt úr Matreiðslubók Jónínu Sigurðardóttur sem gefin var út árið 1945. Skemmtileg aðferðarlýsingin eins og eggin eru slegin sundur í miðjunni, að hræra saman með hægð o.fl.

Sherryfrómas

9 blöð matarlím
4 egg
200 g sykur (2 dl)
6 dl rjómi rjómi
2 dl sherry
125 g suðusúkkulaði eða annað gott súkkulaði
----

Aðferð:

1. Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn.
2. Þeytið rjómann og skerið súkkulaðið.
3. Þeytið egg og sykur í ljósa þykka froðu.
4. Setjið sherrý og súkkulaði saman við eggjahræruna og hrærið með perulaga þeytara (pískara). Athugið að nauðsynlegt er að smakka sherryið áður en það er sett út í og á meðan á gerð frómasins stendur.
5. Kreistið mesta vatnið úr matarlíminu og bræðið það.
6. Hellið matarlíminu í hárri bunu út í hræruna og hrærið í á meðan. Athugið að matarlímið má hvorki vera of heitt né kalt. Það á að vera volgt þannig að ef fingri er dýft í það, rétt drýpur dropinn.
7. Blandið þeyttum rjómanum saman við.
8. Setjið frómasinn í kristalsskálar eða aðrar fallegar skálar.


Granaldinbúðingur

250 g egg
12 blöð matarlím
250 g sykur
125 g vatn
25 g gulaldin
500 g rjómi
500 g granaldin
----

Aðferð:

Eggin eru slegin sundur í miðjunni og hvíturnar skildar frá rauðunum. Rauðurnar eru hrærðar með sykrinum, þar til þær eru orðnar að þéttri froðu; eru þá granaldinsafinn og gulaldinsafinn látnir í, ásamt matarlíminu, sem fyrst er leyst sundur í heitu vatni og látið kólna. Þegar búið er að hræra þetta vel saman, eru eggjahvíturnar og nokkuð af rjómanum, sem hvort tveggja er stífþeytt sitt í hvoru lagi, og granaldinbitarnir látnir saman við. Ef granaldinin eru í stórum bitum, er betra að skera hvern bita í 4 minni. Nokkra bita má skilja eftir til að láta ofan á.
Þetta þarf að hræra saman með hægð, þar til bætingurinn byrjar að hlaupa saman, sem er mjög fljótt. Er honum þá hellt í glerskálar, og þegar hann er orðinn vel stífur, er hann skreyttur með ofurlitlu af þeyttum rjóma og granaldinbitunum. Borðaður sem síðasti réttur til miðdegisverðar eða aukamáltíðar.

Jólafrí

Jibbí það er komið jólafrí.
Það er ferlega næs að vera komin í jólafrí. Það verður ekkert stress á þessum bæ frekar en fyrri daginn fyrir jólin, ég geri bara það sem mig langar til að gera fyrir jólin. Ég sauð niður rauðrófur í gær og kanski geri í kæfu í dag, ég man ekki hvernig staðan í kæfumálum heimilisins er.
Þóra kom í gær og Óli og Hlynur koma í dag, það er alltaf gaman þegar börnin koma heim.

Það hefur ekkert heyrst frá íbúum á Reynigrund 24 og það verður því farið í riftunarmálið strax eftir jól. Ég kann ekki við að henda fólki út fyrir jólin. Ég skil samt ekki þessa grafarþögn hjá fólki sem búið er að lofa að láta mig vita, en þegir svo út í eitt. Skiljið þið þetta?

Ég ætla að setja kleinuuppskriftina inn á heimsíðuna hans Alex, en ég þarf endilega að fara að setja uppskriftirnar mínar á heimsaíðuna eins og ætlunin var upphaflega. Atli ætlaði að fara að henda út Dreamweaver, en ég bannaði honum það auðvitað.

Það er búið að opna nýja krá í Coesfeld í Þýskalandi þar sem Helga býr. Kráin heitir því skemmtilega nafni OMA ROCK. Það er klárt að ég kíki þar inn næst þegar ég heimsæki krakkana út. Ekki skemmir það fyrir að þar eru pottþétt til RAUÐVÍSGLÖS!!!

20.12.04

Geðvonda gengilbeinan á Barbró!!!

Við skelltum okkur nokkur saman á jólahlaðborð á laugardagskvöldi á Barbró og gaman hefði verið að skrifa um hvað maturinn var góður, en nei, það ætla ég ekki að gera vegna þess að það er ekki efst í huga mínum eftir þessa átveislu.

Það sem er minnisstæðara er að ekki þarf nú mikið á þeim veitingastað til þess að starfsstúlka sýni fádæma ókurteisi. Mér varð á að biðja kurteislega um rauðvínsglas til að drekka rauðvínið úr. Við Hrönn keyptum okkur rauðvínsflösku saman, ekki vín hússins sem Óli var búin að vara okkur við, heldur vín sem kostaði tæpar 4 þúsund krónur. En glösin sem þau báru fyrir okkur voru svipuð að stærð og sherryglas, ég segi það satt. Þeim tókst samt að finna eitt, takið eftir EITT, aðeins stærra glas sem þau kölluðu rauðvínsglas og stúlkan ókurteisa kom til mín þar sem ég var í röðinni að fá mér mat á diskinn og sagði frekjulega: Ég setti rauðvínsglas hjá þér frú Sigríður (ég man ekki hvort hún sagði frú Sigríður en auðvitað hefði hún átt að gera það).
Stuttu seinna kom hún að borðinu með eins glas og upphaflega voru sett á borðið og bar það við glasið hennar Hrannar og hreytti út úr sér, nei þetta er jafnstórt, við eigum ekki fleiri rauðvínsglös!! Hún hefði betur sleppt því að koma og hreyta þessu út úr sér. Kanski hefur farið í taugarnar á þeim að borðið var skráð á frú Sigríði (þekkja mig ekki!!) og líka að Óli kom til að vara við rauðvíni hússins og gaf okkur að smakka það.

Þegar kokkarnir skáru kjötið á heita borðinu, sagði ég við þá: Það hefði verið gott að merkja réttina á kalda borðinu. Ég hafði vaðið fyrir neðan mig og það liggur við að ég hafi hvíslað þessu að þeim, svo lágt talaði ég. Þetta fréttist til geðvondu gengilbeinunnar og þegar ég sagði henni mitt álit á henni og ókurteisi hennar sagði hún við mig. Þú ert búin að vera að kvarta í allt kvöld, hafið þið vitað það betra?

Við Þórður fórum í göngutúr seinnipartinn í gær, hann stakk að sjálfsögðu upp á að við kæmum við á Barbró og fengjum okkur kaffisopa. Ég var snögg að segja, nei eigum við ekki heldur að fá okkur rauðvínsglas?


16.12.04

Laufabrauð

Ég er búin að gera laufabrauð, ég kláraði það eftir kennslu í dag. Ég var að kenna valhópnum að gera laufabrauð. Hrönn Egg kom og skar munstur í kökurnar og við létum það bara duga. Svo hjálpaði einn nemandinn úr 10. bekkjar valhópnum mér að steikja kökurnar, frábært það.

Þetta er uppskriftin sem ég notaði:
1 l. nýmjólk
1 ½ bolli sykur
75 g smjörlíki
2 kg hveiti (tæplega)
1 tsk hjartarsalt
1 tsk lyftiduft


Aðferð:

1. Sjóðið mjólk,sykur og smjörlíki saman
2. Kælið aðeins
3. Setjið tæplega 2 kg af hveiti í fat (geymið 3 – 4 dl)
4. Blandið lyftidufti og hjartarsalti saman við. Hellið mjólkinni saman við og hrærið fram og til baka, ekki í hringi eins og venjulega.
5. Hnoðið deigið og fletjið örþunnt út og skerið með kleinuhjóli eftir brauðdiski, ath þær stækka aðeins í steikingunni.
6. Skerið munstur í kökurnar með laufabrauðsjárni og flettið upp. Festið með mjólk ef kökurnar eru þurrar.
7. Steikjið í sjóðandi heitri tólg og pressið um leið og búið er að steikja kökurnar.

Þetta eru 50 – 60 kökur, ég held nær 60.



Ég hélt lengi vel að það væru bara krakkarnir mínir, þ.e.a.s. þau sem blogga sem lesa bloggið mitt. En umferðin er orðin svo mikil að það hljóta að vera fleiri, hverjir eru þetta? Ég segi eins og Óli af hverju ekki að kommenta? Halló hverjir eru þetta? Spyr ein sem er ekkert sérstaklega forvitin.

Helga var að skrifa um hefðir og mun á íslenskum og þýskum jólum.
Hún kýs að hafa jólin frekar íslensk en þýsk. Í Þýskalandi eru sumir með bratwurst og kartöflusalat á aðfangadag, aðrir með kjúklingasúpu, fisk, brauð og álegg, raclett eða fína steik eins og gæs eða slíkt. Sumir opna pakkana áður en þeir borða, sérstaklega ef þeir eiga lítil börn sem bíða óþreyjufull eftir að fá að opna pakkana. Sjálfsagt er þetta líka mismunandi hér hjá okkur er allir sem ég þekki borða fínan mat, klæða sig fínt, bíða til kl.18 á aðfangadag og hafa hátíðarbrag yfir öllu.
Hjá okkur hefur skapast sú hefð á aðfangadagskvöld að börnin vaska upp eftir matinn. Ég fer í þægilegasta sæti hússins og þau byrja á því að hella uppá og færa mér kaffi og líkjör á meðan þau ganga frá. Þetta hafa þau gert frá því að þau voru lítil. Þegar frágangi er lokið eru pakkar og kort tekin upp. Einn fjölskyldumeðlimur les á alla pakkana, en einn tekur upp í einu, helst til skiptis ef því verður við komið.

Ég hef ekki enn heyrt frá íbúum Reynigrundar 24.


15.12.04

K..... áreitni og hrós!!!

Ég varð fyrir þeirri skemmtilegu lífsreynslu í dag að fá smáskell á bossann frá aðstoðarskólastjóranum, sem er karlkyns. Það liggur við að mér hafi fundist sem ég hafi dottið í lukkupottinn, af hverju, hljótið þið að velta fyrir ykkur?. Jú þannig er mál með vexti að að á mínum vinnustað er hlutfall kynja þannig, að nálægt 90 % eru konur og kynferðisleg áreitni þekkist að ég held, ekki þar. En það hefur alla vega ein kona (Gunnvör) kvartað í bundnu máli yfir þessum skorti á kynferðislegri áreitni í skólanum.
Þetta átti sér stað rétt áður en ég skilaði aukatímum mínum til aðstoðarskólastjórans og notaði ég því tækifærið til að skrá á blaðið sem aðrir aukatímar voru skáðir:
Tilefni: kynferðisleg áreitni, dags. 15.12., tímar: 4 tímar í útkall.
Það er gaman að þessu, og hrósinu sem ég fékk í gærkvöldi.
Þá var Þórður að skoða bókina Skóli í 100 ár sem Stefán Hjálmarsson skrifaði og áritaði með stæl fyrir mig. Við fengum nefnilega öll, þ.e.a.s. starfsfólk skólans, gefins eintak í gær.
Meðal annars skoðaði hann skólaspjöldin af gagnfræðingum og landsprófsnemum. Þegar hann sá myndina af mér þar sem ég er 15 eða 16 ára sagði hann með undrunartón: þú hefur bara verið nokkuð lagleg þegar þú varst ung Sigga mín!!! Ég held að hann hafi bara verið búinn að frétta af fegurð minni, því að blessaður maðurinn er náttúrulega hálfblindur í dag.

Ég hef ekkert heyrt frá Reynigrundaríbúum í dag, en læt ykkur vita ef eitthvað gerist í þeim málum.

14.12.04

Sitt lítið af hverju

Það sem liggur þungt á manni þessar vikurnar er vegna Reynigrundarinnar. Nú veit ég hvernig ferlið verður í þessu. Mestar líkur er því á að bráðum eigi ég tvö hús og þarf því að selja eða leigja annað. Næsta skref eftir riftun er að senda íbúunum reikning fyrir leigu frá því að þau fengu húsið afhent, svo er að stefna konunni og svo að bera þau út úr húsinu, þokkalegt þetta!!!
Best verður líklega fyrir mig að yfirtaka lánið sem þau fengu. Ég talaði við Jóhönnu áðan og hún skilur vel mínar aðgerðir, en sagði að Rafn kemur frá Líbíu í kvöld og þá kemur í ljós með peningana. Hún vissi nefnilega ekki hvort peningarnir væru komnir inná reikninginn hans, en einhver dráttur var á þessu vegna þess að IBAN númer var rangt. Hún kvaðst ætla að láta mig vita á morgun, gaman að vita hvort það stenst.
Ég er auðvitað alveg hætt að trúa nokkru sem þau segja.

Að öðru, smákökubakstur er á fullu í skólanum og mér finnst ég bara alveg vera búin að baka hér heima þótt lítið komi í hús. Ég þarf svo sem ekki að baka mikið fyrir jólin, því Sörurnar eru komnar í frysti og svo verð ég að gera laufabrauð. Ég er eiginlega alveg búin að ákveða matseðil jólanna, Óli minn, ég held að við verðum að sleppa rjúpunum þetta árið. Mér líst ekkert á þessar skosku rjúpur sem lifa líka á allt öðru en íslenska rjúpan og þá vantar þetta góða lyngbragð sem við þekkjum.

Hér er mín tillaga að matseðli jólanna
Aðfangadagur: Graflax skv.hefð, Kalkúnn, Sherrýfrómas (fastir liðir)
Jóladagur: Hefðbundinn matseðill
Annar í jólum: Nýr svínahryggur með tilbehör.
Gamlárskvöld: Forréttur, ekki alveg búið að ákveða hver og Nautalund Wellington
Nýársdagur: Svínahamborgarhryggur með öllu.

Ég hef ekki komist í pottinn síðustu daga vegna þess að ég hef verið kvefuð, kanski fer ég í kvöld. Haldið að ég hafi ekki fengið vatn frá Sigga og Silju á móti, ég sagði bara við Sigga viltu gjöra svo vel að gefa mér vatn í einn pott? Þegar Siggi sagði já, bætti ég við þetta er reyndar 1000 lítra pottur, er það ekki í lagi? Það skemmtilega er að samkvæmt mælingu, þá er vatnið í fínu lagi, tært og fínt. Það var reyndar þannig líka fyrst eftir að ég lét renna i hann með vatni úr bílskúrnum mínum. Ef til vill er rétt það sem Óli sagði að vatnið væri ekki alveg tært út af miðjunni í hauspúðunum, ég ætla ekki að setja miðjuna með og sjá hvað gerist.

Vonandi gengur Þóru vel í prófi sem hún er í núna, ég sendi rafmagnaða strauma til hennar.
Jæja ég verð að hætta núna og fara að útbúa pakka til Þýskalands.

12.12.04

Sunnudagshugleiðing.

Ég vaknaði fyrir allar aldir í morgun, enda fór ég að sofa eldsnemma í gærkvöldi. Það rignir og rignir án afláts núna, vonandi fer ekki að sjóa í dag.
Jæja þá er þriðji sunnudagur í aðventu runninn upp og í dag kveikjum við á Hirðarkertinu. Vissuð þið þetta um kertin á aðventukrönsunum?

Fyrsta kertið er Spámannskertið, sem minnir á fyrirheit spámannanna um komu frelsarans.
Annað kertið er Betlehemskertið, og heitir eftir fæðingarbæ Jesús.
Þriðja kertið er Hirðakertið, nefnt eftir hirðingjunum sem fyrstir fengu fregnir um fæðingu frelsarans.
Fjórða kertið er Englakertið, sem minnir okkur á englana sem fluttu fréttina um fæðingu frelsarans.

Annars er allt fínt að frétta héðan fyrir utan Reynigrundar vesenið. Það er búið að senda Hönnu skeyti um riftingu kaupsamnings og hótun um útburð. Mér skilst að stefnan verði birt í næstu viku.
Hvernig dettur fólki í hug að kaupa hús og halda að hægt sé að sleppa við að borga nokkuð í því? Fá lán í banka, en borga ekkert af því, ég meina það hugsar fólk ekkert? Skyldi fólk sem virðist vera í öðrum heimi og tengir bara alls ekki við raunveruleikann vita hvenær það segir satt og hvenær það segir ósatt? Til hvers er verið að senda fax frá Líbíu um að peningar verði lagðir inn í banka á Íslandi fimmtudaginn 9. des.?
Þetta er nú meira ástandið, en ég hef sýnt þeim biðlund í tæplega 7 mánuði og ég get ekki gert það lengur. Ég er ekki vond :), ég er góð!!!

Í dag fer ég í bæinn í dekur og djamm. Við skólasystur úr HKÍ ætlum að hittast. Við ætlum að hefla hófana, skerpa augabrúnir og hressa uppá andlitið. Við förum líka með pakka og skiptumst á gjöfum, gaman gaman. Ef ég þekki Gunnþórunni rétt verður maginn ekki fyrir vonbrigðum heldur. Það kom meil í gær um að gott verði að hafa með sér bílstjóra, því Gunnþórunn hafði keypt dekurvökva, úps, og ég sem er að fara í leikhús með Þórði í kvöld. Við ætlum að sjá Eldað með Elvis. Þetta er fjórða stykkið sem við sjáum í vetur. Fyrst var það Piaf, svo Úlfhamssaga, þá Járnhausinn og svo Eldað með Elvis. Þannig að það hefur verið nóg að gera hjá okkur og auðvitað höfum við farið á böll líka.
Atli kemur líklega með mér í bæinn, en Þórður er í Reykjavík af því að hann var í 50 ára afmæli í gær.

Á föstudaginn kláraðist seinna námskeiðið sem ég vara að kenna á hjá Símenntunarmiðstöðinni. Eins og ég sagði einhvern tímann, þá var þetta alveg sérstaklega skemmtilega kennsla, þ.e.a.s. að kenna fötluðum. Nemendurnir voru alltaf svo þakklátir og ánægðir að ég bara hálfklökknaði. Tveir af Borgnesingunum komu með myndavél og tóku nokkrar myndir og svo kom framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar og tók nokkrar myndir. Ég er nú samt pínulítið fegin að þetta er búið vegna þess að þetta var mjög mikil viðbót við kennsluna, sérstaklega vegna þess að þetta voru 2 námskeið sem þýddi tveir dagar í viku.

Ég er að hugsa um að kvarta yfir gleraugunum mínum. Þetta er svoddan drast, maður má ekki einu sinni leggjast smá stund á þau án þess að beygla arminn.


9.12.04

Heimboð til Höllu og Palla

Krakkar mínir, Halla hringdi í mig í fyrradag og bíður okkur öllum heim á Þorláksmessu á milli klukkan 18:00 og 21:00. Mér líst ferlega vel á þetta, ég hef aldrei farið til Reykjavíkur á Þorláksmessu og er því alveg til í að prófa það. Það verður gaman að sjá nýja heimilið þeirra, en Halla og Palli giftu sig 27.nóvember s.l. Þau fluttu u.þ.b. viku áður í húsið sem þau keyptu í Hátúninu. Halla bauð Þórði líka og sagði mér að hún skorar á hann að koma, en þau eru jafnaldrar. Auðvitað tók Þórður áskoruninni ef veður verður í lagi.

Í fyrra vorum við í Berlín á Þorláksmessu munið þið? Það var alveg meiriháttar, verandi í skoðunarferð um borgina og á skemmtilegum útimarkaði drekkandi glögg eða Gluhwein umm....

Siggi á móti kom í gær og reddaði nýjum kristal í forhitarann og tók öll blöndunartækin og hreinsaði þau. Það kom alveg svakalega mikið ryðdrasl úr þessu, en krafturinn á sturtunni er þvílíkur að Atli er allur marinn og blár af því að hann notar stóra draslið (sturtuhausinn)í sturtunni.

Gullkorn vikunnar:
Afi, mér finnst Jesús leiðinlegur.
Þetta sagði frænka okkar við afa sinn um daginn. Þetta var Bergþóra hennar Ernu sem var að læra bænirnar eða fara með þær hjá Guðmundi Þorgríms. og hafði greinilega lítinn áhuga á þessum lærdómi.

8.12.04

Kjaraskerðing eða kjarasamningur?

Það má svo sannarlega segja að það hafi verið svartur dagur á mánudaginn þegar í ljós kom að samningarnir voru samþykktir. Nú er staðan því sú að kennarar hafa alveg gefist upp og látið kúga sig til samþykkis. Þetta eru nú meiri gungurnar, ég segi ekki annað. Hlynur spurði um daginn, er ég nokkuð gunga? Hann útskýrði vel hver merking orðsins er, það þýðir að vera hræddur við eitthvað ómerkilegt. Samkvæmt orðabók þýðir orðið: kveif, skræfa, heigull, hugleysingi, raggeit.

51,2% greiddu atkvæði með samningnum og 36,4% greiddu atkvæði gegn honum. Auðir seðlar voru 12,1% og ógildir 0,3%.Á kjörskrá voru 4.912 og atkvæði greiddu 4.515 eða 91,9%
Í dag er ég með 5 skólastjóraflokka og grunnlaun mín sem eru líka heildarlaun eru krónur 237.773,00. Ég mun hækka skv. nýja samningnum upp í kr. 250.851,00 og fer í 1. janúar 2005 í 258.377,00.
En svo kemur rúsínan i pylsuendanum 1. ágúst á næsta ári, lækka ég niður í 243.539,00 og held þeim launum út árið.
1. jan. 2006 hækka ég aftur, heppin er ég, uppí 249.628,00 þetta verða launin það árið. 1. jan 2007 hækka launin aftur og þann 31.des það ár verð ég með 255.244.

Þessi góði samningur hækkar því laun mín frá 1.september 2004 til desemberloka 2007 um 17.471,00. Þetta er glæsilegt finnst ykkur ekki? Launin hækka þó aðeins núna til að byrja með en í loka árisins 2007 verð ég með lægri laun en í janúar 2005.

Ég vil taka það fram að ég er með réttindi á báðum stigum (framhaldskóla líka)og er í dag með þeim hæstlaunuðu í Brekkubæjarskóla.

Fyrst kennarar samþykktu þetta, þá á þessi stétt alltaf ég endurtek, alltaf, eftir að vera láglaunastétt. Nú er ekkert hægt að gera nema hold mund (eller kjæft)næstu 4 árin eða líklega bara forever.

Forystan hefur algjörlega brugðist með því að samþykkja þessa samninga og með því að hvetja kennara til að samþykkja þá og segja að af tvennu illu er þetta betri kostur en gerðardómur. Ég lýsi frati á forystuna og mér finnst tími til kominn að skipta um í brúnni.

Ég læt ykkur vita um gang mála vegna Reynigrundar, en nú ætti að vera búið að birta stefnuna vegna riftunar kaupsamningsins. Nýjustu fréttir eru þær að maðurinn sé úti í Líbíu að útvega peninga og ætli að borga á morgun. Það er örugglega ekkert að marka það frekar en annað sem þau hafa sagt varðandi greiðslu skuldarinnar.



3.12.04

Vonlaus um að fá greitt, því miður. Jólasveinninn minn var Gurra gella.

Í dag er loka-loka-loka- frestur út runnin hjá þessu, mér liggur við að segja andsk..... drullup.... sem keypti húsið á Reynigrundinni af mér. Staðan er því miður ekki spennandi og berist ekki greiðsla í dag verðum við að senda út tilkynningu um riftun á mánudag og fylgja henni eftir með málssókn. Haldið að sé nú óheppni með kaupendur, úff.

En víkjum að aðeins skemmtilegra málefni, jólasveinninn minn var Gurra. Ég er svo ferlega fattlaus að ég áttaði mig ekki á því. Ég blogga ef til vill síðar um það.

Áðan sá ég að potturinn minn var opinn og er líklega búinn að vera opinn til hálfs síðan á sunnudaginn, hitinn var ekki nema 19° og alsnjóugt lokið. Ég skil þetta ekki alveg.

Hangikjöt og starfsmannagleði í kvöld, ég sé til hvort ég fer eftir mat en núna verð ég að þjóta til að kenna fötluðum.



1.12.04

Svörin við ljóskubröndurum

Þið bíðið auðvitað spennt eftir svörunum. Svarið við fyrri spurningunni(um muninn á ljósku og Hondu) er:
Þú lánar ekki Honduna.

Svarið við spurningunni um hversu margar ljóskur þarf til að búa til súkkulaðibitakökur er:
10 eina til að hnoða deigið og 9 til að skræla M&M.