Sigríður Kristín Óladóttir

29.6.07

Ævintýraleg sigling heim

Það má segja að siglingin heim hafi verið ævintýri líkust. Að fara í stærstu tækin í Tívolíi er ekkert miðað við þessa siglingu. Maður er þó festur niður í tækjunum, en um borð í skipinu þurftum við að ríghalda okkur til þess að fara ekki á fleygiferð!!!! Við sátum fremst á 6. dekki í skipinu sem er 121 m langt og 25 metra breitt. Skipið tekur 1500 farþega, 262 bíla og í því eru 340 svefnklefar. Ég sat við glugga en þannig að ég sá líka út um framrúðuna. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða þegar við komum um borð, þetta líka fína hlaðborð. Okkur var sagt að flýta okkur svolítið að borða af því að allur maturinn yrði tekinn þegar við komum út úr höfninni. Við drifum í þessu og borðuðum okkur vel södd. Við áttum að leggja af stað kl. 17:15, en við lögðum ekki af stað fyrr en klukkan 18:30. Ég held að seinkunin hafi að hluta til verið vegna þess að starfsmenn ferjunnar voru að festa bílana og festa allt betur sem hægt er að festa.
Um leið og við vorum komin út úr höfninni byrjaði þessi líka mikli veltingur, við höfum aldrei upplifað annað eins. Skipið valt ekki bara upp og niður heldur líka til hliðar, skiljið þið hvað ég meina? Fólk byrjaði strax að æla í kringum okkur, sem betur fer sá ég bara eina konu æla en heyrði í öllum hinum. Þórður sá aftur á móti miklu fleiri æla af því að hann snéri þannig. Ölduhæðin var 20 metrar, ég hef aldrei séð annað eins. Við sigldum inní sumar öldurnar, þetta var bara eins og skipið hefði fengið á sig brot. Ég segði ósatt ef ég héldi því fram að ég hafi ekki verið hrædd, maður var alveg á nálum allan tímann. Siglingin tók tæpa 4 klukkutíma í stað 2,5 og þeir klukkutímar voru svo sannarlega ekki fljótir að líða!!!
Þvílíkur munur á siglingunni til Bornholms sem tók 1 tíma og 15 mín. í spegilsléttum sjó og svo á þessari glæfrasiglingu. Ég er eiginlega mest hissa á því að þeir skyldu hafa lagt af stað í þessum öldugangi. Ég veit ekki hvað brotnaði mikið af leirtaui hjá þeim um borð, en það var pottþétt einhverjir tugir diska og glasa sem fóru í mask.
En mikið vorum við fegnin að komast í land eftir þessa löngu sjóferð.

Núna ætlum við að skipta hjálminum fyrir Óla og svo förum við að kaupa inn og undirbúa kvöldmatinn af því að Gunnþórunn og Halldór sem við vorum með frá því um hádegi í gær og fram á kvöld ætla að koma í mat til okkar í dag.

Ég segi ykkur seinna frá því hvernig gekk með miðana okkar ha ha ha!!

27.6.07

Vitlaust veður í dag!

Ja hérna það er bara eins og við séum komin heim í rammíslenskt haustveður, ausandi rigning og mér liggur við að segja stormur. Eftir athugun á veðurlýsingu hér á Bornholm, er stormur úti þessa stundina.
Við vorum að skila herberginu okkar og erum búin að gera upp. Við fréttum í móttökunni að hraðferjan sem við komum með hingað gengur ekki í dag. Við vorum aðeins 1 klukkutíma og korter að sigla hingað til Rönne frá Ystad í Svíþjóð. Þetta var svaka flott ferja sem sigldi á 40 hnúta hraða sem eru 74 km. hraði. Þegar við förum heim í dag tekur siglingin yfir til Svíþjóðar aftur á móti 3 klukkutíma, hraðferjan siglir ekki í svona mikilli ölduhæð sem er víst um 5 metrar ef ég hef skilið þetta rétt. Við komum því ekki til Kaupmannahafnar fyrr en seint í kvöld vegna þess að siglingin tekur jafn langan tíma og öll ferðin hingað tók á sunnudaginn. En þetta verður gaman, vonandi verðum við ekki ælandi og spúandi allan tímann ha ha ha, við erum eða vorum auðvitað vön veltingi frá því í gamla daga með Akraborginni.
Við ætluðum að ferðast í dag af því að við siglum ekki fyrr en 17:15, en eins og ég hef skrifað þá er ekki hundi út sigandi og ætlum við þess vegna bara að bíða hér á þessu fína hóteli þar til við förum. Ég fékk meira að segja nýtt kort til að komast á Netið hér í tölvunni minni.

Í gær stytti upp og við löbbuðum niður í bæ í fínu verðri, en við vorum hálfdösuð eftir alla gönguna á mánudaginn þannig að við fórum fljótlega aftur á hótelið og borðuðum hér á Di 5 Stauerne veitingastaðnum í gærkvöldi. Við fengum okkur Chateaubriand sem var auðvitað algjört æði.

Ég læt þetta duga í bili, við heyrumst.

26.6.07

Bornholm i dag!

Nú erum við búin að vera hér síðan á sunnudaginn og hér er yndislegt að vera. Við keyptum okkur sólarhrings kort og ferðuðumst mikið i gær med BAT vögnunum. Við fórum nánast um alla eyjuna og gengum i marga klukkutíma upp og niður hæðir og brattar brekkur. Það sem stóð uppúr i gær var að skoða Hammershus sem er nyrst á eyjunni. Þetta eru hallarrústir frá því um 1200. Höllin eða borgin var byggð á bjargi, 74 m yfir sjó og aðeins var ein fær leið landleiðina í borgina, sem sagt yfir brúna. Við stoppuðum i mörgum bæjum hér og skoðuðum það markverðasta í hverjum bæ.
Hótelið er frábært, herbergið okkar er á þriðju hæð með svölum og er með útsýni út á sjó. Morgunverðurinn er algjört æði, ég man varla eftir eins flottu og fjölbreyttu morgunverðarhlaðborði eins og boðið er uppá hér.
Vid fengum líka stærra herbergi en við pöntuðum og getum eldað ef við viljum hér!!!

Það er undarlegt hversu oft ég vígsla stöfum þegar ég tala, ég sagði t.d. Ég ætla í stugga snörtu o.s.frv. Ég var líka ad lesa fyrir Þórð úr einum bæklingnum í gær um hve fallegt sólsetur er í Hasle. Hvað haldið þið að ég hafi sagt i staðinn fyrir sólsetur? Sólsetur er solnedgang á dönsku.

Við fengum alveg frábæran mat í útskriftarveislunni hjá Óla senior. Veislan var haldin á pínulitlum stað sem heitir Fru Heidberg og er ekki langt frá okkur á Austurbrú. Takk fyrir siðast og takk fyrir okkur!

Veðrið hefur leikið við okkur hér, sól og blíða allan sunnudaginn og í gær. En í morgun var rigning og rok. Það er hætt að rigna, en við höldum okkur hér á hótelinu þar til lægir aðeins. Við förum öruggleg eitthvað á flakk eftir hádegi ef ekki fyrr.
Ekki meira núna, hafið það gott og við sendum bestu kveðjur frá Rønne.

22.6.07

Steypa og útskrift í dag.

Það er verið að steypa sökkulinn eða grunninn hjá Helgu og Alex í dag. Til hamingju með það krakkar mínir!!

Óli Örn Hlöðvers er að útskrifast hér í Kaupmannahöfn í dag sem viðskiptafræðingur. Við óskum honum og fjölskyldu hans til hamingju. Við eigum eftir að gefa honum góða klemmu i kvöld þegar við mætum í útskriftarveisluna.

Við skruppum til Helsingborgar í gær, það var mjög fín ferð. Falleg borg þ.e.a.s. það sem við sáum af henni þessa fáu tíma sem vi stoppuðum þar. Við gengum þó upp í Karnan í Slottshagen þar í borginni. Þetta voru í allt yfir 320 tröppur og útsýnið var frábært þegar við vorum komin í þessa hæð.

Á sunnudaginn förum við til Borgundarhólms og verðum þar fram á miðvikudagskvöld. Við förum með lest og svo siglum við út í eyjuna. Við keyptum miða á netinu og borguðum fyrir þá 80 danskar krónur fram og tilbaka. Við eigum eftir að sjá hvort þessir miðar koma okkur alla leið, ef svo er þá er þetta alveg með ólíkindum. Ef til vill leigjum við okkur hjól og hjólum um eyjuna við ætlum að sjá til með það. En það eru vissulega ótalmöguleikar til að ferðast um þar.

Gunnþórunn og Halldór koma hingað á mánudaginn og verða hér í viku. Við hittum þau þegar við komum tilbaka frá Borgundarhólmi. Svo styttist í að Bogga, Loftur og Magga komi. Þau koma þann 3.júlí. Sigga Skúla og fjölsk. koma þann 4. júlí og verða á Jótlandi til 19. júlí. Við eigum örugglega eftir að kíkja til þeirra. Þannig að það er nóg að gera og við eigum bara eftir að vera hér í tæpan mánuð. Ekki meira í bili. Hafið það gott og góða helgi!!

Þegar Atli var í heimsókn hjá okkur

Myndin var tekin á barnum í Carlsberg safninu.
Þeir eru flottir strákarnir, en þó þreyttir eftir að halda mallanum inni í langan tíma!
Við Atli fyrir utan safnið, Atli með bjórglösin sín.
Þessi mynd var tekin af okkur í Gilleleje
Posted by Picasa

Fleiri myndir frá Ærö


Það voru margar skúturnar í höfninni í Marstal
Ég fékk einkakennslu í að búa til Ærö pönnukökur
Þórður við snyrtilega kirkjugarðinn í Söby
Svo sáum við þessa fögru hafmeyju á Ærö
Posted by Picasa

Myndir frá Ærö

Algengt var að vera með sjálfsafgreiðslustaði við þjóðvegi
Þessi mynd er tekin upp í turni við golfvöllinn i Sjoldnæs

Þórður á einni af breiðustu götunni í Marstal.
Posted by Picasa

Frá 1. mai í Frederiksværk

Þórður úti í blíðunni
Allir drukku bjór og borðuðu rauðar pylsur!
Posted by Picasa

16.6.07

Til hamingju með útskriftina!

Þá er aldeilis stór dagur í lífi margra í dag. Til hamingju með útskriftina elsku stelpur. Þóra er að útskrifast sem íslenskufræðingur, Karen sem mannfræðingur, Erna sem ljósmóðir og Elsa Dóra vinkona sem íslenskufræðingur með kennsluréttindi. Enn og aftur til hamingju stelpur og megið þið eiga góðan dag. Við óskum fjjölskyldum ykkar líka hjartanlega til hamingju.
Við verðum því miður fjarri góðu gamni í dag, en það hefði vissulega verið gaman að vera heima og fagna þessum stóra áfanga með ykkur.

Við höfum það nú samt mjög gott hér í Kaupmannahöfn. Sem betur fer hefur kólnað um a.m.k. 10 gráður, hitinn er um 20 stig.
Ég er búin í skólanum, tók munnlega prófið þann 12. júní og það gékk vel.
Atli er hjá okkur núna og við erum búin að hafa nóg að gera og gaman að hafa hann hjá okkur. Á þriðjudaginn eftir prófið fórum við til Helsingör og ætluðum að skoða Krónborgarkastalann, en vorum aðeins of sein. Við komum bara hálftíma fyrir lokun, þannig að við gengum um svæðið og fórum svo í bíltúr. Þann dag var svo heitt að best var að vera í loftkældum bílnum. Við fórum í Tívolí á miðvikudaginn og við Þórður fórum í öll stóru tækin og höfðum gaman af. Svei mér þá, við vorum eins og börn aftur. Ég held að ég megi fullyrða að ég var ekki eins hrædd og Óli var þegar hann fór um daginn, enda fædd hetja ha ha ha!
Á fimmtudaginn fórum við í Fiskitorfið og á Bakken og í gær skoðuðum við það sem við gátum skoðað af Rósenborgarhöll, það er verið að styrkja gólfin uppi þannig að við komumst ekki þangað. Ég verð bara að koma hingað aftur á næsta ári eða síðar til að skoða það sem ég á eftir að skoða af höllinni þar sem uppáhaldskóngurinn minn Christian den IV byrjaði að byggja 1606 og þar sem hann dó.

Í dag eru 17. júní hátíðarhöldin haldin hér á 5 ören á Amagerströnd, við ætlum að kíkja þangað þrátt fyrir alíslenskt veður, nú er rok og spáð er rigningu.

Hafið það sem allra best kæru vinir. Elsku útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra megið þið eiga góðan dag!!

7.6.07

Ærö var algjör paradís!!

Þá er frábærri ferð okkar til Ærö lokið. Við fórum þangað 31. mai og komum aftur til K.hafnar á þriðjudagskvöldið þann 5.júní. Eyjan er algjör paradís, þótt lítil sé. Hún er aðeins um 90 ferkm. og ca 30 km. löng. Íbúafjöldi er um 6900 og stærstu bæjirnir eru Marstal, Ærosköbing og Söby. Við vorum í stærsta bænum Marstal, en sigldum frá Svendborg til Ærosköbing. Þegar við keyrðum um borð í ferjuna í Svendborg fengum við á tilfinninguna að við værum að aka um borð í Akraborgina á meðan hún sigldi heima, gaman!!! Siglingin tók 75 mínútur sem voru ekki lengi að líða. Á Ærö er stærsta sólarorkuver í heimi og er staðsett í Marstal, það var gaman að sjá það. Það var líka mjög gaman að vera á harmonikumótinu, þar sem stanslaust var spilað á tveimur sviðum frá föstudegi klukkan 19:00 til klukkan 16:00 á sunnudeginum. Það voru reyndar smáhlé á spilamennskunni yfir blánóttina. Ég þarf endilega að setja inn myndir hér á síðuna fljótlega frá þessari frábæru ferð okkar.

Óli kom í gær og við skutluðum honum til Frederikssund og svo á hótelið í Lyngby. Hann er hér ásamt samstarfsfólki úr Hagaskóla í náms- og kynnisferð. Við eigum vonandi eftir að sjá aðeins meira af honum, en ef til vill ekki fyrr en á sunnudaginn. Við fórum á línudansæfingu í Kildevaldskirkju í gær. Við æfðum fyrir sýninguna sem verður á sunnudaginn og skemmtum okkur svo með hópnum í samtals 4 tíma, þeim fannst íslenska brennivínið mjög gott :)

Atli kemur á mánudaginn og ætlar að vera hér í tæpa viku, það verður gaman að fá hann í heimsókn. Þóra, Karen og Erna útskrifast allar þann 16.júní (íslenska, mannfræði og ljósmóðir), við getum því miður ekki verið með þeim á útskriftardaginn en vonandi verður þetta frábær dagur hjá þeim. Óli senior útskrifast úr Copenhagen Business School þann 22.júní og var svo elskulegur að bjóða okkur í útskriftarveisluna, það verður örugglega skemmtilegt.

Ekki meira núna, nema smá veður- og hitalýsing. Inni hjá okkur er 28 stiga hiti þrátt fyrir það að allir gluggar eru galopnir, en úti er 31 stigs hiti en sólarlaust. Ég ætti því líklega að prófa að loka gluggunum eða hvað?