Sigríður Kristín Óladóttir

30.11.04

Jólasveinninn minn

Við í Brekkubæjarskóla erum í jólasveinaleik sem er þannig að við starfsfólkið setjum skóinn í gluggann í vinnuveri kennara. Við sem tökum þátt drögum nafn úr potti og það verður okkar jólavinur. Leikurinn stendur yfir í eina viku, þá laumast allir til að setja einhvern glaðninn í skóinn. Minn jólasveinn er svo skemmtilegur, sendir mér skemmtileg bréf og æðislegar gjafir. Í dag fékk ég æðislega kertastjaka og kerti til að hlýja mér við og jólasokksbrjóstsykur, nammi, nammi, namm.

Þar var einnig að finna tvær spurningar, önnur var svona: Hver er munur á ljósku og Hondu? Vitið þið það?

Hin spurningin var þessi hvað þarf margar ljóskur til að baka súkkulaðismákökur? Svarið, ef þið getið, annars skal ég segja ykkur svörin seinna í dag.

Það kom bréf frá Nínu og mynd af henni í Nationalgeographic World.



Glæsileg mynd af Nínu, en hún breytti viljandi jólamatseðlinum. Við erum vön að hafa rjúpur, en henni finnst þær ekki góðar og dadda radda da.....breytti því rjúpunum í kjúkling.

Ég get varla sagt ykkur þetta, en það er sami grautur í sömu skál og fj......liðið hefur ekki enn borgað mér. Það stefnir því allt í samningnum verði rift.

Til þess að létta ykkur lundina get ég sagt að það er alltaf jafn gaman að kenna á námskeiðinu með fullorðna fatlaða fólkinu. Þessir tímar eru alvega óborganlegir og ég segi það satt að ég skemmti mér mjög vel og sama held ég að nemendurnir upplifi. Í gær kom t.d. gullkorn frá Áslaugu. Þannig var að hún hélt innflutningspartý og bauð nokkrum vinum sínum. Að minnsta kosti einn gestur koma alla leið úr Reykjavík. Hún sagði okkur að þessum gesti verði ekki boðið aftur til hennar og hver var ásæðan? Jú hann hafði fært henni Toblerone, ekki fyrir hana heldur til að borða það sjálfur!!!
Ég er viss um að við vildum stundum gjarnan vera svona hreinskilin eða hvað?

Nú er ég að kenna upplýsingatækni fyrir Sigurþór og þetta gengur afar vel.

25.11.04

Svik eina ferðina enn!!!

Það kemur mér svo sem ekki á óvart að ég fékk ekki borgað í dag. En ég á samt alltaf jafn erfitt með að skilja fólk sem getur logið svona aftur og aftur, lon og don eða trekk í trekk. Samt sem áður verður maður ferlega fúll og svekktur af því að innst inni var ég auðvitað að vona að fá borgaðar þessar millur sem ég á hjá Jóhönnu eftir að Soffía fasteignasali hringdi í gær og sagði að ég fengi borgað í dag.

Þetta þýðir það, að ég verð að fresta enn um sinn að láta klára mjög dýrar tannviðgerðir sem ég byrjaði á í sumar. Það merkilega er þó að þetta lið hefur komið mér til að ljúga. Ég segi það satt að seinast þegar ég laug, var þegar ég afpantaði tíma hjá tannlækni. Ég var að læra að hekla hjá Siggu Skúla og hringdi til tannlæknis og afpantaði tímann. Ég sagði að ég væri svo lasin að ég kæmist ekki í tímann. Mér tókst ekki vel upp í þessu og hló eins og asni þegar ég sagðist vera lasin sérstaklega af því að Sigga, Hrönn, Laufey og Sigga Ragnars hlustuð á mig. Aumingja stúlkan hún Stína á tannlæknastofunni sagði einfaldlega við mig: Já allt í lagi Sigga mín, skemmtu þér bara vel í veikindunum.

Þetta þýðir líka það að ég get ekki farið í Extreme makeover og fengið brasílíska rasslyftingu!!!!!

Uppgreiðsla?

Money, money, money, money......
Ég verð að segja að mér leikur forvitni á að vita hvort ég fæ borgað í dag. Soffía fasteignasali hringdi í gær og sagði að Rafn bæði um þau skilaboð til mín að hann eða þau muni borga í dag. Ég hef svo sem heyrt þetta áður og hef ekki miklar væntingar en sjáum hvað setur. Ég læt ykkur vita um stöðu mála.

Við fórum á kynningarfund i gær og það kom mér á óvart hversu margir virtust ætla að samþykkja samningana. En auðvitað voru líka margir sem ekki geta og ætla ekki að samþykkja. Eitt er víst að verði þessir samningar samþykktir mun ég aldrei framar styðja það að fara í verkfall og við kennarar fáum aldrei leiðréttingu launa okkar, svo einfalt er það nú.

23.11.04

Rigning og eldur

Jæja nú er farið að rigna úti, vonandi fer allur snjórinn áður en frýs aftur.
Helgin var fín, frábærar móttökur hjá Hönnu og fjörugt ball. Sumir hefðu þó mátt sleppa einu eða tveimur tequila skotum á ballinu, ég nefni engin nöfn.

Það stefnir í að samningnum vegna sölu á Reynigrundinni verði rift, þetta er nú meira vesenið.
Sambýlismaður Hönnu talaði við Eirík hjá Jóni Sveins í gær og hann kvaðst eiga von á peningnum og ætlaði að borga þetta allt upp í topp. Hann vissi hins vegar ekki hvenær. Því miður getum við ekki treyst því, sérstaklega þar sem samkvæmt reynslu minni er ekkert að marka það sem hann hefur sagt við mig.

Það á að vera kynningarfundur á samningnum á morgun í Grundaskóla, það verður gaman að heyra hljóðið í kennurunum. Ég frétti af fundi í Hafnarfirði í gær og þar var fólk ekki parhrifið, það kemur ekki á óvart!!

Vonandi hjálpar rigningin til við að klára að slökkva eldana í Hringrás sem er endurvinnslufyrirtæki í Reykjavík.
Eldvarnareftirlitið hafði bent á eldhættu af dekkjahaug Hringrásar, það hefði verið betra ef eitthvað meira hefði verið gert en að benda á hættuna.


Breytingar

Ég gleymdi að segja að ég var að breyta og linka á Alex tengdason minn sem er með flotta heimasíðu með uppskriftavef, myndasafni og gestabók. Kíkið endilega á síðuna hans. Einhverntímann seinna tek ég hann mér til fyrirmyndar og kem uppskriftunum mínum á heimasíðuna mína og auðvitað myndum líka.

20.11.04

Föndur og ball

Ég er að fara að leggja af stað til Reykjavíkur. Við systur skóla ætlum að föndra eftir hádegi í dag, eitthvað voða sætt með servíettum á dollur eða dósir.
Svo er harmonikuballið í kvöld, þannig að ég hringi í þig á morgun Helga mín. Nú er ég búin að kaupa mér kort sem ég prófaði þegar ég hringdi á fimmtudaginn, en þá var síminn hjá ykkur bilaður. Þegar ég nota kortið, kostar mínútan rúmar 3 krónur sem er alveg skítódýrt (venjulega um 20). Ég sá á MSN inu í morgun að síminn hjá ykkur ætti að komast í lag í dag.

Ég var að kenna fatlaða fólkinu í gærkvöldi og nú er ég búin að vera tvisvar með báða hópana. Þetta eru alveg frábærir tímar og þátttakendurnir eru alveg meiriháttar. Ég var heppin að einn nemandinn skar sig ekki þegar hann var að skera lauk í gær, ég segi ykkur frá því seinna. Núna er það sturta og svo að drífa sig í borg óttans.

19.11.04

Hvítlauksmareneruð læri er uppskrift vikunnar og kemur frá Þóru.

Þóra hringdi í mig í fyrradag og bað um ráðleggingar varðandi eldamennsku á úrbeinuðu lambalæri, sem ég veitti fúslega. En hér kemur lýsing Þóru á uppskrift vikunnar:

Ég gerði ráð fyrir að þetta væri úrbeinað læri, af því að þetta var bara ein útflött klessa! Nú ég skellti innihaldinu á ofnplötu og inn í ofn, sá reyndar að það slitnaði upp úr lærinu, svo ég hugsaði með mér ómg hvað þetta er illa úrbeinað, bara allt í stykkjum. Meðan það á auðvitað að vera ein klessa!

Anyways, þá klessti ég bara þessu slitna upp við hitt og hafði þetta inni í ofninum ríflega þann tíma sem sagður var utan á pakningunni, svo gerði ég kartöflur, grænar baunir og broccolí og svo brúna sósu úr soðinu! Svaka fínn matur, nema.. svo kemur bróðir minn og við byrjum að borða, tökum svo eftir því hvað kjötið er eitthvað bleikt, en svosem spáum ekkert frekar í því. Bæði vön að borða hérumbil hrátt nautakjöt og lambakjöt alveg frá því að við munum eftir okkur..

Svo segi ég við Óla þegar ég tek kjötið út: „guð, nú veit ég af hverju þetta var svona ódýrt... þetta er ekkert nema bein!“ Við höldum áfram að borða og svo er Óli búinn með tvo bita og ég einn þegar Óli segir.. „ertu viss um að þetta sé lambalæri?“ En þá föttuðum við að þetta er auðvitað kjúklingalæri... ha ha ha ha ha! Nú erum við semsagt bæði að bíða eftir salmonellunni... Óli heldur því fram að nú komi nýtt afbrigði af henni: þórólella!

Ég gleymdi að segja ykkur í gær að það var mynd af Mömmu Rokk (ásamt fleira fólki) að tvista í Skessuhorni, þar er í greinilega í svaka stuði. Undir myndinni stendur í villtu tjútti!!! ooobbb bobbb obbbb.
Myndin var tekin á Haustmóti línudansara sem heppnaðist alveg frábærlega í alla staði. Enda höfðum við Og útlagarnir séð um skipulagninu og alla framkvæmd mótsins.

Á morgun fer ég í bæinn, við skólasystur ætlum að föndra og fá okkur gleðidrykki hjá Hönnu. Við byrjum kl. 14.00 og ég þarf að fara að undirbúa föndurdósina.
Síðar um kvöldið fer ég á harmonikuball sem Félag harmonikuunnenda á Vestulandi og í Húnavatnssýslum sjá um í Ásgarði. Ég fer með Þórði sem er formaður Fél. harmonikuunnenda á Vestulandi.
Það verður örugglega stuð stuð stuð og feikigaman.

Lokaaðvörun

Er ekki undarlegt að sumir lenda bókastaflega í öllu, sem hægt er að lenda í. Ég er alveg hætt að botna í þessu.

Konan sem keypti húsið af mér og ég hélt að væri pottþéttur kaupandi, hefur ekki borgað og nú er staðan sú að Frjálsi fjárfestingarbankinn er búinn að auglýsa byrjun uppboðs þann 24 nóvember n.k. þar sem ekkert hefur verið greitt af láninu sem fékkst þar.
Lögfræðingar mínir eru búnir að senda bréf þar sem við munum rifta kaupunum ef hún greiðir ekki fyrir 23. nóvember. Það er skemmtilegt eða hitt þó heldur að lenda í þessu and....... veseni.

18.11.04

Ástarleikmaður v/Ástarleikkona.

Snúum okkur aðeins að léttara hjali.
Helga var ekki heima þegar ég hringdi í kvöld. Hún var nefnilega á fyrirlestri hjá sálfræðingi og náttúrulækni. Fyrirlesturinn kallast kynlíf og heilsa/heilbrigði og fjallar um jákvæð áhrif kynlífs á heilbrigði einstaklinga. Hún hefur mikinn áhuga á að vera með kynlífsuppistand og halda þennan fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands og spyr á blogginu sín: Haldið þið að þið munduð ekki mæta og taka bestu vinkonu, vin eða ástarleikmann með ykkur?
Margir gáfu loforð um að mæta og sumir þurftu að segja það oftar en einu sinni!!!
Takið eftir þessu skemmtilega orði ástarleikmaður, en hvað erum við konurnar, ekki erum við ástarleikkonur?

Nú ætla ég að fara í pottinn, það vill svo skemmtilega til að ég get horft á sjónvarpið sem er í svefnherberginu úr pottinum. Ég get meira að segja lesið textann!!


Hvað er að? Gafst formaðurinn og samninganefnd KÍ hreinlega upp?

Skárri en gerðardómur segir hann eftir að samningur var undirritaður, ég púa á þetta. Samningur sem gefur okkur 1,5 % meira en miðlunartilllaga sáttasemjara og 75.000 kr. eingreiðslu 1. júlí. Ég segi nei takk, frekar vil ég láta gerðardóm ákveða launin en að samþykkja þetta sem er reyndar skuggalega nálægt því sem 93% félagsmanna KÍ felldu. Ég er tilbúin að taka þá áhættu, þrátt fyrir hrakspár og halda sjálfsvirðingu minni,. Mér finnst undarlegt að formaðurinn skuli hvetja okkur til að samþykkja samninginn og hann fullyrðir að þessi samningur sé skárri kostur en gerðardómur.
Á kennarafundi í Brekkubæjarskóla voru að ég held flestir sammála um að þetta væri algjör hneisa og að við látum ekki berja okkur til hlýðni.
Ég var ánægð að heyra í kvöldfréttunum að sama afstaða virtist vera hjá kennurum í Austubæjarskóla og Hlíðarskóla. Við sjáum hvað kemur út úr atkvæðagreiðslunni sem á að fara fram 29. nóvember til 1. desember.

12.11.04

Fyrirsögn í höfn!

Þetta er glæsilegt, takk fyrir Óli minn. Ég held þessum lit og prufupóstinum, þá get ég breytt seinna ef mér sýnist svo.
Það virðist vera þannig að nýjasta fyrirsögnin er vinstra megin en hinar eldri færast svo yfir til hægri.

Annars er allt á fullu hjá mér, er að undirbúa námskeiðið í kvöld og kaupa inn fyrir það og smávegis fyrir Haustmótið. ´

Ég er komin á vetrardekk, keypti reyndar ekki nagladekk að þessu sinni og ek því varlega þá daga sem naglar væru betri. Undanfarin ár voru sárafáir dagar sem þörf var á vetrardekkjum, en maður veit aldrei. Ég held samt að naglar veiti að vissu leyti falskt öryggi í vetrarakstrinum.

Ekki skil ég af hverju gerðadómur á ekki að hefja störf fyrr en um miðjan desember, það verður allt vitlaust í stéttinni. En kíkið endilega á ummæli Eiríks í morgun eftir ríkisstjórnarfundinn hér fyrir neðan.

Svartur dagur

Eiríkur: „Þeirra skömm mun verða ævarandi“

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að með ríkisstjórnarfrumvarpinu sé búið að rústa skólaárið. „Skólastarf þurfti á einhverju öðru en þessari óvissu að halda og það er deginum ljósara af hverju sveitarfélögin vildu ekki semja við okkur á einhverjum gáfuðum forsendum. Það var af því að ríkisstjórnin var búin að lofa þeim þessu.“

Eiríkur segir að um sé að ræða einhverja mestu aðför að skólastarfi á Íslandi sem hann muni. „Þeirra skömm mun verða ævarandi. Við erum búin að eiga í þessari kjarabaráttu í allan þennan tíma og datt í hug að með gerðardómsleið, og forsendum þar sem yrði miðað við sambærilega hópa, gætum við fundið lausn á málinu, sem fæli í sér að gerðardómur yrði kallaður saman strax, fengi einhver alvöru viðmið og ætti að skila af sér fyrir áramót,“ segir hann.

„Ég var á fundi inni í verkfallsmiðstöð rétt í þessu og það eru alveg ofboðsleg sárindi og reiði í hópnum. Ekki bættu ummæli menntamálaráðherra á Stöð 2 í gærkvöldi úr, þar sem hún svívirti kennarastéttina. Mér er til efs að kona hafi talað jafn niðrandi um kvennastétt áður á opinberum vettvangi,“ segir Eiríkur.

„Málið er í algjörum hnút og algerri upplausn. Menn völdu ekkert sem við bentum á á fundinum með ríkisstjórninni í gær, en fóru þá leið sem við töldum að væri örugg til að stefna málinu í vandræði,“ segir hann.

Fjölmargir kennarar eru nú komnir niður á Austurvöll, en Eiríkur segir að hinn almenni félagsmaður sé „alveg brjálaður“.

Smá prufa

Hæ mamma Rokk... bara að athuga hvort að ég hafi náð að fixa þetta bögg með hedderinn... sem mér tókst náttúrulega :)

Ef þú vilt breyta litnum á titlinum þá þarft þú að velja þér lit hér.
Þú færir bara einn hvíta rammann í svar/rauðu, svar/grænu eða svar/bláu línunni og þá sérðu nokkur dæmi fyrir neðan.

Þegar þú ert búin að velja þér lit þá ferðu í template-ið og finnur eftirfarandi:
h2{color:#0000A6 til að breyta litnum paste-ar þú bara einhverja aðra tölu yfir #0000A6 hlutann. T.d. þá er #000000 svart, #FFFFFF hvítt o.s.frv. um að gera að prófa sig áfram :)

Þú reddarissu... svo eyðiru bara þessum póst þegar þú ert búin...

Óli

11.11.04

Lög á morgun

Lög á morgun?

Það fer í taugarnar á mér að geta ekki sett fyrirsagnir í bloggið hjá mér eins og krakkarnir geta, en ég sætti mig samt við þetta.

Sigga Guðna frá Þorlákshöfn kom til mín í dag og það er alltaf gaman að sjá hana. Við vorum saman í framhaldsdeild KHÍ og unnum 2 stór verkefni saman ásamt Jóhönnu og Þórunni. Siggi hennar Siggu fór til læknis hér á Skaganum og við spjölluðum á meðan. Við Sigga töluðum m.a. um að við verðum eiginlega að sækja um styrk út á verkefnin sem við unnum vegna þess að þetta voru þrusugóð verkefni.

Á fundi ráðherra með fulltrúum kennara í morgun voru Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Davíð Oddsson utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Árni Magnússon, félagsmálaráðherra. Að loknum fundi sagði Eiríkur að kennarar hafi á fundinum fengið að heyra mat ríkisstjórnarinnar á stöðunni í kennaradeilunni eins og hún er núna. Eiríkur sagði að kennarar hafi lýst upplifun sinni á stöðunni í gær en þeir hafi farið betur yfir það með ráðherra nú í morgun.

Óli var að velta fyrir sér hvað Dabbi kóngur hafi verið að gera á fundinum, ég held ég viti það eftir að hafa horft á Ísland í dag áðan. Hann hefur verið að hjálpa eða svara fyrir Þyrnirós, sem bæðövei hefði betur setið heima en koma í viðtal í sjónvarpinu í kvöld. Hún fór marga hringi og sagði m.a. að þó svo að sveitarfélögin réðu yfir öllum fjármálum ríkisins gætu þau ekki komið á móts við ýtrustu kröfur kennara. Þetta er sem sagt menntamálaráðherra okkar sem talar svona og eitt er víst að hún er ekki hliðholl kennurum og ég verð að segja það að ég er ekki hissa þótt sjálfstæðisflokkurinn (og framsókn reyndar líka) tapi fylgi í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins þegar ráðherrar flokksins (eða flokkanna) tala svona.

Sáuð þið í fréttum kvöldsins þegar sýnt var frá Alþingi að þingsalur var svo til tómur þegar utanríkisráðherra flutti skýrslu sína um utanríkismál?
Hvar eru þingmenn, alltaf í kaffi eða hvað?

Það verður gaman að sjá hvað gerist á morgun, lög eða gerðadómur? Maður veit ekki einu sinni hvað gerist ef lög verða sett á okkur. Hvað með launin, hækka þau ekkert? Vitið þið þetta?

10.11.04

Lög?

Ég hef verið frekar slöpp í rokkinu að undanförnu, en það er bara stundum svona.
Baksturinn gekk vonum framar hjá okkur Þórði á sunnudaginn og hann er bísna efnilegur pilturinn. Hann var nú samt að grínast með það að þetta væri æfing fyrir mánudagskvöldið, úps!!
Við bökuðum yfir 100 fyllt horn og ennþá fleiri kanilsnúða sem verður hluti af kaffibrauðinu á laugardaginn á Haustmóti línudansara. Það eru komnir yfir 40 þátttakendur sem er alveg frábært.

Á mánudaginn byrjaði matreiðslunámskeiðið fyrir fatlaða. Kennslan gekk alveg einstaklega vel, þrátt fyrir mikla fötlun sumra þátttakenda og þetta var mjög ánægjuleg kvöldstund. Þessir einstaklingar eru svo jákvæðir og þakklátir fyrir allt sem gert er að það vekur mann til umhugsunar og sjálfsagt á ég eftir að læra heilmikið á þessari kennslu.

Ég skrapp í bæinn í dag, hitti krakkana og svo fórum við Þóra á búðarráp og versluðum smávegis, það er alltaf gaman að hitta krakkana og kíkja í búðir.

Ég var alsæl með úrslit atkvæðagreiðslunnar um miðlunartillöguna og samstöðuna hjá okkur, en 93% felldu tillöguna, frábært.
Það voru mikil vonbrigði að uppúr slitnaði í viðræðum viðsemjenda í kennaradeilunni í dag, en mér finnst liggja í loftinu að sett verði lög á okkur. Ég er líka ánægð með að forsvarsmenn okkar kennara eru búnir að gera allt sem þeir geta til að leysa þennan hnút og boltinn er því hjá launanefndinni eða ríkinu sem verður að fara að grípa inní með einhverjum ráðum.

Hvað ætli gerist á morgun?

5.11.04

Ég gleymdi að segja ykkur krakkar mínir að Gunna Hjartar var jörðuð í dag. Eins og þið vitið var hún með Alzheimer á háu stigi og hefur verið á sjúkrahúsinu síðast liðin 2 ár í það minnsta.
Það voru mjög margir við jarðarförina og við Halla sátum saman og spjölluðum. Það gengur afburða vel í náminu hjá stelpunum hennar, eins og hjá ykkur.

Halla og Palli flytja um miðjan mánuðinn og þau ætla að gifta sig 27. nóvember. Það verður engin viðstaddur brúðkaupið nema þau og börnin þeirra. Svo ætla þau með börnunum út að borða um kvöldið. Halla er mjög hamingjusöm og ég samgleðst þeim innilega, hún Halla er líka alveg sammála mér um að "Lífið er dásamlegt"

Núna ætla ég að skreppa niður í Einarsbúð til þess að kaupa inn fyrir heimilisfræðitímana á mánudaginn og kaupa í snúða og horn sem við Doddi ætlum að baka fyrir haustmót línudansara sem verður 13.nóvember.

Þóra sagði mér að fyrirlesturinn hafi gengið mjög vel hjá Óla, til hamingju með það Óli og Helga farin að troða upp með gítarleik við frábærar undirtektir áhorfenda. Atli er að tengja nýja afruglarann hjá mömmu sem kemur heim eftir 6 vikna dvöl á Reykjalundi.

Það er ansi haustlegt úti, hávaðarok og mígandi rigning. En núna ætla ég að drífa mig í búðina.

Gangið hægt um gleðinnar dyr elskurnar og góða helgi.

4.11.04

Kennarar sem nenna ekki að vinna:
Þegar þessi pistill er skrifaður bendir flest til þess að kennarar muni fella miðlunartillögu ríkissáttasemjara og verkfall skella á að nýju næstkomandi mánudag. Flestir sem fylgjast með þessari vinnudeilu úr fjarlægð, ég sjálfur meðtalinn, hafa furðað sig á heift kennara og ekki minnkar furðan nú þegar til stendur að hafna þessari fáheyrðu launahækkun.

Ótrúlegt en satt en, svona hefst grein á sellan.is eftir Pétur Maack Þorsteinsson . Óli bloggar um þennan pistil og segir m.a. FÍNT!!! Guð hvað það væri búið að drulla yfir þessa grein ef það væri hægt að kommenta á þetta þarna.
Það væri gaman að sjá hvort að hann myndi sætta sig við sömu laun og launakjör og kennarar hafa eftir að hafa lokið 3ja ára sálfræðinámi við H.Í.

Annars kom Kristján potto.... í gær og kíkti á pottinn minn. Ég hef verið óánægð með hve vatnið hefur verið grátt, eða ekki nógu tært. Hann sagði að potturinn væri í fínu lagi og virkaði eins og hann á að gera. En aftur á móti væri samsetningin á vatninu ekki í lagi bæði hvað málma og sýrustig varðar. Vonandi kemst þetta í lag. Hann sagði að það væri gaman að mæla vatnið hjá nágrönnunum og athuga hvort þauð er eins. Ég skelli mér í næsta hús eða á móti og bið kurteislega um vatn í glas. Fer svo heim og geri mælingar, pottormurinn gaf mér nefnilega græjur til þess að mæla vatnið, ef vatnið er í lagi hjá nágrannanum fer ég bara aftur og bið um vatn í pottinn!! (að er um 950 lítrar)

Við fórum á Úlfhamssögu á laugardaginn og skemmtum okkur vel. Það eru nú meiri framkvæmdirnar í Hafnarfirði, bæta við hringtorgum und alles. En ég er ákveðin í því að fara ekki eftir leiðbeiningum Þórðar í umferðinni oftar, alla vega ekki fyrr en hann er búinn að venjast nýju gleraugunum og farinn að sjá eitthvað til hliðanna. Hann væri fínn í Englandi og Ástralíu, en þar er vinstri umferð.Ælunin var að fara á harmonikuball á eftir en ballið var slegið af, einhver álög eða hvað?