Sigríður Kristín Óladóttir

29.6.05

Mamma flogin út

Þá er gamla konan lögð af stað til Helgu. Ég hef aldrei upplifað þvílíkan hraða í Leifsstöð. Það tók ekki nema 12 mínútur og 43 sekúndur frá því að við lögðum bílnum upp að gangstéttinni sem má ekki leggja við, þar til ég var lögð af stað til Reykjavíkur.
Þannig er, að þegar maður kemur og stoppar fyrir framan innganginn, bíða 2 löggur með kylfur og bókstaflega reka mann áfram. Ég mátti taka göngugrindina úr skottinu fyrir mömmu og farangurinn hennar úr bílnum en ég mátti ekki fara inn með töskurnar. Það hefði ef til vill tekið 30 sekúndur, nei ekki ræða það, sögðu þeir, en þá bað ég þá að passa töskurnar hennar á meðan ég lagði bílnum og þeir voru til í það. Að leggja bílnum þ.e.a.s. fara í gegnum hlið, taka miða og finna stæði labba svo til baka og inn með töskurnar tók ca 4 mínútur. Þegar ég kom inn í flugstöðina var löng röð, en ég sá mömmu hvergi. Hvað haldið þið?, mín var komin að afgreiðsluborðinu og var meira að segja búin að hleypa 1 manni fram fyrir sig. Mér finnst alveg óskiljanlegt hve snögg hún var að þessu. Því miður gleymdi ég alveg að spyrja hana hvernig hún fór að þessu, enda lítill tími til þess. Hviss, pang, töskurnar á bandið og hún ákvað að afþakka hjólastól en taka þess í stað göngugrindina að flugvélinni. Þegar við komum að passaskoðun spurði hún hvort ég vildi kaffi, ég sagði nei takk vitandi að það þurfti að fara upp stiga til að kaupa sér kaffi. Þar með var hún svo gott sem horfin inn um gegnumlýsingarhliðið þar sem allt vældi á hana (peningar í vösum giska ég á) án þess að kasta á mig kveðju, ég sem er uppáhalds dóttir hennar.

Ég ætlaði að fá að fylgja henni upp og hjálpa henni með göngugrindina en það mátti ég ekki nema með sérstökum passa sem enginn tími var til að redda!!! Ég skellti mér hálfri í gegnumlýsingarhliðið og kissti þar þá gömlu og allt vældi á meðan, ég var nefnilega með 100 kallinn í vasanum sem hún lét mig fá til að borga fyrir að leggja bílnum. ´Svo sá ég hana skeiða inní lyftuna og ýta á takka nokkrum sinnum en ekki fór hún af stað. Það var ekki fyrr en stúlka sem var að vinna við að skoða töskur og þukla konur (mömmu) aðstoðaði hana að lyftan fór af stað. Rétt áður en mamma hvarf ínní lyftuna sagði ég við hana: Ég gleymdi að slökkva á símanum þínum (sem hún hafði beðið mig um) og sagði jafnframt sagði ég, biddu bara flugfreyjuna um að slökkva á honum. Líklega heyrði hún bara fyrstu orðin, alla vega bað hún töskuvörðinn um að slökkva. Þar með fór möguleikinn á að hringja í hana, spjalla smá og minna hana á að kveikja á símanum í Amsterdam ef ske kynni að Alex þyrfti að ná í hana.

Ég er búin að fara í morgunkaffi til Þóru í R.vík, tala við Óla, fara uppá Sjúkrahús til að láta búa um lærið, fara í símabúðina til að forvitnast um vitlausa reikninginn sem ég fékk, brjóta saman þvott og ætla nú að leggja mig smástund. Mamma er enn í loftinu, vonandi gengur allt vel. Ég heyri vonandi í henni þegar hún kemst á áfangastað í dag.

28.6.05

Ferðalög og lífið er dásamegt.

Óli var svei mér heppinn að vinna ferð á Hróarskeldu, hann fer á fimmtudaginn og á blogginu hans má sjá braginn sem hann orti, Ég er bara heppinn gaur.... við lag Bjartmars Súrmjólk í hádeginu.

Já við erum svo sannarlega heppin í fjölskyldunni og ég segi enn, Lífið er dásamlegt!
Mér er þá hugsað til skólasystur minnar sem er ekki eins heppin og ég var þegar ég vaknaði eftir svefninn langa.

Það verður allt í lagi að kenna línudansinn þann 11, ég talaði við Siggu Alfreðs í gær og við getum sýnt nokkra dansa, kennt eitthvað og verið í Norðanfiski.
Hér er limra Óli, hún er örugglega ekki rétt gerð, en það er allt í lagi!

Þá dönsku og dýrðlegu daga
djammið þar geymir þín saga
með Hróarskeldu í huga
skal ánægjan duga
Óli, settu samt líka mat í þinn maga.

Annars er allt gott að frétta. Við fórum í Húnaver í tjaldútilegu um helgina. Þar fórum við á harmonikuböll bæði föstudags- og laugardagskvöldið, svaka fjör og mikið gaman. Það kom mér á óvart hvað maður þekki marga þarna, en það var slatti af Skagafólki þar. Húsbílaeigendur voru þar í miklum meirihluta og þar var stór hópur frá Húsbílafélaginu Flakkarar
En hvað um það við Þórður höfðum þá sérstöðu að vera eina fólkið í tjaldi, aðrir voru í húsbílum, fellihýsum eða tjaldvögnum. Það fór samt ágætlega um okkur þrátt fyrir rigningu og smá rok.

Á morgun fer mamma til Þýskalands að heimsækja Helgu og verður þar í 10 daga, vonandi verður hún heppin með veður. Alex tekur á móti henni í Amsterdam. Hún kemur svo heim 8. júlí um leið og Nína kemur í heimsókn. Við förum líklega í tvær útilegur með Nínu, fyrst í Fannahlíð á harmonikuútilegu, þar fær Nína kanski að afgreiða í sjoppunni ef hún er til í það. Seinni útilegan er ættarmót á Laugarbakka þar sem ættin hans Þórðar hittist 22 - 24 júlí. Á morgun fara foreldrar Þórðar til Færeyja með Strandamannafélaginu. Elsa Dóra og Ingibjörg vinkonur mínar fara líka í þá ferð ásamt mökum með harmonikuunnendum í Reykjavík. Það verður líklega mikið sungið, spilað og dansað í ferðinni.

Nú standa yfir æfingar fyrir hjá Og útlögunum fyrir írsku dagana, en við Þórður dönsum ekki með af því að við verðum á Neskaupstað þá helgi á Landsmóti harmonikuunnenda . Ég ætla samt að æfa með þeim til að læra dansana sem verða dansaðir.

Sporin voru tekin úr lærinu í gær, en það er ca 1 sentimetra gap fyrir innan saumana sem þarf að holdfyllast, ég þarf að láta líta á það á morgun en það er enginn pottur alveg stax. Hætti núna bið að heilsa ykkur, en ferlega er letrið leiðinlegt svona.

15.6.05

Nokkur lög

Helga mín hér er uppástunga um nokkur lög sem þið getið sungið.

Útlaginn, (upp undir Eiríksjökli)
Mikið lifandi skelfing (Að lífið sé skjálfandi litið..)
Komdu inn í kofann minn
Dísukvæði (Vakna Dísa vakna þú)
Undir bláhimni
Sestu hérna hjá mér ástin mín
Játning (En birtist mér í draumi)
Það liggur svo makalaust ljómand’i á mér
Kötukvæði (Það var um kvöld eitt að Kötu ég mætti)
Kveikjum eld
Nú er úti norðanvindur
Lóan er komin
Sestu hérna hjá mér ástin mín
Krummi krunkar úti
Blátt litið blóm eitt er
Þórsmerkurljóð (Ennþá geymist það mér í minni, María María)
Á Sprengisandi (Ríðum, ríðum)
Komdu og skoðaðu
Ljúfa Anna
Sigga litla systir mín
Ó María mig langar heim
Meistari Jakob
Kvöldið er fagurt

Annars er allt gott að frétta fyrir utan þessa óheppni að gata lærið svona rækilega. Ég sem var með svo fögur og óskemmd læri, ha ha ha. Ég sagði við mömmu að það hefði getað farið verr, ef ég hefði til dæmis dottið á göngugrindina og brotið eitthvað af dýru tönnunum í gullkj..... mínum, það hefði verið verulega slæmt. Mamma hringdi í gærkvöldi til að athuga hvernig mér liði og sagði þá: Mér var skapi næst að henda helv.... grindinni út í sjó, "krúttið" eins og Þóra segir svo oft um hana.
En hvað um það nú ætla ég að fara og klára það sem efir er að mála, en kanski skil ég aðeins eftir fyrir Þórð (þetta erfiðasta, ekki segja honum það).

14.6.05

Komin í fríið

Jíbbý, nú er ég komin í sumarfrí!!!
Ég notaði fyrsta daginn vel, þ.e.a.s. ég byrjaði að mála húsið fyrir mömmu, svo kom Þórður eftir vinnu til að mála með mér.
Ég hef varla kíkt á eða í tölvuna í óralangan tíma, rétt skoðað póstinn, aðallega til að fylgjast með fréttum af Hönnu skólasystur sem haldið er sofandi núna eftir heiftarlega sýkingu. Nú er komið á þriðju viku síðan hún veiktist blessun.

Það hefur verið stanslaus gleði allar helgar ég veit ekki hversu lengi. Við fórum í ferðalag 28. mai, meðal annars fórum við á snjósleðum á Mýrdalsjökul. Það var alveg meiriháttar gaman, en það kom mér á óvart hve erfitt er að aka þessum sleðum, maður þarf að hafa sig allan við til að hitta í sleðaförin og halda stýrinu stöðugu. Það var ótrúlega mikið gengið í ferðinni, fyrst gengum við upp við Seljalandsfoss, svo alla leiðina upp við Skógarfoss. Eins og þetta hafi ekki verið nóg um göngur þann dag, þá biluðu fjallatrukkarnir sem óku okkur áleiðis á jökulinn og við þurftum að ganga í u.þ.b. 40 mínútur til að komast að skálanum þar sem sleðarnir voru. Skálinn var í um 750 m hæð en við fórum svo á sleðunum í 1360 m hæð og fengum fínt veður á toppnum, en hálfgerða þoku á leiðinni upp.

Lokahnykkur Brekkubæjarliðsins var svo 3. júní. Farið var í Viðey og það var alveg meiriháttar gaman eins og alltaf þegar við skemmtum okkur. Afmælisveisla Þóru var svo þann 4. júní, við mættum auðvitað galvösk til hennar.

Nýliðin helgi var líka pökkuð, við skelltum okkur á tangónámskeið með kennurum frá vöggu Tangósins, Buenos Aires. Marino Galeano og Cecilia Pugin, tangódansarar og kennarar komu hingað til lands í fyrsta sinn. Við höfum alla vega prófað aðeins að dansa Argentískan tangó, en þessi dans krefst mikillar æfingar og parið þarf að vera algjörlega samstíga. Líklega þarf maður að fara á nokkur tangónámskeið til að ná einhverjum tökum á þessari list. Á laugardag skellti ég mér í kvennahlaupið með Boggu mömmu Þórðar, svo fórum við í tangó og á laugardagskvöldið vorum við með matarboð, Elsa, Eygló og Sessa ásamt mökum komu til okkar í mat. Veðrið var frábært og kvöldið heppnaðist frábærlega vel. Á sunnudagskvölið fórum við Þórður og Elsa og Reynir í Iðnó þar sem Tangóhljómsveit lýðveldisins stóð fyrir dansleik kennararnir okkar voru með stórkostlega sýningu, vááá.

Núna er klukkan orðin 9 og ég ætla ég að athuga hvað málningartröppur kosta, mín er alveg búin að vera. Svo er óhætt að fara að fara til múttu að mála, hún fer að vakna úr þessu.