Sigríður Kristín Óladóttir

29.6.05

Mamma flogin út

Þá er gamla konan lögð af stað til Helgu. Ég hef aldrei upplifað þvílíkan hraða í Leifsstöð. Það tók ekki nema 12 mínútur og 43 sekúndur frá því að við lögðum bílnum upp að gangstéttinni sem má ekki leggja við, þar til ég var lögð af stað til Reykjavíkur.
Þannig er, að þegar maður kemur og stoppar fyrir framan innganginn, bíða 2 löggur með kylfur og bókstaflega reka mann áfram. Ég mátti taka göngugrindina úr skottinu fyrir mömmu og farangurinn hennar úr bílnum en ég mátti ekki fara inn með töskurnar. Það hefði ef til vill tekið 30 sekúndur, nei ekki ræða það, sögðu þeir, en þá bað ég þá að passa töskurnar hennar á meðan ég lagði bílnum og þeir voru til í það. Að leggja bílnum þ.e.a.s. fara í gegnum hlið, taka miða og finna stæði labba svo til baka og inn með töskurnar tók ca 4 mínútur. Þegar ég kom inn í flugstöðina var löng röð, en ég sá mömmu hvergi. Hvað haldið þið?, mín var komin að afgreiðsluborðinu og var meira að segja búin að hleypa 1 manni fram fyrir sig. Mér finnst alveg óskiljanlegt hve snögg hún var að þessu. Því miður gleymdi ég alveg að spyrja hana hvernig hún fór að þessu, enda lítill tími til þess. Hviss, pang, töskurnar á bandið og hún ákvað að afþakka hjólastól en taka þess í stað göngugrindina að flugvélinni. Þegar við komum að passaskoðun spurði hún hvort ég vildi kaffi, ég sagði nei takk vitandi að það þurfti að fara upp stiga til að kaupa sér kaffi. Þar með var hún svo gott sem horfin inn um gegnumlýsingarhliðið þar sem allt vældi á hana (peningar í vösum giska ég á) án þess að kasta á mig kveðju, ég sem er uppáhalds dóttir hennar.

Ég ætlaði að fá að fylgja henni upp og hjálpa henni með göngugrindina en það mátti ég ekki nema með sérstökum passa sem enginn tími var til að redda!!! Ég skellti mér hálfri í gegnumlýsingarhliðið og kissti þar þá gömlu og allt vældi á meðan, ég var nefnilega með 100 kallinn í vasanum sem hún lét mig fá til að borga fyrir að leggja bílnum. ´Svo sá ég hana skeiða inní lyftuna og ýta á takka nokkrum sinnum en ekki fór hún af stað. Það var ekki fyrr en stúlka sem var að vinna við að skoða töskur og þukla konur (mömmu) aðstoðaði hana að lyftan fór af stað. Rétt áður en mamma hvarf ínní lyftuna sagði ég við hana: Ég gleymdi að slökkva á símanum þínum (sem hún hafði beðið mig um) og sagði jafnframt sagði ég, biddu bara flugfreyjuna um að slökkva á honum. Líklega heyrði hún bara fyrstu orðin, alla vega bað hún töskuvörðinn um að slökkva. Þar með fór möguleikinn á að hringja í hana, spjalla smá og minna hana á að kveikja á símanum í Amsterdam ef ske kynni að Alex þyrfti að ná í hana.

Ég er búin að fara í morgunkaffi til Þóru í R.vík, tala við Óla, fara uppá Sjúkrahús til að láta búa um lærið, fara í símabúðina til að forvitnast um vitlausa reikninginn sem ég fékk, brjóta saman þvott og ætla nú að leggja mig smástund. Mamma er enn í loftinu, vonandi gengur allt vel. Ég heyri vonandi í henni þegar hún kemst á áfangastað í dag.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home