Sigríður Kristín Óladóttir

31.3.05

Riftun staðfest

Það hefur lítið verið bloggað hér að undanförnu, ég skil ekkert í því hversu fljótt tíminn líður, páskafríið var rétt byrjað þegar það var búið. En hér koma smáfréttir af Reynigrundarriftunarmálinu.
Það er loksins búið að kveða upp dóminn og nú er riftunin staðfest á grundvelli stórfelldra vanskila kaupanda.

Nú er staðan sú að skorað á kaupandann að rýma húseignina eigi síðar en þriðjudaginn 12. apríl 2005 og afhenda þá um leið seljanda alla lykla eignarinnar. Hafi eignin ekki verið rýmd fyrir þann tíma verður án frekari fyrirvara krafist útburðar yðar úr húsnæðinu með aðstoð yfirvalda.
Ég verð að segja það að ég vona að ég verði ekki sett í þá stöðu að þurfa að bera þau út úr húsinu, það er meira en nóg komið. Svo er til í dæminu að hún áfrýji til Hæstaréttar og þá frestast málið um fleiri mánuði eða þar til niðurstaða dómsins liggur fyrir í Hæstarétti. Kerfið er því afar þungt og seinvirkt og vinnur með skuldurum að mínu mati. En við sjáum hvað setur, ég læt ykkur vita.

Helga mín ég hringi í dag, við fórum í göngutúr eftir dansæfinguna í gær og eftir mat var orðið of seint að hringja.
Það styttist í íslandsmótið í línudönsum sem er n.k. laugardag. Það forfallast a.m.k. 2 úr hópnum vegna sorglegs fráfalls náins ættingja og Eygló var svo óheppin að handleggsbrjóta sig á páskadag, þannig að ekki er enn vitað hvort hún getur keppt.

Ég hætti núna, því ég á eftir að fá mér að borða áður en vinna hefst.

18.3.05

Komin í páskafrí

Mikið er nú gott að vera komin í páskafrí, ég ætla samt að reyna að vera voða dugleg í lokaverkefninu !!!
Krakkarnir skelltu sér til Helgu og fjölsk. í gær og eru því komin í vorið úti í Þýskalandi, sól og 20° hita. Þetta á samt ekki við Atla (greyið) sem er að jafna sig eftir hálskirtlatöku. Skemmtið ykkur vel úti krakkar mínir.

Hlynur og Óli gistu hér aðfararnótt miðvikudags, Óli fór á hljómsveitaræfingu og við Hlynur fórum á dansæfingu. Hlynur varð reyndar svolítið svekktur, hann bjóst nefnilega við að æfingin væri í Laugardalshöllinni, þar sem hann hefur nokkrum sinnum horft á okkur keppa og dansað einn á gófinu á gúmmístígvélum fyrir framan fleiri hundruð áhorfendur og nokkra erlenda dómara. Hann tók samt gleði sína og sýndi frábær tilþrif í danssnúningum á rassinum og svo fór hann á handahlaupum um allan salinn. Þegar Óli Geir spurði hann hvort hann ætli að kenna ömmu þetta heima, sagði Hlynur einfaldlega: Það er ekki hægt, svo mörg voru þau orð.

Þórður setti íbúðina sína á sölu um helgina, Daníel tók myndir á þriðjudaginn og setti þær á Netið á miðvikudegi. Hvað haldið þið? Hann seldi íbúðina í gær, þetta ferli tók sko ekki langan tíma, geri aðrir betur.
Hætti núna, meira seinna.

7.3.05

Gellugleði og fleira!!!

Á föstudaginn buðu Radda og Baldur okkur nokkrum gellum í gellur. Þetta var afar skemmtilegt boð og gellurétturinn sem Baldur eldaði var gómsætur. Hið sama má segja um eftirréttinn sem Radda sá um. En allavega þetta var skemmtilegt framtak hjá þeim hjónum og bjóða okkur frænkunum og mömmu í þetta boð. Takk fyrir mig.

Hörður frændi var líka í boðinu af því að mamma hans var orðin svo mikið veik að búist var við að hún færi að fara, þangað sem við förum öll að lokum. Hörður sem býr á Akureyri gisti hjá Baldri og Röddu.
Hörður þakkaði okkur fyrir að fá að vera með í boðinu með því að færa okkur frænkunum og mömmu innpakkaða rós þegar við fórum heim rétt fyrir miðnætti. Nanna var sem sagt hressari á föstudaginn, því þá þekkti hún fólkið sem kom í heimsókn til hennar og borðaði eitthvað smávegis.
En Nanna dó svo í gær, blessuð sé minning hennar. Það var gott að hún fékk að fara, þetta var svo sem ekkert líf orðið hjá henni, blessaðri.

Helgin leið svo í rólegheitum, lítið eldað og borðað nema súpa og aftur súpa, nammi, nammi namm. Á morgun verður svo helgarsteikin, elduð og snædd væntanlega með bestu list.

Árshátíð Brekkubæjarskóla verður á morgun og hinn, tvær sýningar hvorn dag, vonandi gengur allt vel. Í morgun voru nemendasýningar og þá sást hvað þarf að laga og því verðu kippt í lag fyrir sýningarnar á morgun, mörg atriðin eru mjög vönduð og skemmtileg.

Bíllinn hans Þórðar er á verkstæði, það er líklega verið að taka úr honum sjálfstæðið svo að hann bruni ekki af stað mannlaus, eins og gerðist um daginn.

Um næstu helgi ætlum við skólasystur að hittast, í þetta sinn hjá Sigrúnu sem er í námi og leigir íbúð í Kópavogi. Okkur er boðið á föstudagskvöldið og við systur (skóla) eigum eftir að skemmta okkur frábærlega eins og venjulega.

3.3.05

Riftun og sjálfstæður vilji.

Hér eru smáfréttir af Reynigrunarriftunarmálinu.
Ég fékk mail frá lögmanni mínum áðan og málið var tekið fyrir í gær í héraðsdómi. Enginn mætti fyrir Jóhönnu og engin tilnefning kom af hennar hálfu um nýjan lögmann. Málið var því tekið til dóms. Lögmaður minn gerir því ráð fyrir að við fáum dóm í málinu mjög fljótlega, enda ekki flókið að dæma málið eins og það liggur fyrir. Það er hins vegar undir dómaranum komið hversu snöggur hann er, en hann hefur 3 vikur til þess að kveða upp dóminn. Hann notar örugglega ekki allan þann tíma. Eftir að dómur er genginn er samt unnt að þvælast fyrir okkur með því að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Það hefur aðeins kostnað í för með sér fyrir Jóhönnu en gefur henni samt viðbótartímafrest. Lögmanni mínum þykir ólíklegt að til þess komi, en ég trúi öllu á þetta lið.

Það er óhætt að segja að sumir hafa meira af sjálfstæðan vilja en góðu hófi gegnir. Meira að segja gildir þetta um Daihatsunn hans Þórðar. Þannig var að í gærkvöldi vorum við Þórður að horfa á sjónvarpið í mestu makindum þegar dyrabjöllunni var hringt og úti stóð Smári í næsta húsi. Hann sagði okkur að Daihatsuinn hafi farið í ferðalag og viti menn, bíllinn var kominn uppá gangstétt hinum megin við götuna, úps!! Sem betur fer hittist þannig á að enginn bíll var fyrir kagganum hans Þórðar og urðu því engar skemmdir, en þess má geta að þarna er bílum oft lagt þegar fólk er í heimsókn í næstu húsum.

1.3.05

Hlynur Björn 6 ára í dag

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli hann Hlynur,
hann á afmæli í dag.
Til hamingju með afmælið Hlynur minn og Óli, til hamingju með soninn.

Það er annars allt gott að frétta héðan. Við fengum frábærar móttökur hjá Helgu og Alex. Þar var stjanað við okkur út í eitt, takk fyrir okkur elskurnar.

Atli var sendur heim af spítalanum í morgun, og er því enn með skemmdu hálskirtlana sína.
Hann hafði tekið eina aspirín hjá úti í Þýskalandi og það var sem sagt nóg til að ekki var hægt að taka kirtlana og verður hann að bíða í a.m.k. tvær vikur, ferlega spælandi.

Ég bíð spennt eftir að vita hvort eitthvað fari að gerast í riftunarReynigrundarmálinu, en þau höfðu frest þar til í dag til að útvega sér annan lögmann. Ætli þau hafi nokkuð gert í málinu, það virðast vera vinnubrögðin þar á bæ.