Sigríður Kristín Óladóttir

30.3.03

En hvað tíminn líður hratt. Árshátíðarballið tókst ljómandi vel. Mikið voru krakkarnir góð og svo voru þau svo vel klædd og fín. Það tók okkur 15 mínútur að skammta og bera matinn á borð fyrir unglingana. Þetta er alveg dagsatt. Við vorum líklega um 20 sem skömmtuðum og þjónuðum til borðs. Matseðillinn var: Bayonne skinka með brúnuðum kartöflum, salati, maiskornum og sósu. Í eftirrétt var svo Frönsk súkkulaðiterta sem nemendurnir höfðu bakað í heimilisfræði í báðum skólunum. Stefán frændi minn var afskaplega ánægður með matinn og fékk víst nokkrum sinnum ábót. Hann á ekki langt að sækja matarlystina Valli minn! Krakkarnir borðuðu vel og skemmtu sér frábærlega. Nemendur, kennarar og starfsfólk Arnardals sáu um skemmtiatriðin og hjólmsveitin Írafár spilaði á ballinu. Skemmtiatriðin voru öll mjög góð og svaka stuð á ballinu.

Gærdagurinn var búinn áður en ég vissi af. Nú er ég aðeins byrjuð að taka til hjá mér og laga verkefnin þar sem textinn flæðir yfir allar síðurnar. Veit núna að þetta á ekki að vera svona, þetta er líka svo ljótt hjá mér. En ég ætla nú bara að gera þetta í rólegheitunum eftir því sem tími vinnst til. Ég er nefnilega svo lengi, svo lengi, svo lengiiii að þessu.

Næsta verkefni er að kóða nemendurna sem ég fylgdist með í rannsókn Sólveigar. Mér fannst verst að ég gat hreinlega ekki skrifað nógu hratt þegar þau voru að vinna. En það nær ekki lengra. Ég ætla nú samt að taka mér frí í dag og fara út í göngutúr og fara svo að lesa. Mér líst vel á bókina sem ég keypti mér úti og heitir How to use Dreamweaver MX & Fireworks MX. Ég er nú samt með aðra bók í huga varðandi lestur dagsins.

Mamma er búin að kaupa sér nýtt raðhús á mjög góðum stað. Núna kemst hún niður á jörðina ef maður getur sagt svo, en íbúðin sem hún seldi er á annari hæð og stigarnir hafa reynst henni dálítið erfiðir. Útsýnið er alveg frábært hjá henni eins og hjá okkur systkinunum og nú verður hún í göngufæri við dvalarheimilið Höfða sem er mikill kostur. Hjartanlega til hamingu með húsið mamma! Hún var að fara á Örkina með eldri borgurum og verður þangað til á föstudag.

Niðurtalning er hafin fyrir löngu, núna eru bara 13 dagar þar til Helga, Alex og Nína koma í páskafrí og ég hlakka svo til.



27.3.03

Það var leiðinlegt að geta ekki mætt á námskeiðið í Álfamýrarskóla í gær, en svona er þetta stundum. Ekki orð um það meir. Það er lítið um afköst hjá mér þessa dagana en ég vona að helgin nýtist vel. Á morgun mun ég væntanlega fylgjast með seinna parinu mínu í rannsókn Sólveigar. Nemendur hafa ekki skilað skriflegri samþykkt frá foreldrum, þannig að ég hef hringt í foreldra til þess að vera með allt á hreinu. Ég þarf að spyrja Sólveigu hvort við eigum að skila þessum bréfum til hennar eða bara setja þau í möppu. Hvað haldið þið?

Annað kvöld er árshátíðarballið með mat og tilheyrandi, þannig að það verður nóg að gera.

Ég hitti aðeins skóla- og stuðningssystur mína Lovísu í Brekkubæjarskóla í dag, gaman að hitta hana á Skaganum.

Ferlega fer orðið í taugarnar á mér fyrirferðin í dagsetningum á eldra efni. Þessu þarf ég að reyna að breyta við tækifæri. Ég reyndi að breyta í settings en það hefur ekki skilað sér. Reyni seinna.

Alex ég lagaði index síðuna áðan, takk fyrir ábendinguna. Hvað segir þú um þetta?

24.3.03

Uppspretta hugmynda eða hringavitleysa? Gaman að glugga í greinina í Mogganum í gær.

Úff... það er nú meira hvað ég er lengi að gera skattframtölin okkar þ.e.a.s. Þóru, Atla og mitt. Allskonar vesen og útfylling á fleiri fleiri fylgiskjölum. En það er samt mikill munur að geta skilað framtölunum með rafrænum hætti, ætli það séu ekki helst eldri borgarar sem skila á pappír.
Ég sem ætlaði að læra í dag eftir skóla en það verður ekkert úr því, úr því sem komið er.

Ég var að laga index síðuna hjá mér í gær og Óli Örn sagði mér að hægt sé að stækka letrið ef manni finnst það of smátt með því að halda niðri Ctrl vinstra megin og skrulla með músinni. Það svínvirkar, sniðugt ekki satt? Nú er ég búin að samræma leturgerð og lit á bobbingunum og prófaði rollover trickið líka.

Það er leiðindaveður hjá okkur núna, en búið að vera sólbaðsveður í dag hjá Helgu í Detmold í Þýskalandi og 20° C hiti. Haldið þið að það sé munur.

22.3.03

Jæja þá er ég komin úr Reykjavík, og þetta er búið að vera góður dagur í dag, dagur vatnsins. Ég skrapp aðeins í Kennó í morgun og svo hittumst við skólasysturnar og brugðum okkur í tuskuleik. Í honum hjálpuðum við Höllu að þrífa húsið sem hún átti. Svo bauð hún okkur í strætið í nýju fínu íbúðina þar sem hún bauð uppá frönsk brauð, osta og pasta. Smá æfing fyrir Parísarferðina sem er á dagskrá hjá okkur í júní.

19.3.03

Það var fínt að skreppa aðeins til Reykjavíkur og hitta Skarpaliðið hjá Þórunni. Möguleikarnir með Dreamweaver virðast vera ótrúlega margir, en gott væri að hafa svolítið meiri tíma til að sinna þessu og læra meira. Ég finn að ég er ómöguleg að vaka og vinna lengi á kvöldin, kanske er ég bara svona góð við mig.

Ég er aðeins byrjuð að vinna í rannsókninni hjá Sólveigu en get ekki klárað hana í þessari viku.




17.3.03

Það er eitthvað að þessu núna og ég fer því að sinna öðru.

Ég er ekki að standa mig nógu vel í "blogginu" hvað er að gerast? Ég tapaði öllu sem ég skrifaði áðan þegar ég fór aðeins á flakk, en var ekki búin að posta & publisha. Ég var að skrifa um tilfinninguna sem ég fékk um helgina þegar ég var að skoða drauminn eftir nokkuð langt hlé. Mér fannst, svei mér þá að ég væri að sjá forritið í fyrsta skipti. Áðan var ég að skipta um lit á letrinu á hnöppunum og núna er ég með bæði hvítt og svart letur. Mér finnst hvíta letrið betra, hvað finnst ykkur?

Árshátíð Brekkubæjarskóla er á morgun og hinn þannig að það er nóg að gera í skólanum. Undirbúningur er líka hafinn fyrir árshátíðarballið hjá unglingunum. Þetta er sameiginleg árshátið grunnskólanna og Arnardals sem er félagsmiðstöðin hérna. Þá eldum við (kennararnir) matinn og þjónum til borðs og nemendurnir kunna vel að meta okkar framlag.

15.3.03

Verð að segja frá því að mér var boðið í afmæli til Bergþóru frænku minnar í dag. Það var gott að fá smáhlé frá tölvunni og sjónvarpinu (varð að kíkja aðeins). Bergþóra er dótturdóttir Valla bróður og er 5 ára gömul. Þetta líktist þó meira fimmtugs afmæli en fimm ára afmæli, allavega hvað gómsætar veitingar og afmælisgestafjölda snerti. Samt gátu tvíburarnir ekki komið en þríburarnir voru mættir og það var mikið fjör og mikið gaman.

Skagaliðið var í öðru sæti á Íslandsmótinu í línudansi í dag, til hamingju með frábæran árangur.

Á morgun verður opið hús hjá mér á milli klukkan 14 og 16 og munum við Óli Örn sonur minn sýna húsið sem er til sölu og er glæsileg eign.
Verið hjartanlega velkomin! Þetta ætti samstarfsfólk mitt í skólanum að sjá, ekki meira um það.
Atli Þór er á Skjálfta að spila Counter-strike.

Hér kemur stutt greinargerð frá UT ráðstefnunni á Akureyri 2003.

Ómar Örn Magnússon - Raunveruleikur.
Málstofa þar sem kynnt var forritið og jafnframt þróunarverkefnið Raunveruleikur Landsbankans. Höfundur þess, Ómar Örn Magnússon sá um kynninguna.
Raunveruleikur Landsbankans er gagnvirkur hlutverkaleikur sem hannaður er sem kennsluefni í lífsleikni í 10. bekk.
Markmið leiksins er að ná til nemenda með fjármálafræðslu og kynna fyrir þeim ýmsa þætti íslensks samfélags. Í Raunveruleik þurfa þátttakendur að setja sig í ákveðin spor og móta lífshlaup sitt, óháð sinni raunverulegu stöðu og nemendur fá innsýn í þær ákvarðanir sem fólk þarf að taka í lífinu. Í leiknum er reynt að líkja eftir raunveruleikanum eins og kostur er.
Markmiðunum er skipt í yfirmarkmið, þekkingarmarkmið og færnimarkmið.
Yfirmarkmið eru t.d. ábyrgð á eigin lífi, að velja og hafna, fjármál heimilanna og fréttir líðandi stundar.
Þekkingarmarkmið eru t.d. útgjöld og innkoma, lán, vextir, skattar, vinnumarkaðurinn, verðbólga og vísitölur og sparnaður.
Færnimarkmið eru t.d. nákvæm og sjálfstæð vinnubrögð, Netið notað til þekkingaröflunar og einfaldar reikniaðgerðir.
Þátttakendur byrja 20 ára í leiknum og verkefnin eru unnin einu sinni í viku. Hver vika er eitt ár í lífi nemenda. Fyrir verkefnin sem nemendur vinna vel fá þeir stig og jafnframt örlög.
Mér fannst þetta afar áhugavert forrit og sá þarna gott efni sem hægt væri að nota með í heimilisfræði í 10.bekk. Gallinn er sá að leikinn þarf að spila allan veturinn og hentar því ekki valgrein, en ef til vill verður því breytt síðar.

Fyrirlestur um NámUST rannsóknina frá leikskóla til háskóla.
Það er óhætt að segja að þessi fyrirlestur var sérstakur fyrir það að engin leið var að fá leið á fyrirlesurunum. Þau voru hvorki meira né minna en 8 sem sáu um kynninguna þetta voru: Allyson Macdonald, Anna Magnea Hreinsdóttir, Þuríður Jóhannesdóttir, Torfi Hjartarson, Ásrún Matthíasdóttir, Michael Dal, Samuel C. Lefever og Anna Ólafsdóttir.
Tilgangurinn með rannsóknarverkefninu er að skoða möguleika sem notkun upplýsinga- og samskiptatækni sem miðils opnar fyrir nám og kennslu.

Fyrirlesararnir svöruður fyrstu tveimur rannsóknarspurningunum sem eru:
• Hvað hefur notkun UST sem miðils í för með sér fyrir nemendur og fyrir nám?
• Hvað hefur notkun UST sem miðils í för með sér fyrir kennara og fyrir kennslu?

Það var margt sem kom fram í fyrirlestrinum, meðal annars jákvæð viðhorf til UST í kennslu, talað var um kynjamun í leikskólum og í grunnskólum í frjálsum verkefnum og leikjum. Ennig kom fram að hlutverk kennara og nemenda hefur lítið breyst síðustu 20 ár samkvæmt erlendum rannsóknum.
Þetta var sem sagt líflegur og skemmtilegur fyrirlestur um fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar.

12.3.03

Jæja þá er að byrja aftur á náminu eftir frábæran tíma með dætrunum í Oxfordshire og nágrenni.

Við gistum í Witney þar sem Þóra vinnur og kynntumst þar góðu fólki. Það var reglulega gaman að koma til Oxford og ganga um þennan fræga háskólabæ og söguslóðir Inspector Morse.
Við skoðuðum marga merka staði eins og t.d. Woodstock þar sem Blendheim Palace er, sem er fæðingarstaður Sir Winston Churchill og fleiri lítil þorp og má þar nefna Burford, Bibury, Fairford og Chipping Norton.

Ég komst að því að ég er algjörlega áttavillt og það var eins gott að ég var ekki ein á ferð. Ég keypti tvær bækur sem vonandi eiga eftir að gagnast mér í náminu sem ég þarf að fara að sinna núna eftir uppsöfnun á verkefnum.

4.3.03

Jæja þá er þessi skemmtilega helgi liðin. Ráðstefnan var líklega lík öðrum ráðstefnum, en ég hef nú ekki sótt þær margar. Eftir setningarathöfn, myndbandið um framtíðarsýn fólks á upplýsingalæsi og fyrirlestur Guðrúnar Þengilsdóttur nema (Að vera eða vera ekki með fartölvu í fartölvubekk) valdi ég málstofu hjá Ómari Erni Magnússyni þar sem hann kynnti Raunveruleik sem er gagnvirkt kennslutæki í lífsleikni. Þetta er leikur sem er ætlaður nemendum í 10. bekk og er að mínu mati frábært kennslutæki. Ég sá umfjöllun um leikinn í morgunsjónvarpinu um daginn og var strax hrifin og fannst leikurinn upplagður til að nota með í heimilisfræðivalinu.
Svo hlustaði ég á hluta af fyrirlestri hjá Mark O´Brien The Ins and Outs of University Computer Science.

Ég skil ekkert í þessu ég sé svo illa letrið, það hefur eitthvað breyst umhverfið hér. Hvað segið þið um það?

Systa og Ævar buðu mér á Hótel Kea á föstudagskvöldið í mat og á tónleika með Ríótríóinu (ásamt Gunnari Þórðar) og þetta var meiriháttar skemmtun.

Á laugardagsmorgun mætti ég galvösk vel fyrir 9 og hlustaði á Jóhann Guðna Reynisson sveitarstjóra Þingeyjarsveitar. Erindi hans „Ég lifi í draumi …“ var skemmtilegt og frábærlega vel flutt með söng, leik og látbragði.
Nafnið flott hjá honum og ég hélt að þarna kæmi erindi um Dreamweaver, en svo var auðvitað ekki.
Svo hlustaði ég á mjög góðan fyrirlestur Ingibjargar Haraldsdóttur og Krístínar Steinarsdóttur um notkun fartölvu sem kennslutækis fyrir Nínu dóttur Kristínar.
Því næst hlustaði ég á Johan Strid um Living in the future, implications of the imformation age. Mér fannst hann tala þó nokkuð um fortíðina í erindinu, en ég er líklega ekki nógu góð í enskunni og skildi alls ekki allt hjá honum. Mér fannst líka óþarfi að prenta öll rauðu og grænu spjöldin fyrir nokkrar spurningar.

Strúlla bauð mér svo í hádegismat til foreldra sinna í grjónagraut með meiru. Þetta reyndist vera fjölskyldugrautur hinn besti og hitti ég þar nokkra ættingja hennar. Það er nú meira hvað er dekrað við mann.

Eftir hádegi hlustaði ég á átta manns lýsa NámUST rannsókninni frá leikskóla til háskóla og svo á Ásrúnu Matthíasdóttur um úttekt á íslenskum vefsíðum. Núna verð ég að fara að sofa.

2.3.03

Ég kom heim frá Akureyri áðan. Frábært hvað við vorum heppin með veður.