Sigríður Kristín Óladóttir

24.2.03

Obb obb obb … ekkert mál. Þá er hægt að snúa sér að öðru þegar þetta er í höfn. Ótrúlega smart hjá litla bróður mínum að senda mér þennan líka flotta blómvönd i gær ég má til með að nefna það hér, takk Valli.

Ég ætla að setja inn mynd sem tekin var af barnabörnunum í gær eftir páskadagsleikinn.





23.2.03

Nóg komið í bili, þessar tilraunir heppnast ekki hjá mér. Myndin er samt komin inná myndasíðuna á heimasíðunni minni.

Þetta tókst ekki í fyrstu tilraun en núna reyni ég aftur og aftur og einu sinni enn ………

Ég ætla að athuga hvort ég get sett inn eina mynd af barnabörnunum. Þetta er nokkurs konar samsteypa úr tveimur myndum eins og sjá má. Önnur myndin er tekin í Þýskalandi fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári en hin er tekin hér á landi fyrir 2 mánuðum. Ég á ekki von á því að þetta takist í fyrstu tilraun.

Morgunstundin heppnaðist frábærlega vel á föstudagsmorguninn og það var gaman að sjá hversu margir foreldrar voru viðstaddir.

Núna ætla ég að kíkja á forritin, ég er búin að slá slöku við að undanförnu og það gengur ekki lengur. Ég þarf að athuga hvort ég get notað FlashFXP í stað FTP sem ég notaði fyrir uppfærslu.

Ég skrapp aðeins til Reykjavíkur í gær og hitti skólasystur mínar af því að Ninna úr Vestmannaeyjum var í höfuðborginni. Við erum búnar að panta okkur ferð til Parísar í sumar vegna þess að við eigum 3ja áratuga útskriftarafmæli.

Ég ætla að vinna i þessu fram að kaffi, en í dag ætlar Óli Örn að halda uppá 4 ára afmæli Hlyns sem á afmæli 1. mars.

20.2.03

Ég ætlaði að vinna eitthvað í kvöld en sprakk alveg á limminu. Á morgun verður morgunstund hjá okkur í skólanum og það verður gaman ef hún heppnast eins vel og síðast. Allir nemendur og allt starfsfólk skólans fer út í íþróttahús og þar munum við syngja saman fjögur lög sem æfð hafa verið að undanförnu og eitt þeirra er að sjálfsögðu skólasöngurinn okkar. Að undanförnu höfum við kennarar og annað starfsfólk skólans verið að gefa nemendum "bláa spjaldið" sem þeir fá ef þeir iðka góða siði s.s. kurteisi, þakklæti, virðingu, hjálpsemi eða annað jákvætt. Þetta hefur heppnast mjög vel og margir nemendur hafa hegðað sér framúrskarandi vel og mun betur en venjulega. Dregið verður úr pottinum og einn nemandi úr hverjum árgangi fær viðurkenningu á morgunstundinni á morgun. Nú ætla ég að fara að sofa....

18.2.03

Núna er allt komið í þetta líka fína lag hjá mér, nema afköstin þau má alltaf laga. Það er merkilegt hvað maður getur verið lengi að lesa og skoða ýmis verkefni. Ég var lengi að skoða vefinn um vefhönnun sem Salvör sendi í gær. Maður gleymir sér alveg í þessu, þetta er svo skemmtilegt.

…Þetta virkar fínt, ég sá að Salvör var líka að prófa þetta í gærkvöldi. Ég sá hvernig þrípunktur er búinn til í blogginu hjá Lilju.

Þorrablótið var að sjálfsögðu mjög vel heppnað eins og venjulega. Ég set hér inn vísur að gamni sem Ingi Steinar skólastjóri orti, en ég flutti í byrjun skemmtunarinnar.

Loks á enda löng er biðin
Lífið brosir glatt við mér
Búið er að sjóða sviðin
og súrsa punginn handa þér

Hér skal alla munna metta
Mikið er í trogin lagt
Hér mega' allir íða detta
eftir því sem mér er sagt

Hér má dansa og syngja saman
sötra bjór og þamba gin
Hérna verður heljargaman
Hjartanlega velkomin!!!!





15.2.03

Góðan daginn, ég fékk vægt taugaáfall áðan þegar ég var að skoða herlegheitin eftir uppfærsluna. Ég finn hvergi macromedia Fireworks og ekki heldur drauminn. Vonandi er þetta í felum einhversstaðar. Umhverfið er allt breytt hjá mér og hraðinn váá!!!!
Ég ætla að leyfa Atla að sofa lengur í það minnsta til kl. 13.00. En núna er ég sem sagt komin með KT 4 Ultra móðurborð designed for ADM Athlon,XP eða Duron Processor (ætli það sé örgjörvinn?) þannig að ég er komin í góð mál varðandi tölvukost.

Ég finn ekki heldur Outlook Express sem ég hef notað, en fann bara Microsoft Outlook sem ég kann ekki eins vel á. Svo vantar front fyrir floppy og þess vegna er það ekki komið hjá mér.

Drengirnir mínir halda að það næsta sem ég geri í tölvunotkun sé að spila leiki með þeim!!! En ég fullvissa ykkur um það að ég mun ekki gera það, til þess þarf róttækari breytingar en þær sem ég ræð við. Þarna á ég að sjálfsögðu við lengingu á sólarhringnum.

Atli er að gera heimasíðu og hér er heimasíðan hans. Þar er hann með krækju inná
HTML kóða sem hann notar við vefnaðinn.

Ég verð að bíða enn um sinn með myndirnar sökum tæknilegra örðugleika.


14.2.03

Núna er verið að vinna í uppfærslunni á tölvunni minni og Atli skrapp aðeins frá. Ég varð samt að prófa aðeins að fara á Netið og þvílíkur munur. Varðandi vefrallý bræðra minna, þá er Valli vissulega sigurvegarinn. Það á vel við að tilkynna úrslitin á þessum degi vegna þess að Valli heitir Valentínus.

Ég kemst ekki í Kennó á morgun en stefni á að kíkja á forritin sem við erum að læra á. Vonandi verður allt komið í lag í tölvunni minni. Annað kvöld er þorrablótið hjá okkur í Brekkubæjarskóla og það verður örugglega fjör eins og venjulega.

11.2.03

Ég var að senda bræðrum mínum meil og er að prófa á þeim fyrsta vefrallýið mitt. Þetta er auðvitað hálfgert grín en ég er orðin svo fj.... góð í að afrita að ég skelli því bara hér inn. Ef ég fæ viðbrögð þá finnst mér líklegt að sá elsti vinni keppnina, en þetta er nú bara okkar á milli kæra dagbók.

Sælir kæru bræður mínir

Nú er ég komin í hóp hinna alræmdu bloggara. Þið vitið sjálfsagt hverjir þar eru á ferð? Það er fólk sem vill láta allan heiminn vita hvað þeir eru að gera eða hugsa!!!
Þetta er liður í náminu hjá mér og er skylda á þessu námskeiði sem heitir Nám og kennsla á Netinu hjá Salvöru Gissurardóttur. Ég var svo hneiksluð á þessu að ég átti ekki orð yfir þessa vitleysu. Þið vitið hvað ég er óframfærin og feimin og þagði því eins og venjulega yfir þessari skoðun minni. Skrifa dagbók á Netinu!! fáránlegt og ekki nóg með það, þar verður að vera kynning á mér, tæknisaga, framtíðarsýn mín og fleira og fleira. Ef þið skoðið fyrstu færsluna þá lýsir hún hugarástandi mínu í byrjun. En þetta er nú líklega eitt af því sem hægt er að venjast eða hvað haldið þið?

Mamma var að hringja í mig, ég sem var að koma heim frá henni. Hún vildi að ég bætti aðeins á "tossaseðilinn" sem ég er með frá henni yfir það sem ég á að kaupa fyrir hana á morgun. Svakalega er langt síðan maður hefur séð orðið "tossi", þetta er ekki lengur til í orðaforðanum og algjört bannorð í skólum. En þessir miðar frá mömmu heita einfaldlega "tossaseðlar" og það var fullt af tossum í gamladaga þegar við vorum börn. Ekki satt?

Ég set hér með á stað Vefrallý og það er mjög auðvelt. Hér koma leiðbeiningarnar:

Þið eruð í Vefrallýi strákar mínir og nú ætla ég að gá hver er fyrstur. Þið eruð sem sagt í keppni, en ekki í golfi eða lax- eða silungsveiði að þessu sinni, heldur er galdurinn þessi:

1. Þið eigið að kíkja á bloggið mitt. (ég er sko komin með teljara)

2. Hvernig er fyrsta bloggið mitt?

3. Láta mig vita svo ekki verði véfengt að þið hafið skoðað það (bloggið).

4. Komið með nákvæma lýsingu á tossaseðlinum frá mömmu! (þ.,e.a.s.útlit, helst stærð, lit og allt sem ykkur dettur í hug)

Þegar þessu er lokið sendið mér póst og munið að þetta er keppni. Hver verður fyrstur? Hér er slóðin http://siggaola.blogspot.com/

Bestu kveðjur, ykkar systir
Sigga

10.2.03

Nú er ég búin að breyta iunum í í í síða og mín. Þannig að þetta gengur ljómandi vel. Ætli maður geti orðið háður því að skrifa í bloggið? Mér fannst þetta ótrúlega erfitt fyrst en þetta venst eins og karlinn sagði.

Það er einkennilegt að eiga þrjú börn í útlöndum á sama tíma ásamt barnabarni og tengdasyni og það venst ekki. Helga og fjölskylda verða áfram í Þýskalandi og Þóra verður einhverja mánuði í Englandi. Óli Örn er nú væntanlegur heim á fimmtudaginn og kemur þá með nýtt móðurborð, örgjörva og fl. í tölvuna mína. Svo tekur Atli við og setur dótið í og uppfærir hana segir maður það ekki?

Ég þarf endilega að fara að kíkja á Fireworks og næst langar mig til að setja mynd á bloggið, helst af barnabörnunum. Þetta verður ekki í dag, en vonadi fljótlega.

9.2.03

Þetta er orðið gott í blogginu í dag, ég er búin að skoða þetta html þar sem íslensku stafirnir eru á nokkurs konar dulmáli. Ég á eftir að finna hvernig í ið er til þess að setja það inní síða og mín. En það verður að bíða betri tíma.

Nú ætti þetta að vera komið eða hvað?

Þetta var merkilegt, tókst í fyrstu tilraun og ég er aldeilis í essinu mínu. Næst verður að reyna við spjallgluggann ef mér tekst að setja hann inn, þá færist teljarinn væntanlega neðar, mér finnst hann vera svo ofarlega núna. Ég ætla að gera eina tilraun og svo verð ég að fara niður í skóla til að setja inn einkunnir og ef þetta tekst ekki í fyrstu tilraun þá reyni ég aftur seinna í dag.

Nú ætla ég að gera tilraun með teljarann. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur!!

8.2.03

Mikið er ég fegin að ég skellti mér í Kennó í morgun þrátt fyrir hálku á köflum. Ég mætti fyrst á svæðið og stofan var læst!! Klukkan var 9.40 og enginn mættur og ég hélt auðvitað að ég hefði ruglast á dagsetningu. Svo var sem betur fer ekki því Lilja birtist fljótlega og sagði mér m.a.að hún væri systir Erlu Ólafs skólasystur minnar frá Blönduósi, svona er heimurinn lítlill.

Það var fínt að fara í þau atriði sem Björn fór í og það verður gaman að sjá hvernig gengur að vinna með myndirnar. Það er líka alltaf gaman að hitta samnemendur sína. Árni fór svo með okkur nöfnu yfir nokkur atriði í blogginu og núna er ég búin að breyta Pás#tur ( hefði átt að vera plástur ) í Póstur. Takk Árni og Ingigerður fyrir aðstoðina, ég vissi ekki að ég ætti að ýta á appelsínugula publish takkann eftir breytingar. Þetta lærist allt, ef til vill reyni ég að setja skilaboðaskjóðu og teljara á bloggið en ekki í kvöld.

Ég fór svo beint í tveggja tíma danskennslu hjá Óla Geir eftir að ég kom heim og núna ætla ég að slökkva á tölvunni og kíkja á sjónvarpið.

7.2.03

Jæja þá er mál til komið að bretta upp ermar og halda áfram í náminu. Magakveisa hefur verið að hrjá mig eins og fleiri í vikunni og lítið hefur áunnist í verkefnunum. Nú þarf ég að fara að klára vefrallýið, í það minnsta fyrsta uppkast. Ég er búin að ákveða að vefrallýið verður verkefni í næringarfræði fyrir nemendur í 8.bekk og nota þennan vef.
Ég skoðaði aðeins leiðbeiningarnar sem eru komnar frá Birni um Fireworks og ég stefni á að skreppa í bæinn í fyrramálið þ.e.a.s. ef veðrið verður betra en það er núna.

4.2.03


Mér tókst ekki að senda skilaboð til Salvarar á kennarablogginu og set því slóðina aftur hér.

Hér er heimasíðan mín.

1.2.03

Þetta var aldeilis gaman, ég er búin að vera að skoða drauminn í allan dag þ.e.a.s. eftir leikinn. Ég er líka búin að gera heilmikið í draumnum og á líka eftir að breyta ýmsu og laga margt.

Ég átti eftir að setja inn framtíðarsýn mína og það ætla ég að gera núna. Vonandi hef ég ekki misskilið fyrirmælin í sambandi við vefrallýið, en ég held að nóg sé að skrifa hugmynd um vefrallýið. Það er margt sem kemur til greina og nefni ég næringarfræði, Akranes eða umhverfismál.

Hér kemur framtíðarsýn mín:
Ég held að það komi alltaf sömu punktarnir upp varðandi framtíð tölvutækninnar. Þær verða ódýrari, smærri, hraðvirkari og algengari.
En það eru alltaf einhverjar pælingar um ný efni, ofurleiðara, ljóshraðasamskipti og svoleiðis.
Ég mun hafa mína eigin heimasíðu sem verður með fjölbreyttu efni og ég verð búin að eignast og læra á stafræna myndavél.

Við munum öll nota fartölvu í kennslunni.Ég mun nota tölvu til að sýna rétt vinnubrögð í heimilisfræðinni, vera með stuttmyndir sem sýndar eru á vegg eða tjaldi með sýnikennslum, svona gerum við þegar við bökum okkar brauð o.s.frv. Starf kennarans mun því breytast nokkuð en verður alls ekki óþarft.

Við munum nota tölvu til samskipta við ættingja og vini í útlöndum og höfum útbúnað þannig að við sjáum og heyrum þá sem við tölum við. Síminn verður þá óþarfur nema farsímar. Flestir kaupa sér og eiga stafrænt sjónvarp.
Ef til vill verðum við komin með vélmenni til þess að vinna ýmis heimilisstörf . Hvernig var textann aftur? Mig dreymdi að væri komið árið 2012, tunglið væri malbikað og steypt í hólf og gólf. Veröldin var skrýtin það var allt orðið breytt, vélar unnu störfin og enginn gerði neitt.

Framför sem mér fyndist skipta máli væri ef hægt væri að fara í rúmið og láta fara jafnvel um sig þar með tölvu og með bók. Þ.e. ef tölvur yrðu gerðar úr einhverjum sveigjanlegum eða sambrjótanlegum efnum.

Ég læt þetta duga í dag. Ég ætlaði að klára vefrallýið en datt í staðinn í drauminn.