Sigríður Kristín Óladóttir

30.3.03

En hvað tíminn líður hratt. Árshátíðarballið tókst ljómandi vel. Mikið voru krakkarnir góð og svo voru þau svo vel klædd og fín. Það tók okkur 15 mínútur að skammta og bera matinn á borð fyrir unglingana. Þetta er alveg dagsatt. Við vorum líklega um 20 sem skömmtuðum og þjónuðum til borðs. Matseðillinn var: Bayonne skinka með brúnuðum kartöflum, salati, maiskornum og sósu. Í eftirrétt var svo Frönsk súkkulaðiterta sem nemendurnir höfðu bakað í heimilisfræði í báðum skólunum. Stefán frændi minn var afskaplega ánægður með matinn og fékk víst nokkrum sinnum ábót. Hann á ekki langt að sækja matarlystina Valli minn! Krakkarnir borðuðu vel og skemmtu sér frábærlega. Nemendur, kennarar og starfsfólk Arnardals sáu um skemmtiatriðin og hjólmsveitin Írafár spilaði á ballinu. Skemmtiatriðin voru öll mjög góð og svaka stuð á ballinu.

Gærdagurinn var búinn áður en ég vissi af. Nú er ég aðeins byrjuð að taka til hjá mér og laga verkefnin þar sem textinn flæðir yfir allar síðurnar. Veit núna að þetta á ekki að vera svona, þetta er líka svo ljótt hjá mér. En ég ætla nú bara að gera þetta í rólegheitunum eftir því sem tími vinnst til. Ég er nefnilega svo lengi, svo lengi, svo lengiiii að þessu.

Næsta verkefni er að kóða nemendurna sem ég fylgdist með í rannsókn Sólveigar. Mér fannst verst að ég gat hreinlega ekki skrifað nógu hratt þegar þau voru að vinna. En það nær ekki lengra. Ég ætla nú samt að taka mér frí í dag og fara út í göngutúr og fara svo að lesa. Mér líst vel á bókina sem ég keypti mér úti og heitir How to use Dreamweaver MX & Fireworks MX. Ég er nú samt með aðra bók í huga varðandi lestur dagsins.

Mamma er búin að kaupa sér nýtt raðhús á mjög góðum stað. Núna kemst hún niður á jörðina ef maður getur sagt svo, en íbúðin sem hún seldi er á annari hæð og stigarnir hafa reynst henni dálítið erfiðir. Útsýnið er alveg frábært hjá henni eins og hjá okkur systkinunum og nú verður hún í göngufæri við dvalarheimilið Höfða sem er mikill kostur. Hjartanlega til hamingu með húsið mamma! Hún var að fara á Örkina með eldri borgurum og verður þangað til á föstudag.

Niðurtalning er hafin fyrir löngu, núna eru bara 13 dagar þar til Helga, Alex og Nína koma í páskafrí og ég hlakka svo til.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home