Sigríður Kristín Óladóttir

16.12.04

Laufabrauð

Ég er búin að gera laufabrauð, ég kláraði það eftir kennslu í dag. Ég var að kenna valhópnum að gera laufabrauð. Hrönn Egg kom og skar munstur í kökurnar og við létum það bara duga. Svo hjálpaði einn nemandinn úr 10. bekkjar valhópnum mér að steikja kökurnar, frábært það.

Þetta er uppskriftin sem ég notaði:
1 l. nýmjólk
1 ½ bolli sykur
75 g smjörlíki
2 kg hveiti (tæplega)
1 tsk hjartarsalt
1 tsk lyftiduft


Aðferð:

1. Sjóðið mjólk,sykur og smjörlíki saman
2. Kælið aðeins
3. Setjið tæplega 2 kg af hveiti í fat (geymið 3 – 4 dl)
4. Blandið lyftidufti og hjartarsalti saman við. Hellið mjólkinni saman við og hrærið fram og til baka, ekki í hringi eins og venjulega.
5. Hnoðið deigið og fletjið örþunnt út og skerið með kleinuhjóli eftir brauðdiski, ath þær stækka aðeins í steikingunni.
6. Skerið munstur í kökurnar með laufabrauðsjárni og flettið upp. Festið með mjólk ef kökurnar eru þurrar.
7. Steikjið í sjóðandi heitri tólg og pressið um leið og búið er að steikja kökurnar.

Þetta eru 50 – 60 kökur, ég held nær 60.



Ég hélt lengi vel að það væru bara krakkarnir mínir, þ.e.a.s. þau sem blogga sem lesa bloggið mitt. En umferðin er orðin svo mikil að það hljóta að vera fleiri, hverjir eru þetta? Ég segi eins og Óli af hverju ekki að kommenta? Halló hverjir eru þetta? Spyr ein sem er ekkert sérstaklega forvitin.

Helga var að skrifa um hefðir og mun á íslenskum og þýskum jólum.
Hún kýs að hafa jólin frekar íslensk en þýsk. Í Þýskalandi eru sumir með bratwurst og kartöflusalat á aðfangadag, aðrir með kjúklingasúpu, fisk, brauð og álegg, raclett eða fína steik eins og gæs eða slíkt. Sumir opna pakkana áður en þeir borða, sérstaklega ef þeir eiga lítil börn sem bíða óþreyjufull eftir að fá að opna pakkana. Sjálfsagt er þetta líka mismunandi hér hjá okkur er allir sem ég þekki borða fínan mat, klæða sig fínt, bíða til kl.18 á aðfangadag og hafa hátíðarbrag yfir öllu.
Hjá okkur hefur skapast sú hefð á aðfangadagskvöld að börnin vaska upp eftir matinn. Ég fer í þægilegasta sæti hússins og þau byrja á því að hella uppá og færa mér kaffi og líkjör á meðan þau ganga frá. Þetta hafa þau gert frá því að þau voru lítil. Þegar frágangi er lokið eru pakkar og kort tekin upp. Einn fjölskyldumeðlimur les á alla pakkana, en einn tekur upp í einu, helst til skiptis ef því verður við komið.

Ég hef ekki enn heyrt frá íbúum Reynigrundar 24.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home