Sigríður Kristín Óladóttir

28.12.04

Gleðileg jól

Ég óska öllum þeim sem lesa þessar línur Gleðilegra jóla.

Mér finnst að það eigi að segja gleðileg jól þótt komið sé fram yfir annan í jólum en ekki gleðilega rest eins og sumir segja.

Við höfum haft það mjög gott um jólin, gert mikið af öllu sem tilheyra jólum eins og að borða, drekka, spila, sofa, liggja í leti svo eitthvað sé nefnt. Það hefur lítið farið fyrir hollustu og hreyfingu en það verður bara tekið síðar.

Hlynur kom á annan í jólum og verður fram yfir áramótin. Það er óhætt að segja að hann lífgar mjög mikið uppá heimilishaldið hér hjá okkur, þó er hann alltaf stilltur og góður lítill fjörkálfur. Hann tók upp pakkana sína þegar hann kom og las sjálfur á merkimiðana og vildi endilega geyma þá.

Það er óhætt að segja að gjafirnar mínar voru merktar á fjölbreyttan hátt. Algengust var þó merkingin frú Sigríður Kristín, svo kom frú Sigríður, síðan Mamma Rokk og Sigga. Ég fékk margar fínar gjafir t.d. kristalsrauðvínsglös, takið eftir þessu, (það eru sko engin vandræði með rauðvínsglös á þessu heimili), fleiri kristalsglös, hálsmen, þvottapoka, engil og mokkabolla svo eitthvað sé nefnt. Svo fékk ég tvö sérlega skemmtileg gjafabréf, bæði voru auðvitað stíluð á frú Sigríði Kristínu.

Annað bréfið var svona:
Frú Sigríður Kristín, handhafi þessa gjafabréfs á inni skápaþrif. kjallaraþrif og bílaþrif hjá eftirtöldum börnum sínum; Óla Erni, Þóru og Atla Þór. Handhafi gjafabréfsins má velja hvert barnanna framkvæmir hver þrif. Ennfremur gildir gjafabréf þetta í Þýskalandi þar sem að handhafi á inni tilgangslausan skemmtirúnt með dóttur sinni; Helgu.
Gjafabréfið nær þó ekki yfir maka eða börn systkinanna nér annað skyldfólk og vini.
Gjafabréfið má innleysa hvenær sem handhafi þess þóknast á árinu 2005.
Fyrir hönd barnanna og Helgu: síðan kom undirskrift hinna þriggja.

Seinna gjafabréfið var svona:
Handhafi þessa gjafabréfs; frú Sigríður Kristín á inni tvo miða í leikhús að eigin vali (svo lengi sem það sé á leiksýninguna Tenórinn í Iðnó). Þessu gjafabréfi fylgir jafnvel einkabílstjóri til og frá leiksýningu (svo lengi sem það feli ekki í sér einhvern óþarfa rúnt. Einnig verður handhafi gjafabréfsins að sjá einkabílstjóra fyrir mat og einhverri dægrastyttingu á meðan á sýningu stendur).
Handhafi gjafabréfsins getur tekið með sér einn gest að eigin vali á umrædda sýningu, handhafanum og gestinum að kostnaðarlausu (svo lengi sem umræddur gestur sé Þórður Sveinsson)

Svo koma smáa letrið:
Séu þessi skilyrði ekki uppfyllt fellur gjafabréf þetta úr gildi. Einkabílstjórinn er valkostur sem handhafi þarf ekki að nýta sér. Fyrir hönd útgefenda gjafabréfsins: undirskrift barnanna Þóru, Óla og Atla Þór.

Ég fékk reyndar eitt gjafabréf í viðbót frá Brekkubæjarskóla. Innihald þess bréfs var holl og góð hreyfing og meðfylgjandi voru 10 sundmiðar og sturtusápa. Sniðug hugmynd, þetta verður væntanlega nýtt út í æsar á næsta ári.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home