Sigríður Kristín Óladóttir

31.1.07

Þar lágu Danir ekki í því!

Ææi þetta voru frekar sorgleg úrslit, en svona er þetta í íþróttum. Það geta ekki allir unnið. Þeir voru samt óheppnir, þetta munaði svo litlu. Nú verða hin liðin sem ég held með að standa sig.
Við fengum ekki Skessuhorn fyrr en á mánudaginn, ég skil ekki hve pósturinn er seinn núna.
Það verður gaman að fylgjast með viðbrögðum sem verða við greininni sem rekja má til Óla!!! Haldið þið ekki að einhverjir bregðist við?

Pollagallarnir eru búnir að vera tæpar 2 vikur á leiðinni, þeir hafa líklega farið sjóleiðina hingað, hver veit.!
Hér gengur lífið sinn vanagang, nú er rigning og 7 stiga hiti. Það var dálítið undarlegt að í gær eftir hádegi var aðeins klakaskán á síkinu umhverfis Kastalann. Það var nú samt 8 stiga hiti, en það hlýtur að hafa verið frost um nóttina eða hvað?

Helga í Svíþjóð fór í heilmikla skurðaðgerð fyrir tæpum hálfum mánuði og allt virðist hafa gengið vel, en hún er alveg ótrúlega dugleg og jákvæð. Þetta var krabbameinsæxli í heilanum, samt brjóstakrabbamein sem gekk upp í heila. Vonandi gengur þetta vel hjá henni.

Það er heilmikið að gerast hjá Helgu minni og fjölskyldu þessa dagana. Balthasar er ekki með kíghóstann og er kominn á sýklalyf. Vonandi batnar honum fljótt. Bæði Helga og Alex eru búin að fá vinnu heima, frábært. Við sendum hjartanlegar hamingjuóskir héðan.

Við erum að fara í vikulega kirkjuferð okkar á eftir, ekki veitir okkur af kristilegri yfirhalningu eða hreyfingunni sem við sækjum þangað.

24.1.07

Skessuhorn: Segir umsækjendur hafa....

Ég hlakka til að sjá greinina í Skessuhorni svo ekki sé meira sagt. Á vef Skessuhorns er fyrirsögnin þessi: Segir umsækjendur hafa verið hafða að fíflum
Svo kemur: Óli Örn Atlason, einn umsækjenda um stöðu verkefnisstjóra æskulýðs- og forvarnarsviðs Akraneskaupstaðar....

Já ég er mjög sátt við það, að athugasemdir séu gerðar við þessa ráðningu. Ekki það, að ég sé svekkt yfir því að hvorugt barna minna hafi hreppt stöðuna, sei sei nei. Tölfræðin var nú samt með minni fjölskyldu, því að hvorki meira né minna en 20% af þessum 10 umsækjendum voru einmitt Helga og Óli Örn. En það er greinilega ekki nóg að hafa einhverja möguleika prósentulega séð, það vita nú allir heilvita menn. En þannig fór að hvorugt þeirra komst í 5 manna úrtakið, ég skil það reyndar alls ekki af því að bæði höfðu þau menntunina sem krafist var í auglýsingunni ... en svona er þetta bara!! Ég verð nú að bæta því við að ekki skortir nú heldur gáfurnar og hæfileikana!! Kemur þetta nokkuð á óvart?

Ég verð að segja það að þegar ég sá nöfn umsækjenda, datt mér ekki annað í hug enn að Steinunn Eva yrði ráðin. Einhver hvíslaði því að mér að þetta starf hefði verið búið til fyrir Heiðrúnu eða Sigrúnu. Ég sagði: Nei, það getur ekki verið að hægt sé að ganga fram hjá Steinnunni, en svona er maður vitlaus!!!

Þegar við komum heim úr Kildevældskirkjunni áðan var Ísland 3 mörkum undir og ég sagði við Þórð: já, fínt!!! ég held með Túnis.(ég meinti það virkilega, úps!). Eftir smástund datt útsendingin út og kom inn og datt út og við heyrðum ekki úrslitin fyrr en í fréttunum, en Ísland vann, áfram Ísland!!!

23.1.07

Áfram Ísland!

Við trúðum þessu ekki þegar við náðum loks netsambandi til að hlusta á lýsinguna á rás 2 í gærkvöldi, en .... Ísland er komið í milliriðil Heimsmeistaramótsins í Þýskalandi eftir ótrúlegan sigur á Frökkum 32-24 . Ég sagði einmitt við Þórð fyrir leikinn: Ég ætla sko að halda með Frökkum, mér finnst París dásamleg borg!! Ég ákvað líka að halda með Norðmönnum á móti Dönum af því að þau lið sem ég held með tapa alltaf. Það brást heldur ekki að þessu sinni!!!!
Íslendingar mæta Túnis í fyrsta leik milliriðilsins á miðvikudaginn. Á fimmtudag leikur Ísland gegn Pólverjum og á laugardag mætir Ísland Slóvenum og á sunnudag er síðasti leikur liðsins í milliriðlinum gegn Þjóðverjum. Ótrúlega spennandi ekki satt?
Við munum líklega sjá leikinn gegn Þjóðverjum á sunnudaginn, við höfum getað séð leikina sem Þjóðverjar hafa spilað hingað til.

Annars er allt gott að frétta af okkur. Í gær snjóaði og hitinn var - 3°. Það varð sem sagt allt hvítt og það var meira að segja haglél á leiðinni heim úr skólanum. Við vorum einmitt að tala um það í morgun að við þurfum líklega að kaupa okkur sköfu til að skafa af bílnum ef við ætlum að fara eitthvað á honum núna. Hann er alveg þakinn snjó þessa stundina.
Atli er búinn að senda okkur pollagallana og það var eins og við manninn mælt, um leið og þeir voru komnir í póst, hætti að rigna og byrjaði þess í stað að snjóa!!!
Ég var nefnilega viss um að það mundi rigna alveg út í eitt fram á haust ef við hefðum ekki rétta útbúnaðinn, sem sagt pollagallana okkar.

Í gær breytti ég hjá mér í tölvunni þannig að nú get ég skipt á milli lyklaborða, íslenkt, danskt og þýskt. Það er ekki það, ég skrifa ekki neitt á þýsku en það er ágætt að hafa það ekki satt Helga?
Nú ætla ég að skrifa öll heimaverkefnin á tölvuna. Bæði er það að miklu fljótlegra og svo hefur breyst hjá okkur í skólanum varðandi skriflegu heimaverkefnin. Nú leiðrétta kennararnir verkefnin okkar með leiðréttingarlykli og skrifa t.d. Ø3(vantar kommu) M3 (samtengingu vantar). Við þurfum að leiðrétta verkefnin sjálf og skila þeim aftur leiðréttum. Það er því gott að við keyptum okkur prentara fyrir jólin þannig að þetta verður bara allt í lagi. Ég sé að á þessu verkefni mínu sem ég þarf að leiðrétta, að flestar villurnar eru þær að það vantar kommu.

Ég var að tala við Helgu sem sagði mér að Balthasar litli er líklega komin með kíghósta, æ,æ, litla skinnið. Ef það reynist rétt, þá er hann vonandi frekar vægur. En á doktor.is segir m.a. um kíghósta : Kíghósti er bakteríusýking sem veldur slæmum langvarandi hósta. Hann er nú sem fyrr hættulegur ef börn undir 6 mánaða aldri fá hann þar sem þau hafa þrengri loftvegi en eldri börn og seigt slímið gerir þeim erfitt að ná andanum.
Við biðjum að heilsa ykkur í bili, en það er aftur farið að snjóa pínulítið hér maður ætti kanski að fara út í snjókast!

19.1.07

Brjálað veður víða og 19.janúar!

Bara nokkrar línur núna. Eins og allir vita hefur verið vitlaust veður í Englandi og Þýskalandi og fleiri löndum. Hérna er þetta líka fína veður í dag var sól öðru hverju og um 8 stiga hiti. Við höfum ekki séð vonda veðrið sem gekk yfir Danmörku um daginn, það var mest á Jótlandi. Ég held að staðsetningin sé alveg frábær hjá okkur og það er gott að hafa þrefalt gler!!

Í dag hefði Atli Þór Helgason orðið 57 ára, en hann dó fyrir tæpum 27 árum. Skrifa meira seinna.
Bestu kveðjur héðan

10.1.07

Gleðilegt ár kæru vinir!

Gleðilegt ár. Þetta er í annað skiptið sem ég set inn nokkrar línur á þessu ári. Hitt skiptið var þegar Atli Þór átti afmæli. Takið eftir hve dagsetningin á afmælisdegi hans er flott 07.01.´07!!

Tíminn heima flaug alveg frá okkur og tíminn var liðinn áður en við vissum af. Það var frábær tilfinning að koma inn í húsið heima, mér fannst ég vera að koma inní höll!! Er þetta ekki einmitt þannig, að maður kann ekki alltaf að meta það sem við eigum og höfum, fyrr en við prófum eitthvað annað. Þóra og Atli voru líka búin að taka allt húsið í gegn að innan og þrífa pottinn og skreyta að utan. Það er ekki amalegt að eiga svona myndarleg börn. Við spiluðum töluvert heima og vorum stöðugt að borða eins og fylgir þessum árstíma. Ég saknaði þess ekkert að hafa ekki bakað eina köku fyrir þessi jól, það kom vissulega á óvart. Við vorum búin að borða smákökurnar frá Helgu hér áður en við fórum heim.

Við erum sem sagt komin aftur út eftir jólafríið. Nú er lífið aftur að færast í fastar skorður, ég er byrjuð í skólanum og verð 4 daga þessa viku vegna prófa. Það var skriflegt í dag (hlustun og ritgerð) svo er munnlegt próf á morgun. Það var einkennilegt á mánudaginn þegar ég var á leiðinni í skólann, haldið þið að ég hafi ekki steinlegið á gangstéttinni, úps!!! Ég var heppin að ég var í kápunni minni og með leðurhanska, annars hefði ég meitt mig (meira). Mér datt í hug Óli máttlausi heitinn og hugsaði með mér kanski er hér komin, dadda radda da, engin önnur en..... "Sigga Óla máttlausa"
Þetta kennir mér að betra er að lyfta fótum vel upp þegar ég geng hér á mishæðóttum hellulögðum gangstéttum, jafnvel eins og ég sé að ganga í þúfum, sjáið þið mig í anda? Jæja svo hugsaði ég bara, þetta er örugglega góðs viti því að "Fall er fararheill" ekki satt?
En í gær fórum við svo út í Nettó á Hondunni sem hefur staðið hér fyrir utan hreyfingarlaus síðan 21. desember. Hún (Hondan)var auðvitað í góðu lagi, en það sama er ekki hægt að segja um starfsmenn EuroPark A/S sem fundu hjá sér þörf til að smella einum sektarmiða á framrúðuna á þessu korteri sem við vorum að versla. Hérna hinum megin við Adina hótelið, hugsið ykkur. Ég varð öskureið og sagði við Þórð, ég borga þetta ekki, frekar sit ég sektina af mér í fangelsi. Ætli það sé hægt hérna?
Sektina fengum við vegna þess að bannað var að leggja þarna. Það höfðum við aldrei séð áður. Við löbbuðum svo yfir litlu síðar til að athuga með merkingar, þá kom í ljós að við innkeyrsluna inná planið er KOMIÐ skilti sem segir að bannað sé að leggja bílum þar nema á merktum bílastæðum. Við erum ekki alveg sammála um aldur þessa leiðinda skiltis, Þórður les úr jarðveginum í kringum skiltið að það sé ekki eins nýtt og ég held fram. Ég held líka að hann ætli að borga sektina, ekki endilega til að ég lendi ekki í fangelsi!!! Heldur til að auðveldara verði að endurnýja langtímabílastæðaleyfið okkar, sem gildir hér á svæðinu og aðeins í merktum bílastæðum. Hann er búinn að fela sektarmiðann af því að hann heldur að ég láti hann hverfa!!!

Við stefnum á að skreppa í heimsókn til Helgu í vetrarfríinu sem verður í febrúar þ.e.a.s. ef þau verða ekki flutt heim. Mér skilst að það geti jafnvel gerst með stuttum fyrirvara eða hvað?

Ekki meira núna, ég verð að fara að læra, en ég lofa að skrifa fljótlega. Bestu kveðjur.

7.1.07

Atli Þór 23 ára í dag!

 

Til hamingju með afmælið elsku Atli Þór. Þetta er ársgömul mynd eins og sjá má á andlitinu, þvílíkur munur Posted by Picasa