Sigríður Kristín Óladóttir

10.1.07

Gleðilegt ár kæru vinir!

Gleðilegt ár. Þetta er í annað skiptið sem ég set inn nokkrar línur á þessu ári. Hitt skiptið var þegar Atli Þór átti afmæli. Takið eftir hve dagsetningin á afmælisdegi hans er flott 07.01.´07!!

Tíminn heima flaug alveg frá okkur og tíminn var liðinn áður en við vissum af. Það var frábær tilfinning að koma inn í húsið heima, mér fannst ég vera að koma inní höll!! Er þetta ekki einmitt þannig, að maður kann ekki alltaf að meta það sem við eigum og höfum, fyrr en við prófum eitthvað annað. Þóra og Atli voru líka búin að taka allt húsið í gegn að innan og þrífa pottinn og skreyta að utan. Það er ekki amalegt að eiga svona myndarleg börn. Við spiluðum töluvert heima og vorum stöðugt að borða eins og fylgir þessum árstíma. Ég saknaði þess ekkert að hafa ekki bakað eina köku fyrir þessi jól, það kom vissulega á óvart. Við vorum búin að borða smákökurnar frá Helgu hér áður en við fórum heim.

Við erum sem sagt komin aftur út eftir jólafríið. Nú er lífið aftur að færast í fastar skorður, ég er byrjuð í skólanum og verð 4 daga þessa viku vegna prófa. Það var skriflegt í dag (hlustun og ritgerð) svo er munnlegt próf á morgun. Það var einkennilegt á mánudaginn þegar ég var á leiðinni í skólann, haldið þið að ég hafi ekki steinlegið á gangstéttinni, úps!!! Ég var heppin að ég var í kápunni minni og með leðurhanska, annars hefði ég meitt mig (meira). Mér datt í hug Óli máttlausi heitinn og hugsaði með mér kanski er hér komin, dadda radda da, engin önnur en..... "Sigga Óla máttlausa"
Þetta kennir mér að betra er að lyfta fótum vel upp þegar ég geng hér á mishæðóttum hellulögðum gangstéttum, jafnvel eins og ég sé að ganga í þúfum, sjáið þið mig í anda? Jæja svo hugsaði ég bara, þetta er örugglega góðs viti því að "Fall er fararheill" ekki satt?
En í gær fórum við svo út í Nettó á Hondunni sem hefur staðið hér fyrir utan hreyfingarlaus síðan 21. desember. Hún (Hondan)var auðvitað í góðu lagi, en það sama er ekki hægt að segja um starfsmenn EuroPark A/S sem fundu hjá sér þörf til að smella einum sektarmiða á framrúðuna á þessu korteri sem við vorum að versla. Hérna hinum megin við Adina hótelið, hugsið ykkur. Ég varð öskureið og sagði við Þórð, ég borga þetta ekki, frekar sit ég sektina af mér í fangelsi. Ætli það sé hægt hérna?
Sektina fengum við vegna þess að bannað var að leggja þarna. Það höfðum við aldrei séð áður. Við löbbuðum svo yfir litlu síðar til að athuga með merkingar, þá kom í ljós að við innkeyrsluna inná planið er KOMIÐ skilti sem segir að bannað sé að leggja bílum þar nema á merktum bílastæðum. Við erum ekki alveg sammála um aldur þessa leiðinda skiltis, Þórður les úr jarðveginum í kringum skiltið að það sé ekki eins nýtt og ég held fram. Ég held líka að hann ætli að borga sektina, ekki endilega til að ég lendi ekki í fangelsi!!! Heldur til að auðveldara verði að endurnýja langtímabílastæðaleyfið okkar, sem gildir hér á svæðinu og aðeins í merktum bílastæðum. Hann er búinn að fela sektarmiðann af því að hann heldur að ég láti hann hverfa!!!

Við stefnum á að skreppa í heimsókn til Helgu í vetrarfríinu sem verður í febrúar þ.e.a.s. ef þau verða ekki flutt heim. Mér skilst að það geti jafnvel gerst með stuttum fyrirvara eða hvað?

Ekki meira núna, ég verð að fara að læra, en ég lofa að skrifa fljótlega. Bestu kveðjur.

3 Comments:

  • Gaman að þú sért aftur búin að gera færslu á blogginu. Ég las allt og finnst þetta ekki of langt, ég er kannski ekki neitt venjuleg.

    Skilti, eða hvað? (varð nú að skjóta þessu að þér, ekki oft sem ég kem með svona eitthvað)

    Hvað um það, ég sagði við Alex í gær með áform þín um að greiða ekki sektina og hann hvetur þig til þess!!! Hann segir að ég sé allt of hrædd í svona málum, hvað geti gerst? Varla muni danska ríkið senda lögmenn til Íslands til að handtaka þig og stinga þér í fangelsi, því það tekur jú alltaf nokkurn tíma að málið komist á það stig!

    Gott hjá Þórði!

    Gangi þér vel í skólanum og þú ættir kannski að fá þér mannbrodda??? hihi...

    Já það gæti orðið brátt sem flutningur verður en ... það sem enginn veit, dadada... dúdúúddú´dúú´... darararararararadda.... nei bara smá djók

    kveðja í kotið Helga

    By Anonymous Nafnlaus, at 10/1/07 19:12  

  • Gleðilegt ár. Þetta er í annað skiptið sem ég set inn nokkrar línur á þessu ári. Hitt skiptið var þegar

    By Anonymous Nafnlaus, at 10/1/07 19:31  

  • Já auðvitað er það skilti, takk fyrir Helga mín.

    Jú mannbroddar geta sannarlega komið sér vel í 9 stiga hita og rigningu ekki satt?

    By Blogger Frú Sigríður, at 10/1/07 19:32  

Skrifa ummæli

<< Home