Sigríður Kristín Óladóttir

31.1.05

Sushi og leigubílalaus bær!!!

Helgin liðin og undarlegt hvað maður getur sofið mikið. Stundum finnst mér hálfleiðinlegt að splæsa öllum þessum tíma í svefn, en svona er þetta stundum.

Á föstudaginn bauð ég Valla bróður, Dóru mágkonu og Þórði í mat. Við áttum ánægjulegt kvöld saman og ég bauð m.a. uppá Sushi sem heppnaðist bara vonum framar. Seint um kvöldið vorum við svo alveg til í að kíkja á Mörkina, en hvað haldið þið, það er ekki hægt að fá leigubíl á Akranesi, ekki einu sinni um helgar. Þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að lesa inná símsvara, þannig að maður veit ekki hvort þeir eða einhver leigubílstjóri er að keyra. Það kemur bara talhólf, sem maður talar skilaboðin inn á og við marghringdum í símanúmer stöðvarinnar eða hvað á að kalla þetta (þetta er ekki stöð)af því að við vorum alltaf að vonast eftir svari, en auðvitað kom ekkert svar.
Þetta er lélegt í svona stóru bæjarfélagi, finnst ykkur það ekki?

Í gær skruppum við svo í Borgarnes og buðum mömmu með. Ég verslaði aðeins í Bónus, keypti þar villijurtakryddað lamb af því að von var á "uppáhaldssyninum" (eins og Atli orðaði svo skemmtilega) í kvöldmat. Þetta breyttist sem sagt hjá mér úr nenniggiaðelda í lúxuslambið ljúfa.

Sigrún skólasystir kom í heimsókn í skólann til mín í dag og var með mér í kennslu þegar ég var með 7. bekk. Ég var með strákahóp og þetta var sko ekki þeirra besti dagur. Sigrún hélt að ég segði þetta af því að hún var í heimsókn og vissulega finnst manni ennþá leiðinlegra þegar krakkarnir láta svona þegar gestir eru hjá okkur en úff, þetta var ömurlegt, fyrirgefið (hönd sett fyrir andlitið)!!! Ekki orð um það meir.

Það verður nóg að gera um næstu helgi, þorrablót hjá skólanum á föstudaginn og svo matarboð á laugardaginn hjá Elsu og Reyni, sem sagt steisjonshelgi, fínt.

28.1.05

Bit og ekki bit?

Staðan er sú að ég á tíma hjá lækni á eftir, þ.e.a.s. kl. 10:30 föstudag. Það sem er verra, eða betra fyrir mig er, að ég hef ekki verið bitin í langan tíma og hef því ekkert bit til að sýna honum og ætti því að afpanta tímann eða hvað? Ég hefði þurft að senda þig Óli minn!!!
Ég er því farin að hallast að því að það sé eitthvað hérna úti, en ekki inni. Það stendur yfir þessi líka heljarinnar uppgröftur í kirkjugarðinum, úps!!

Annars er allt gott að frétta, ég skrapp í borg óttans í gær og bauð mömmu með. Henni finnst alltaf gaman að fara í bíltúr og auk þess vantaði hana lyf sem hún keypti í Rimaapoteki sem er langódýrasta apótek landsins þori ég að fullyrða. Ég fór til Reykjavíkur til þess að kaupa hráefni í Sushi sem ég ætla að kenna valhópnum mínum í næstu viku. Bið að heilsa að sinni.

25.1.05

Bikarmeistarar í línudönsum

Við, þ.e. hópurinn Og Útalagar vörðum titilinn í línudönsum og urðum bikarmeistarar annað árið í röð. Ég er ekkert að segja ykkur hvað það voru mörg lið sem kepptu, þau voru vissulega fá, en við vorum ekki eina liðið. Ekki orð um það meir, nema ef til vill sú skemmtilega staðreynd að samkvæmt útskrift frá dómurunum settu þeir allir okkur í 1. sæti, bæði í skyldudansinum og valdansinum, flott það!!!

Annars er lítið að frétta, nú er úði úti og snjórinn óðum að hverfa. Mér finnst alltaf svo bjart og skemmtilegt þegar snjór er yfir öllu. Það rigndi svo mikið í gærkvöldi að basl var á rafmagninu hjá mér, það sló öllu út, aftur og aftur. Það virðist vera örbylgjuloftnetið eða útitenglar þar nálægt sem valda þessum fjanda. Ég verð að tala við rafvirkja í dag. Við hvern ætti ég að tala?

Óli heldur að hann hafi verið bitinn af einhverju skrímsli, líklega samt örsmáu, þegar hann gisti hér um helgina. Ég held að ég hafi líka verið bitin og það meira að segja nokkrum sinnum. Ekki get ég ímyndað mér hvaða óværa er hér á ferð á þessum árstíma. Er nokkur sem getur hjálpað mér að upplýsa þetta dularfulla mál? Ætli sé ekki best að panta tíma hjá lækni til að ganga úr skugga um þetta? Ég ætla að senda Magga fyrirspurn.

Ég var spurð um húsið á Reynigrundinni í gær, þ.e.a.s. hvort það sé komið á sölu. Ég sendi lögfræðingi mínum fyrirspurn um stöðu mála. Auðvitað kýs ég að reyna að losna við það sem fyrst, en ætli það þurfi ekki að ganga frá uppgjöri áður en hægt er að selja húsið. Ég vona bara að þetta taki ekki óratíma og aðra málsókn.

Ég átti að fara í starfsmannaviðtal áðan en Auður stjóri er veik eins og svo margir aðrir og viðtalið frestast því um sinn. Ekki meira núna, bið að heilsa ykkur.

21.1.05

Bóndadagurinn í dag

Til hamingju með daginn strákar. Þetta eru hamingjuóskir til allra karlmanna hvort sem þeir eru synir, vinir, tengdasynir, bræður, eiginmenn, kærastar, elskhugar eða ástarleikmenn. Orðið ástarleikmaður á Helga, flott hjá henni!!!

Ég gleymdi að nefna að það er hérumbil heil blaðsíða í mogganum á miðvikudaginn 19. jan.um Björgu Pjéturs kíkið hér. Greinin heitir Íslenskir hönnuðir eru að gera ólíka hluti.

Óli er búinn að setja út á Netið myndirnar sem ég tók á ítalska kvöldinu okkar skólasystra hjá Dómhildi. Ef þið viljið skoða þær þá smellið á þá hér.

Hér er mynd sem tekin var hjá Höllu þegar við vorum að undirbúa okkur fyrir boðið og Þóra var að mála ítölsku gellurnar.


19.1.05

Búið að þingfesta riftunarmálið

Það er aleg ótrúlegt að riftunarmálið hafi farið þetta langt. Ég verð að viðurkenna að ég hélt alltaf að þau mundu borga eða í það minnsta reyna eitthvað, eins og til að mynda að reyna að selja húsið eins og fasteignasalinn var með tillögu um. En nei, þau voru ekki til í að reyna það þó svo að ef til vill væru kaupendur að húsinu. Riftunarmálið var þingfest í Borgarnesi í gær. Mætt var fyrir Jóhönnu og verður hadlið uppi vörnum af lögmanni hennar, Marteini Mássyni, hdl. Lögmennirnir munu svo tala saman í framhaldi af þessu. Ég er farin að fá hálfgerðar martraðir eða í það minnsta leiðinlega drauma í sambandi við þetta mál allt saman.


Það var góð greinin hans Sigmundar Ernis úr Fréttablaðinu sem ber nafnið ÓFRIÐUR BERNSKUNNAR sem Helga bloggar um í dag, kíkið endilega á bloggið hennar.

Við erum alltaf að æfa línudansinn fyrir bikarkeppnina sem verður á sunnudaginn, við höfum auðvitað titil að verja þar!!!

Í dag 19. janúar hefði Atli Þór Helgason orðið 55 ára en hann dó fyrir 25 árum. Ég skoðaði líka húsið mitt sem ég keypti þennan dag fyrir ári síðan, mig minnir að það hafi verið á mánudegi, getur það verið? Ég er í frímínútum núna og ætla í kaffi, meira seinna.

14.1.05

Hei Mambó, Mambó Ítalíanó...

Nú er orðið tómlegt í kotinu, Helga, Nína, Óli, Hlynur og Þóra eru farin eftir jólafríið.
Jæja þá er enn eitt djammið framundan, ítalskt boð hjá Dómhildi á morgun. Undirbúningur er hafinn, við ætlum sem sagt að gera eitthvað skólasysturnar. Undirbúningurinn hófst reyndar þegar við Þórður skruppum í kvöldkaffi eða réttar sagt í rauðvín og osta á miðvikudagskvöldið í Mosfellsdalinn til heiðurshjónanna Gunnu og Vals stórfrænda míns. Þetta var skemmtilegur skreppitúr og Halla skellti sér líka í dalinn nærri því á náttkjólnum, úps.

Lífið gengur sinn vanagang, byrjað er að æfa fyrir bikarmótið í línudönsum. Ég æfi með hópnum sem varamanneskja, ekki veitir mér af hreyfingunni eftir jólasukkið. Það er óskastaðan að vera í klappliðinu.

Varðandi Reynigrundina, þá er staðan sú að að riftun á kaupsamningi verður tekin fyrir í Hérðasdómi Vesturlands núna 18. janúar, svo er líklega að ganga í uppgjörið sem vonandi verður hægt að gera með sátt og samkomulagi til þess að ég þurfi ekki að höfða annað mál. En hvað um það, það er alveg andstyggilegt að þurfa að standa í þessu. Ég fékk bréf frá sýslumanni um að byrjun uppboðs á eigninni verður 2. mars n.k. Ég er auðvitað skráður eigandi og þegar auglýsingin kemur í dagblöðum þann 23.febrúar, þá hefur fólk eitthvað meira að tala um í sambandi við þetta mál allt saman. Núna er til dæmis talað um að ég standi ekki í skilum vegna Jörundarholtsins sem er auðvitað tóm þvæla og vitleysa (það vita ekki allir um hitt þið vitið). Það er samt skiljanlegt að fólk leggi saman tvo og tvo og fái út fimm, þegar fréttst hefur um hvernig til tókst með söluna á Reynigrundinni.

En ég held nú samt mínu striki, er frísk, glöð og ánægð og er sæmilega bjartsýn á að þetta endi ekki með ósköpum, kanski tapa ég einhverjum peningum en hvað segir maður, win some, lose som. Lífið er lotterí og er Lífið ekki dásamlegt?

Ætla að skreppa til mömmu og klára svo að taka niður restina af jólaskrautinu, dúkum og smáhlutum sem gleymdust eða ekki.

7.1.05

Til hamingju með afmælið Atli minn

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli hann Atli Þór,
hann á afmæli í dag.

Hjartanlegar hamingjuóskir Atli minn, litla barnið mitt er 21 árs í dag, ég ætti auðvitað frekar að segja yngsta barnið mitt vegna þess að óhætt er að fullyrða að það er ekkert lítið eða smátt við hann Atla Þór.
Sumir, ég nefni þó engin nöfn, nefndu hann "hlunk" þegar hann kíkti á spilamennskuna í gærkvöldi, Atli steig að vísu óvenjuþungt á parkettið og þið vitið hvernig þetta er, þar sem timburgólf eru og þungt er stigið, þá gengur allt í byljum ekki satt?

Brennan var fín í gær, en mikið var okkur orðið kalt þegar við komum heim. Við Helga, Nína og Kim gengum saman frá Arnardal og gengið var þokkalega hratt, því það tók tæpar 10 mínútur að ganga að brennunni. Það var líka gaman að Dóra mágkona kíkti í gærkvöldi í smáspjall og ostanart.

Ég fylltist von þegar ég fékk tölvupóst frá Jóni Sveins í morgun og fyrirsögnin var "Greiðsla", en því miður var þetta ekki greiðsla til mín og ekki viðkomandi Reynigrundinni, heldur var þetta vegna Kirkjubrautarinnar og aðeins nokkrir þúsunkallar sem skiptast á milli barnanna Helgu, Óla og Þóru. En ljósi punkturinn er að krakkarnir fá þarna nokkrar krónur.

Best að fara að drífa sig í að taka niður jólaskrautið, eða í það minnsta, byrja á því.

6.1.05

Þrettándinn

Jæja í dag er síðasti dagur jóla og allir jólasveinarnir fara heim til sín í kvöld eða nótt. Dagurinn byrjaði alveg ljómandi og veðrið er eins og best verður á kosið. Ég stefni á að fara í blysförina og ganga frá Arnardal að brennunni sem verður á Jaðarsbökkum, þ.e.a.s. ef einhver nennir að ganga með mér. Mér heyrðist á Helgu í morgun að hún er alveg til í gönguna, Nína jafnvel líka og ef til vill fleiri.
Já þær mæðgur eru hér í stuttri heimsókn en það er dásamlegt að hafa þær og svo kom Hlynur líka þannig að börnin mín og barnabörnin eru öll hjá mér núna, gaman, gaman.
Nína var aðstoðarkennari hjá mér frá klukkan 8 - 9,20 og þetta gekk alveg eins og í lygasögu. Svo fór Nína út í frímínútur og hitti Kim og fleiri nemendur í 5. bekk, þ.e. 5. I.G.
Stelpur úr hinum 5. bekknum hittu Nínu á ganginum og buðu hana velkomna í skólann, héldu að hún væri nýr nemandi hér í Brekkubæjarskóla. Núna er Nína í tíma með Kim og hinum krökkunum og kemur ef til vill til mín klukkan 11.

Atli verður 21. árs á morgun og þá fara þau öll til Reykjavíkur, þar ætla þau að hitta Agga, fara með honum út að borða og ef til vill í keilu, góða skemmtun elskurnar.
Óli og Þóra eru líka að flytja aftur í stúdentagarðana á morgun, Hlynur fer heim til sín á morgun og Helga og Nína fara út til Þýskalands snemma á sunnudagsmorguninn. Þannig að eftir helgi verður tómlegt í Jörundarholtinu.

Það er búið a senda stefnuna vegna riftunar á kaupsamningnum vegna Reynigrundarinnar upp á Skaga og verður tekið fyrir í Héraðsdómi Vesturlands þann 18. janúar. Ég held að það þýði ekkert að lifa í voninni um að fólkið borgi úr því sem komið er, þau hafa ekki látið í sér heyra, þrátt fyrir loforð um að láta mig vita, ómerkilegt það. Ég skoðaði einmitt húsið mitt í Jörundarholtinu þann 19. janúar fyrir tæpu ári. Atli Þór heitinn var einmitt fæddur 19. jan. 1950.

Krakkar og Þórður, hvað segið þið um osta og rauðvín eða bjór í kvöld og spilamennsku?
Jæja nú er ég að fara að kenna aftur og da da radd-a da...
Lífið er dásamlegt!!

2.1.05

Gleðilegt ár

Gleðilegt ár og takk fyrir liðnu árin. Ég er alveg viss um að þetta verður gott ár, þrátt fyrir að þurfa að byrja á að vinna í riftunarmálinu vegna Reynigrundarinnar.
Við (krakkarnir og Hlynur)fórum fyrir miðnætti á gamlársdag ásamt mömmu til Valla og Dóru þar sem skotið var í gríð og erg, það var sko ekkert smáræði. Guðjón Engilberts og Dóra með s.... voru þar líka, það er alltaf gaman að hitta þau. Svo vorum við Þórður í partýi þar til klukkan 7 um morguninn, haldið að það sé nú úthald.

Árið byrjaði með þessu líka blíðskaparveðri í gær og ekki er það síðra í dag þrátt fyrir 6 stiga frost. Við Þórður fórum í göngutúr í gær sem entist okkur í tæpa fjóra tíma. Við komum við á nokkrum stöðum, fyrst hjá mömmu, svo foreldrum Þórðar þar sem við fengum kaffi og meððí, því næst á neðri hæðinni á Stekkjarholtinu þar sem við fengum bjór og spiluðum nokkur spil, svo smástopp á efri hæðinni áður en gengið var í Jörundarholtið með viðkomu í kirkjugarðinum þar sem við kveiktum á útikertunum á leiðunum.

Áramótaskaupið var það besta sem ég hef séð í mörg ár, enda Spaugstofusnillingarnir höfundar skaupsins.

Ég ætla að hætta núna, skella mér í sturtu svo ætlum við Þórður í sunnudagsbíltúr og kanski förum við í smágöngutúr á öðrum slóðum en venjulega. Planið er nefnilega að taka eitthvað af aukkílóunum af á árinu aðallega með því að borða aðeins minna og hreyfa sig örlítið meira.