Sigríður Kristín Óladóttir

22.3.07

Góður dagur í dag!!

Við erum komin hingað til Helgu og fjölskyldu í Coesfeld. Ferðin gekk mjög vel þrátt fyrir mígandi rigningu hér í Þýskalandi, en við vorum 10 tíma á leiðinni með góðum stoppum. Það versta er að ég fékk í bakið í gærmorgun í skólanum en vonandi lagast það.

Það var ótrúlegt að koma í morgunmatinn hér hjá Helgu í morgun, búið að legga á borðið í stofunni og skreyta það með blómum og kertum. Þar að auki voru þar hvorki meira né minna en 8 skreyttir og innpakkaðir afmælispakkar.
Takk fyrir mig, elsku börnin mín, tengdabörn og barnabörn. Þetta voru mjög flottir hanskar og trefill.
Nú er klukkan 13:00 og Helga var að koma með þessa líka svaka flottu tertu. Þórður tók mynd af henni, sem ég set hér á síðuna seinna.

Við hlökkum til að hitta Þóru sem kemur hingað seinna í dag.

Nú er ég búin að smakka tertuna og hún er ekkert nema nammi, nammi, namm.

19.3.07

Ættarmót í júlí!!!


Ég fékk e-mail frá Höllu og Pjétri í dag. Mér finnst þetta ótrúlega sérstakt af því að mig dreymdi Huldu fyrrverandi tengdamömmu fyrir nokkrum dögum, ég var einnmitt búin að segja Þórði drauminn. Ætli ég sé aftur orðin berdreymin eins og ég var hér áður fyrr?
Halla sagði m.a. :Niels Skjaldarson frændi okkar hringdi í mig og var að segja frá ættarmóti sem haldið verður á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal þann 7. júlí í sumar eða: 07.07.2007.
Pjétur sagði m.a.: Á Skjöldólfsstöðum er búið að bæta við sundlaug síðan síðasta ættarmót var haldið og ég held að þarna sé rekið sumarhótel svo þetta hlýtur að vera í góðu lagi þarna.
Krakkar mínir takið frá þessa helgi og skellið ykkur á ættarmótið ef þið hafið tækifæri til.

Svo er annað ættarmót 27. - 29. júlí á Staðarborg í Breiðdal. Þar verður móðurætt Þórðar saman komin og þannig hittist einmitt á, að við komum til landsins þann 26. júlí og ætlum að fara á ættarmótið áður en við ökum heim á Skagann.

Þið takið því frá júlímánuð, ef þið farið á bæði ættarmótin þá farið þið auðvitað norðurfyrir þegar þið farið í (á?) Jökuldalinn en að sunnanverðu þegar þið farið í Breiðdalinn.

14.3.07

Próf eins og hjá krökkunum.

Jæja þá er prófum lokið hjá mér í þessari lotu, þ.e.a.s ef ég hef náð. Ég verð að bíða þangað til á föstudaginn til að vita um árangurinn. Ég vona að ég hafi náð þessu prófi, en hvað um það ég gerði mitt besta.
Mér datt í hug þegar ég var að labba heim áðan, að þetta er eins og hjá krökkunum í grunnskólum heima. Þar eru samræmd próf í 4., 7., og 10. bekk. Í K.I.S.S eru stóru prófin þegar maður er á stigi 4, 7 og 10.
Við vorum að kaupa okkur 2 danska geisladiska, það verður gaman að hlusta á þá. Við fórum í 12 Tóna fyrir helgi og pöntuðum þá. Þórhallur sonur Jóns Run og Ingu er verslunarstjóri í búðinni.

Balthasar er kominn með 2 tennur og er farinn að skríða og standa upp eins og herforingi. Það má búast við kúlum og marblettum hjá þeim stutta núna og á næstunni.

Það er ennþá fínt veður úti, sól og 12 stiga hiti þessa stundina.
Bestu kveðjur héðan.

12.3.07

Er vorið komið?

Það er aldeilis frábært veður úti núna, sól og 17 stiga hiti. Ætli vorið sé komið hér í Kaupmannahöfn? Við vorum að kafna úr hita í skólanum í morgun af því að sólin skein beint inn um gluggann á stofunni sem ég var í.
Mamma kemur hingað með Valla og Dóru 12. - 16. apríl. Það verður mjög gaman að hitta þau hér í Kaupmannahöfn.
Það var frábært að hitta Óla frænda hér fyrir utan á laugardaginn, við vorum alveg sammála um það að Kaupmannahöfn er dásamleg borg.

Við ætlum að skreppa til Helgu og fjölskyldu um aðra helgi, þar hittum við m.a. Þóru þannig að það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

Nú ætlum við að drífa okkur út í góða veðrið, bestu kveðjur héðan.

5.3.07

Stríðsástand í Køben

Bara nokkur orð til að láta ykkur vita að það er allt í lagi með okkur hér í Kaupmannahöfn. Við höfum ekkert verið að blanda okkur í eða taka þátt í þessu stríði sem hér hefur ríkt. Núna er búið að handtaka yfir 600 manns og setja í fangelsi. Á meðal þeirra eru víst margir útlendingar, mest Þjóðverjar, Svíar og Norðmenn. Við búum á Austurbrú og erum því ekki þar sem mestu lætin hafa verið, sem er á og við Nørrebrogade og í Christianshavn. Okkur brá samt nokkuð á föstudagsmorguninn, þegar ég fór í skólann þegar við sáum verksummerkin við Nørrebrogade. Skólinn er við þá götu, en ekki sömu megin og Ungdómshúsið sem nú er verið að rífa. Það var einmitt verið að sýna frá því í sjónvarpinu núna og þar standa grátandi ungmenni og horfa á. Ég hef ekki samúð með þeim lengur það verð ég að segja.
Á föstudaginn þurfti ég að kafa í gegnum reyk því enn logaði bál á götunni, en gatan var lokuð fyrir umferð. Búið var að brjóta meira og minna allar rúður í bönkum og á fleiri stöðum og eyðileggja hjól og fleiri muni. Í morgun var búið að negla krossviðsplötur eða fleka fyrir glugga margra verslana, þetta var eins og að vera kominn inní glæpabíómynd svei mér þá. Átta löggubílar í einni halarófu keyrðu framhjá mér með vælandi sírenur rétt áður en ég kom í skólann, þetta er ótrúlegt.
Við þorðum ekki annað en hætta við að fara á tónleika í Copenhagen JazzHouse á laugardagskvöldið. Við förum bara seinna þangað.

Það var gaman að tala við Hlyn á afmælisdaginn hans. Þegar ég spurði hann hvort hann hafi farið með köku eða eitthvað í skólann sagði hann: Nei amma, ég hélt uppá afmælið mitt heima!!! Svo spurði ég hann hvort það hefðu margir komið í afmælið, þá sagði hann: Svona tæplega 8.... Góður!!

Þetta minnir mig óneitanlega á unga stúlku sem sagði við okkur um daginn þegar hún var að segja frá: Það er ekki hundur í hættunni!!!

Annars er allt gott að frétta af okkur, bara smábakvesen á mér. Ég held að það sé vegna þess að ég var svo stíf í hálkunni um daginn, var þá skíthrædd um að detta. Þetta hlýtur að lagast fljótlega.
Í gærmorgun var yndislegt veður, hitinn fór í 11 stig og sólin skein. Veðrið í dag er ekki eins gott, nú er rok og rigning.
Tíminn flýgur alveg áfram, þetta ár verður svo sannarlega liðið áður en maður veit af. Við biðjum að heilsa í bili.

1.3.07

Hlynur Björn 8 ára í dag!!!

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli i dag.
Hann á afmæli hann Hlynur,
hann á afmæli í dag.

Hlynur Björn Ólason er orðinn 8 ára, algjör töffari. Hjartanlegar hamingjuóskir elsku Hlynur Björn.

Amma Sigga og Þórður.
Posted by Picasa