Sigríður Kristín Óladóttir

25.2.07

Rigning og snjórinn að hverfa.

Það borgar sig að hreinsa myndir út af myndavélinni jafnóðum, en ekki geyma þetta svona lengi.

Ég ákvað samt að setja nokkrar myndir frá því í nóvember og desember á bloggsíðuna. Nú rignir úti og snjórinn hefur minnkað ansi mikið. Við höfum séð 2 bíla stórskemmast hérna hinu megin við járnbrautarteinana um helgina. Annar bíllinn lenti í árekstri við strætó en báðir bílarnir (ekki strætóinn) stórskemmdust og voru óökufærir á eftir. Ég þarf að setja myndir af matnum á Reef N´Beef hér við tækifæri, en þær eru á blogginu hans Óla.

Hitað upp með kertum og lært við kertaljós!


Posted by Picasa

Stuð á þjónum á Reef N´Beef og okkur auðvitað líka!


Posted by Picasa

Óli, Karen og Atli í Kaupmannahöfn


Posted by Picasa

Balthasar rétt fyrir svefninn


Posted by Picasa

Hér er fjölskyldan í Coesfeld


Posted by Picasa

Hjá Helgu og fjölskyldu um miðjan febrúar



Posted by Picasa

Prinsessur á gamlárskvöld

Posted by Picasa

Á jólunum


Posted by Picasa

Halla og Palli og Óli Hlöðvers




Posted by Picasa

Hlöbbi , Kristín og Kristine

Posted by Picasa

Myndir

Hér fyrir ofan eru myndir sem ég var að hreinsa út úr myndavélinni minni. Þetta eru myndir frá því í nóvember þegar Hlöbbi bróðir og Kristín voru hér. Halla og Palli voru hér líka í byrjun desember. Svo eru nokkrar myndir frá því um jól og áramót. Síðan eru myndir frá heimsókn okkar til Þýskalands í febrúar og þegar strákarnir mínir og Karen tengdadóttir voru hér í heimsókn.

23.2.07

Kalt úti, kalt inni og Óli Senior á afmæli í dag.

Já, það kom okkur sem sagt skemmtilega á óvart að lestin til Kaupmannahafnar var ekki farin. Hún beið eftir okkur, það er eins gott að lesa smá letrið á farseðlunum. Þar stóð nefnilega að maður á að láta vita ef seinkun er á lestum, þá munu starfsmenn reyna að láta aðrar lestar bíða eða ráðleggja fólki hvað best er að gera. Við vorum sem sagt ótrúlega heppin, eins og reyndar alltaf.
En hvað um það, við þutum inní lestina í klefa nr. 82 fundum sætin okkar sem voru nr. 35 og 36 og rákum unga konu úr sínu sæti. Hún var ekkert nema almennilegheitin og færði sig. Þórður setti töskurnar upp í hillu, en svo sagði hann (Þórður hinn sjóndapri). Úps Sigga, ég gerði vitleysu við eigum að vera í sætum nr. 66 og 67. Töskurnar voru því teknar niður og við fórum til baka að sætum 66 og 67, þar var önnur ung kona rekin úr sætinu sínu og töskur settar uppí hillu. Við hlömmum okkur niður og ég segi: Erum við örugglega í réttu sætunum Þórður minn? Hann lítur einu sinni enn á miðana og segir svo, æææiii.... við eigum að vera í sætum númer 35 og 36. Er nokkuð undarlegt að maður geti ruglast á þessu með 6 alveg nákvæmlega eins miða, nema hvað það stendur ekki alveg það sama á þeim!!
Við vorum samt mjög heppin vegna þess að við vorum í 1. farrýmis klefa, en áttum pantað á öðru farrými. Það voru hinar konurnar líka og voru þess vegna ekki hissa þótt við bæðum þær að víkja úr sætum. Þetta voru mistök hjá þeim sem seldi okkur miðana, en við vorum líka í vagni nr. 82 á leiðinni til Hamborgar, það var samt 2. klassi.

Við komum til Kaupmannahafnar um klukkan 22:30 og hringdum þá í Óla Örn. Kærustuparið var þá að fara að sofa eftir langan og erfiðan dag, þau vöknuðu nefnilega klukkan 03 um nóttina og fóru í flug um 07 um morguninn. Þau ætluðu því að gista hjá Lóu vinkonu Karenar og koma til okkar daginn eftir.
Við hringdum aftur á móti í Viðar Svavars sem hafði hringt í Þórð fyrr um daginn. Við fórum heim með töskurnar og svo hittum við þau á veitingarstað í Nýhöfninni. Viðar átti einmitt 50 ára afmæli þann 17. febrúar, en ekki fyrr en klukkan 12:00 að íslenskum tíma. Við fórum svo með þeim á Skippers krána og vorum þar með þeim ásamt Einari Skúla, Óla Palla, Hervari og Gumma manninum hennar Elvu. Andrea Jóns (á rás 2) var líka smástund með okkur svo og bræður Óla Palla. Þeir sögðu okkur að Atli væri líka í Kaupmannahöfn, en það átti að koma okkur á óvart. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Viðar fékk rós frá Einari vini sínum, sem hélt stutta afmælisræðu, sem hann mælti til Fjólu. Ræðan verður ekki skráð hér, en við munum hana samt líklega öll sem heyrðum hana! Við vorum svo með Viðari og Fjólu fram undir morgun, ég held satt að segja að við höfum aldrei vakað svona lengi hér í Kaupmannahöfn.
Fjóla og Viðar fundu líka fyrir því að gott er að lesa á staðfestingu pöntunar áður en lagt er af stað. Þau lentu í því að þegar þau lásu á E-miðum sínum daginn sem þau héldu að þau ættu pantað heim, sáu þau að þau áttu ekki flug heim fyrr en daginn eftir. Það var sem betur fer hægt að breyta því fyrir þau.

Óli og Karen komu svo til okkar rétt eftir hádegi á laugardeginum og áttum við saman góðan dag í rólegheitum heima. Svo fórum við á REEF N´BEEF og fengum þar dásamlega góðan og fallegan mat. Kíkið á bloggið hans Óla til að sjá myndir af réttunum. Atli borðaði auðvitað með okkur og einnig Svabbi og Þórey. Svo fór unga fólkið á tónleika með Wolfmother en við ellismellirnir heim.
Atli og Nóri vinur hans komu svo til okkar í lambalæri á sunnudeginum, en þeir áttu kvöldflug heim. Það var æðislega gaman að fá þau öll í heimsókn hingað, þetta var bara svo ferlega stutt stopp.

Við slepptum alveg að borða bollur á Bolludaginn og saltkjöt og baunir borðuðum við ekki heldur á Sprengidaginn. En við borðuðum aftur á móti saltfisk með hömsum á Sprengidaginn, nammi nammi namm.

Nú er ansi mikill snjór hér og skítkalt, bæði úti og inni. Við rétt náum 20° hér inni þegar best lætur. Þórði varð að orði í dag: Ég held að þeir kyndi hvorki undir né yfir okkur, skemmtilegt!! Nú kemur sér vel að eiga ullarsokka sem mamma prónaði og vera í síðum frá Þóru. Við kveikjum líka á ótlal kertum til að reyna að auka hitann.

Óli Örn Hlöðversson frændi minn á afmæli í dag. Hjartanlegar hamingjuóskir Óli minn.
Þetta er orðið allt of langt hjá mér og ég er ekki enn búin að setja inn myndirnar. Kanski geri ég það á morgun :)
Hafið það gott um helgina.

21.2.07

Vetrarfríi lokið og kominn vetur hér!!

Frábæru vetrarfríi er lokið og svei mér þá ef það er ekki kominn vetur hér. Í dag er ansi vetrarlegt úti, það hefur ekki verið svona slæmt veður frá því að við komum út. Það má eiginlega segja að úti sé blindbylur núna. Veðurfræðingarnir spáðu "snjóstormi" og 20 sentimetra snjó í gærkvöldi!!!
Við vorum mátuleg í því að senda skíðagallana okkar heim með Óla og Karen, erum við ekki stundum svolítið seinheppin ha ha ha?

Annars er allt gott að frétta af okkur. Ferðin til Helgu og fjölskyldu var alveg meiriháttar fín, við fengum frábærar móttökur eins og venjulega. Takk fyrir okkur kæra fjölskylda:)
Það var gaman að geta passað Balthasar svolítið og hjálpað pínulítið til við pökkun.

Við héldum að það væri mjög notalegt að fara með lest, engar áhyggjur af umferðinni og ekkert stress. Það er hægt að sita í rólegheitum og lesa og horfa á umhverfið, borða nestið sitt eða jafnvel leggja sig. Jú þetta er notalegur ferðamáti það er satt, en sei sei nei, þessu fylgir þó nokkuð stress. Í það minnsta ef ferðum er þannig háttað að hafa aðeins 12 mínútur í Hamborg til að skipta um lest og Óli og Karen komin til Kaupmannahafnar og Atli reyndar líka (sem við vissum reyndar ekki á þessum tíma) Lestin frá Munster var 6 mínútum á eftir áætlun þegar við lögðum af stað þaðan, eftir voru því bara 6 mín. Við höfðum ekki miklar áhyggjur af þessu í það minnst ekki til að byrja með. Við töldum að hægt væri að vinna þetta upp á rúmlega 3ja tíma ferð, þar sem aðeins var þrisvar stoppað á leiðinni. Ég sendi Helgu nokkur SMS, m.a. bað ég hana að gá hvort hægt væri að taka lest síðar um kvöldið frá Hamborg, ekki af því að við værum stressuð, nei nei, bara gaman að vita það!! Ég hringdi líka í hana, en nei engin viðbrögð. Ég sagði við Þórð það er örugglega eitthvert sambandsleysi hér þó svo að maður sjái það ekki á símanum. En ég skil nú ekki af hverju hún svaraði þessu ekki, hvernig stóð á því Helga mín?
Í Bremen þegar rúmur klukkutími var þar til lestin okkar átti að fara frá Hamborg, talaði ég við lestarstarfsmann og lét hann vita um áætlun okkar. Hann sagðist ætla að hringja og láta okkur svo vita ef hægt væri að láta lestina bíða. Við sáum hann ekki aftur, en lestin frá Munster kom til Hamborgar 5 mín eftir að lestin til Kaupmannahafnar átti að fara. Við ákváðum að hlaupa eins og skrattinn væri á hælunum á okkur á réttan brautarpall til að fullvissa okkur um að lestin væri farin. Ég læt ykkur vita um framhaldið á morgun!! Biðjum að heilsa núna.

12.2.07

Þýskalandsferð á morgun!

Á morgun förum við til Helgu og fjölskyldu, mikið hlakka ég til. Annars er allt gott að frétta af okkur. Við vorum bara í rólegheitum um helgina og það er aldeilis munur að þurfa ekkert að læra um helgi. Bogga hélt uppá afmælið sitt á laugardeginum og var mjög ánægð með daginn, því miður komumst við ekki. Það munaði litlu að við hefðum skellt okkur yfir helgina, en því miður gilti punktatilboð Icelandair aðeins ef flogið var frá Íslandi til Danmerkur, en ekki ef flogið var héðan og heim. Svona eru þeir þar á bæ!!

Ég heyrði aðeins í Valla bróður í vikunni og þau eru í lúxus og 30 stiga hita á Jamaika, gott hjá þeim að skella sér í þessa ferð og stytta aðeins veturinn. Mamma sagði mér í gær að Hlöbbi væri sá eini af okkur systkinunum sem væri á landinu, Maggi er á einhverri læknaráðstefnu í USA. Við biðjum bara að heilsa í bili. Hafið það sem allra best.

8.2.07

Til hamingju Bogga!

Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í dag.
Hún á afmæli hún Bogga,
hún á afmæli í dag.

Björg Loftsdóttir mamma Þórðar er 70 ára í dag, ótrúlegt en satt. Við sendum henni okkar bestu afmælisóskir héðan frá Kaupmannahöfn.

6.2.07

Kólnandi veður og fleira!

Nú á aðeins að kólna hjá okkur samkvæmt veðurspá síðustu daga. Ef til vill eigum við aðeins eftir að finna fyrir vetrinum hér, hver veit. Annars var enn eitt hitametið slegið í janúar hér í Danaveldi.
Námið í K.I.S.S. gengur bara vel og nú er það reyndar aðeins að breytast. En það er nú bara skemmtilegt að mínu mati. Í morgun var ég til dæmis að lesa um Christian IV og safna að mér upplýsingum um hann fyrir morgundaginn. Mér varð nefnilega óvart á að spyrja kennarann í gær hver þeirra Cristiananna hafi byggt Den Rundetaarn og fleiri frægar byggingar hér í Kaupmannahöfn. Hún bað okkur þá í "gríni auðvitað" að vera ekki með óþægilegar spurningar í tímum!! Í framhaldi af því bað hún mig að kanna málið og flytja smáfyrirlestur um Christian IV á morgun. Mér fannst mjög gaman að lesa um þennan fræga fjölhæfa kóng sem m.a. breytti Kaupmannahöfn í nútímaborg með fögrum byggingum og háum turnum (Børsen). Hann talað 5 tungumál og spilaði á fjölmörg hljóðfæri og átti 23 börn, geri aðrir betur!!!
Við erum líka að lesa smárit í skólanum sem heitir "Sider af dansk kultur" og fjallar um menningu Danmerkur eins og hún er í dag og rætur hennar til fortíðarinnar, gaman.

Á föstudaginn var, var mér nú hugsað til 2. febrúar fyrir átta árum. Þetta er greinilega ekki góður dagur í fjölskyldunni. En ég trúi því að meginlínur í lífinu séu fyrirfram ákveðnar. Ekki meira um það.

Helga og Nína voru með ælupest í gær, vonandi fara þær að hressast. En Helga sagði mér að þetta væri skæð pest sem er að ganga í Coesfeld þar sem þau búa. Já til hamingju með heimsmeistaratitilinn hjá Þjóðverjum Alex!!

Í næstu viku er vetrarfrí hér í Danmörku, þá ætlum við að skreppa til Helgu og fjölskyldu, það verður skemmtilegt. Svo koma Óli og Karen í stutta heimsókn aðra helgi, ekki er það nú leiðinlegt mundu jótarnir segja. Segjum svo að kona sem býr á Jótlandi leggi sig alla fram við að elda mjög góðan mat, skreyta borðið og er með kertaljós og vín. Hún sem sagt dekrar við manninn sinn á allan hátt. Maðurinn hennar hælir henni þá ef til vill fyrir frammistöðuna með því að segja "Ekki slæmt"!!