Sigríður Kristín Óladóttir

28.10.03

Þakka þér fyrir sendinguna Valli minn, þetta er svakalega flott dagatal hjá þér.

Á föstudaginn var haldin morgunstund í Brekkubæjarskóla. Þar komu um 440 nemendur, allt starfsfólk skólans auk foreldra og áttu saman notalega samverustund. Þema stundarinnar var “hjálpsemi”. Brekkubæjarskóli er lífsleikniskóli sem mótar stefnu sína “Góður –fróður” í anda manngildis og setur sér markmið um að iðka og gera sýnileg þau gildi sem unnið er með á hverri önn. Nemendur læra að festa þau gildi í athöfnum daglegs lífs. Í morgunstundinni á föstudaginn var ýmislegt til gamans gert. Nemendur lásu upp ljóð og fluttu pistla, sungu vinasöngva með látbragði og skemmtu sér hið besta. Einnig tóku þau við fjölda viðurkenninga sem veittar voru fyrir hjálpsemi og umgengni í skólanum.

Um kvöldið var svo kvöldstund hjá starfsfólkinu, hattapartýið. Það var svo sannarlega vel heppnað og allir skemmtu sér vel. Það var talað um að byrja snemma og hætta snemma. Þetta stóðst bara nokkuð vel, partýið byrjaði um kl. 20.00 og því lauk rúmlega 5.

Jæja Óli taka 2 í að linka í bloggið þitt. Ég er viss um að þetta klikkaði af því að ég fór í view source og afritaði úr blogginu þínu. Nú ætla ég að nota aðferðina sem Salvör kenndi okkur og da da ra... Rokkið Lifir
Ætla margir á tónleikana í Kaupmannahöfn?

23.10.03

Óli farinn að blogga. Hann kallar sig Rokkarinn ég varð aðeins að prófa þetta.

Það verður gaman að fylgjast með framvindunni. Hann þarf samt að stilla betur letrið hvernig var þetta aftur. Settings, encoding og velja íslensku, æi ég man það ekki alveg.

Annars allt gott að frétta og hattapartý hjá starfsfólki Brekkubæjarskóla á morgun, vonandi verður mikið fjör og mikið gaman.

20.10.03

Það er aldeilis búið að vera nóg að gera að sýna húsið um helgina. Vonandi fer eitthvað að gerast vegna þess að allt þetta fólk er búið að koma tvisvar.

Hlynur var sérlegur aðstoðarmaður minn í gærkvöldi og sagði m.a. frá músinni sem við veiddum í gildru í kjallaranum. Það hefur sem betur fer farið fram hjá honum að mýsnar voru tvær. Hann vorkenndi músinni, (en ekki ömmu sinni) og sagði að músin hefði verið svöng og það var svo mikið myrkur að músin hefði ekkert séð og hefði því labbað beina leið í gildruna.
Ég sem var búin að biðja Atla að fela músagildruna og ætlaði ekki að segja frá þessum auka íbúum.

17.10.03

Þetta gengur ekki lengur. Valli bróðir ætlar að taka mig út af favorites ef ég hætti alveg að blogga.

Alex til hamingju með vinnuna, þetta er alveg frábært (ég var nú samt farin að hlakka mikið til að fá ykkur heim). Helga nefndi að nú ættum við að panta okkur flug út um jólin, við sjáum til.

Það er svo sem alltaf nóg að gera í vinnunni, skólanum og áhugamálinu. Ég er afar ánægð með stöllurnar sem ég er með í hóp í Stafrænu gjánni hjá Salvöru og Ranns. nýsköpun og þróunarst. hjá Allyson, frábært.

Valli ég gleymdi að segja þér áðan að nú er ég kölluð frú Sigríður eða frú Sigríður Kristín í skólunum (Brekkubæjarsk. og KHÍ) af nemendum, jafnt ungum sem öldnum og samstarfsfólki , en auðvitað er ég alltaf Sigga systir þín.

Eveline til hamingju með afmælið.

Hér er stutt ritgerð eftir unga stúlku:
Blóð
Blóðið rennur úr nefinu og er rautt. Það er líka til blóð í þumalfingrinum og fleiri fingrum. Það sér maður þegar maður sker sig á beittum hníf. Það er líka blóð í hjartanu, þótt maður sjái það ekki.
Við notum blóðið í stríði, til þess að verja okkur með, og það er líka notað í slátur. Það eru til margar og mismunandi tegundir af blóði. Það er til dæmis talað um gæðablóð, letiblóð og blátt blóð. Mennirnir sem hafa mikið blóð eru kallaðir aðalsmenn og greifar, en í þeim er blóðið þykkt og blátt á litinn. Í gamla daga notuðu menn blóðið til að baða sig í, eins og við lærum í sögunni, til dæmis blóðbaðið í Stokkhólmi.
Blóð er einstaklega ógeðslegt. Það líður yfir fínar dömur þegar þær sjá það. En þeir sem þola að sjá blóð, eru kallaðir hetjur og ganga með orður í brjóstinu. Þeir eru bara með einn handlegg eða fót.
Maður notar líka blóðið þegar maður vill roðna.

Það kom fólk að skoða húsið seinnipartinn í dag, mér dettur nú alltaf í hug þegar einhver kemur að skoða að sumpart er ég fegin að húsið selst ekki því að, hvað á ég að gera við allt innbúið og draslið úr svona stóru húsi?