Sigríður Kristín Óladóttir

21.11.06

Eitt og annað!

Það er alltaf nóg að gera hjá okkur hér í Kaupmannahöfn og tíminn flýgur áfram. Það styttist í heimsókn Mæju og Kela, þau koma á fimmtudaginn. Það verður gaman að hitta þau. Svo kemur Hlöðver bróðir og Kristín þann 30.nóvember.

Við vorum að koma úr göngutúr, við gengum tvo hringi umhverfis Kastalann og vorum tæpan klukkutíma á göngu.

Við skelltum okkur á sunnudeginum fyrir rúmri viku í Púðurtunnuna (Krudttönden)og dönsuðum í 3 tíma, frá klukkan 15 - 18. Fyrst írska dansa (squeare dans) , oft með fjórum pörum og svo línudans. Þegar írsku dansarnir voru dansaðir spilaði 10 manna fiðlusveit þar sem ein spilaði á gítar, ein á flautu og einn á einhverskonar trommu og hinir á fiðlu. Þau sungu líka a.m.k. eitt lag. Þetta var mjög skemmtilegt og mér var bent á konu sem dansar línudans í klúbbi hér á Austurbrú. Ég fékk heimilisfangið hjá henni og upplýsingar um hópana. Við ákváðum að skella okkur seinasta miðvikudag og mættum rúmum hálftíma of snemma. Það var allt í lagi, við byrjuðum bara að dansa með hópnum sem var á undan og svo líka með byrjendunum sem við ætluðum að vera með. Við kunnum ekki dansana sem þau eru að dansa, en þetta kemur mjög fljótt hjá okkur. Byrjendahópurinn er nokkurs konar eldri borgara hópur, passar vel fyrir okkur!!!!
En þetta er mjög almennilegt fólk og gaman að spjalla við þau. Við ætlum að fara aftur á morgun, það verður gaman.

Það er nóg að gera í skólanum, en þetta er líka mjög skemmtilegt. Ég ætla að kíkja í afmælisveislu á föstudagskvöldið, það er ein í gamla bekknum (sem skiptist eiginlega í tvennt eftir síðasta námskeið) sem bauð okkur í afmælið sitt. Hún er frá Bólivíu og dansar með bólivíska balletdanshópnum hér í Kaupmannahöfn, kanski verður ballettdanssýning í afmælinu.
Við Þórður ætlum að kíkja í Fields á eftir, þangað höfum við aldrei komið áður. Ég var að velta fyrir mér hvort fyrsti sunnudagur í aðventu sé ekki fyrr en 3.des og fjórði þá þann 24. des, getur það verið?

Hér er um 7 stiga hiti og rigningarúði, en heima er allt á kafi í snjó og þar hefur verið mikið frost að undanförnu.
Ekki meira að sinni, biðjum að heilsa ykkur!!

16.11.06

Andabringurnar góðu!!

 
  Posted by Picasa

Mortens aften!

Ég ætlaði alltaf að segja ykkur aðeins frá Mortens aften eða Mortens degi. Helga er búin að segja aðeins frá venjum í Þýskalandi í sambandi við St. Martin. Hann hét sem sagt, Saint Martin frá Tours og fæddist í kringum 316. Helgidagurinn sem kenndur er við hann St. Martin er þann 11. nóvember. Þessi merki maður stofnaði fyrsta klaustrið í Frakklandi og er að ég held verndarengill Frakklands. Fólkinu þótti mjög vænt um hann m.a. af trúarlegum ástæðum og vildi gera hann að biskup. Hann var ekki parhrifinn af þessum áformum og faldi sig, hann vildi ekki verða biskup. Hann valdi nú ekki besta staðinn til þess að fela sig, því hann faldi sig í gæsastíu. Gæsirnar voru ekkert hrifnar af þessum óboðna gesti og upphófst þetta líka gasalega gæsagarg, eins og gæsum er einum lagið. Martin fannst því og var gerður að biskup, eiginlega þvert gegn vilja sínum. Þegar hann var orðinn biskup, ákvað hann að hefna sín á gæsunum og sagði að þann 11. nóvember ár hvert ættu allir að slátra gæs og borða hana með bestu list. Þetta skrifa ég alveg án ábyrgðar, ég las þetta einhvers staðar á Netinu :)
Nú er það svo að gæsir eru stórar og dýrar, þess vegna borða flestir hér í Danmörku endur á Mortens aften sem er 10. nóvember eða kvöldið áður.

Við Þórður elduðum andabringur á laugardeginum. Við fengum uppskriftina hans Magga bróður. Það er bara eitt orð yfir þessa máltíð, hún var aljört sælgæti. Sósan var guðdómlega góð og stóð alveg undir nafni sínu sem dulúðug appelsínu -og kanil sósa.
Andabringurnar voru bornar fram með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og sósunni góðu. Ég ætla að setja inn myndir sem Helga sagði mér að taka af bringunum góðu og ég gegndi því auðvitað eins og hlýðin móðir :)

Glæsileg eru þau.

 
Skreytingarnar voru flottar og graskerin voru í þúsundatali í. Posted by Picasa

Mamma og Þóra

  Posted by Picasa Hér eru þær á leiðinni í lestina þegar við fórum í Tívolí daginn sem þær fóru aftur heim eftir viku heimsókn.

13.11.06

Balthasar 4 mánaða í dag!Við óskum Balthasar og fjölskyldu til hamingju með daginn, prinsinn er 4 mánaða í dag.

8.11.06

Rok og rigning og fleira!

Það er bara eins og maður sé kominn heim, úti er rok og rigning þessa stundina, en það er nú í góðu lagi.
Við skemmtum okkur mjög vel á Snefestinni á föstudaginn. Það var alveg troðfullt á Langelienebroen, það var víst uppselt fyrir löngu. Maturinn var fínn og jólabjórinn sem við fengum klukkan 20:59, hann var sko mjög góður. Það var niðurtalning nokkrum sekúndum áður en klukkan varð á slaginu 20:59, 10,9,8,.....o.s.frv. bara eins og á gamlárskvöld víða úti í heimi.
Þau eru svo almennileg þarna á veitingarstaðnum, að eftir matinn fengum við pakka á borðið sem við drógum úr körfu sem ein þjónustustúlkan kom með. Þetta var Tuborgjólakúrekahattur, voða flottur. Það var einn pakki á hvert borð á staðnum. Ég fékk heila möndlu úr ris a´lamanda eftirréttinum, ótrúlega heppin!! Möndluna geymdi ég auðvitað eins og fjársjóð. Svo sýndi ég eigandanum möndluna og ætlaði að innheimta möndlugjöfina! En hvað haldið þið að hann hafi sagt, jú hann sagði: Fékkstu tvær möndlur? Nei, sagði ég sannleikanum samkvæmt. Þá útskýrði hann fyrir mér að pakkinn sem við fengum var möndlugjöfin okkar(ein mandla á borð, einn pakki á borð).
Alltaf svolítið seinheppin!! Hljómsveitina skipuðu ein kona og einn karl sem bæði sungu og spiluðu á gítara. Mér blöskraði þó svolítið þegar þau fóru að syngja jólalög og jólasálma og spurðist fyrir um þetta. Þá var okkur sagt að þetta væri eitt af því sem fylgdi á þessu skemmtilega kvöldi. Seinna um kvöldið kom jólatuborgflutningabíll og inn streymdi fólk í jólatubogbúningum sem gaf öllum jólabjór og svo var jólatuborglagið sungið og dansaður var sérstakur jólatuborgbjórdans, gaman að þessu. Þetta var sem sagt mjög skemmtilegt kvöld.

Mér datt í hug þegar ég var að skrifa um stígvélin um daginn, hvort það geti verið að fólk noti gúmmístígvél svona mikið hérna, út af hundaskítnum sem er út um allt. Það er gott að þrífa hann af stígvélunum, ekki satt!! Nei, í alvöru, maður horfir alltaf niður fyrir sig þegar maður er úti að labba, til að stíga ekki í þennan ósóma. Mér finnst að stöðumælaverðirnir ættu að hvíla sig á því að sekta saklaust fólk eins og okkur og Alex og fylgjast frekar með hundaeigendum og sekta þá um 510 kr. ef fólk þrífur skítinn ekki upp eftir hundinn sinn. Góður punktur??
Já það er ótrúlega mikið um hunda hérna, ég held svei mér þá að ég sé eiginlega hætt að vera hrædd við þá, annars væri ég alltaf á flótta!!
Ekki meira núna, bestu kveðjur til ykkar.

3.11.06

SNEFEST!!

Já nú erum við að fara að taka okkur til, því við ætlum að fara á Langelinienbroen hérna á horninu, í Snefest. Sumir halda ef til vill að Snefest sé til að fagna fyrsta snjónum sem féll hér til jarðar þann 1. nóvember, en svo er alls ekki.
Nei, Snefest er sko til að halda uppá að fyrsta jólabruggið verður selt á veitingastöðum og krám. Það er svo skemmtilegt, að fyrsti jólabjórinn verður veittur í kvöld, klukkan á slaginu 20:59, hugsið ykkur þetta!! Alls staðar er sama tímasetningin, við sáum það þegar við kíktum aðeins niður í bæ í gærkvöldi. Við förum líka í mat, á boðstólum verður: Steikt flesk að hætti hússins með steinseljusósu og ris a'lamande í eftirrétt. Það verður líka lifandi tónlist, við erum spennt að sjá hvernig tónlist það verður. Þetta verður örugglega gaman og það besta er að við erum bara 3-4 mínútur að labba þangað. Langeliniebroen er hefðbundinn danskur frokost veitingarstaður sem heldur í gamlar danskar hefðir, spennandi ekki satt?

Já við kíktum aðeins í bæinn í gærkvöldi, í sakleysi okkar héldum við að við gætum farið á Ráðhústorgið og séð herlegheitin, vegna MTV Music Award sem fór fram þar og í Bella Center. Þar var Justin Timberlake kynnir. En nei, Ráðhústorgið var rammlega girt af, mér skilst að fólk hafi þurft að fara í hæfnispróf til að fá miða. Hvað kostuðu svo miðarnir? Jú, miðaverðið inn á torgið var víst gott öskur eða p...skrækir!! Við Þórður hefðum örugglega ekki verðið hæf. Við kíktum því stutta stund inná Old English og horfðum á MTV í sjónvarpinu þar áður en við fórum heim. Meira seinna, bestu kveðjur frá okkur. Góða helgi!!

1.11.06

Nóvember, nóvember, nóvember!!

Þetta sagði kennarinn sem ég er með í KISS þegar farið var yfir mánuðina um daginn, allir mánuðirnir voru nefndir einu sinni en svo kom nóvember, nóvember, nóvember. Hann sagði að þetta væri oftast kaldasti og lengsti mánuðurinn hér. Það er svo sannarleg óhætt að segja að þessi fyrsti dagur mánaðarins hafi verið frekar kaldur, slydda í morgun þegar ég var á leiðinni í skólann, og afar fíngert haglél á leiðinni heim eftir hádegi. Hitastigið er 1°, svo best er að klæða sig vel.

Annars er allt gott að frétta af okkur. Á sunnudaginn fórum við í göngutúr sem endaði á því að við fórum í Kastalann á afmælishátið sem haldin var þann dag. Við hlustuðum m.a. á ansi skemmtilega lúðrasveit, þar var stjórnandinn ung stúlka sem minnti mig á Heiðrúnu í útliti og töktum. Við fórum í Jónshús í messukaffi á eftir og fengum okkur vöfflu með rjóma og kaffisopa. Það var gaman af því að í morgun þegar snjóaði aðeins, sagði einn nemandinn í bekknum: Er ekki einhver með myndavél? Hún sagði okkur að þetta væri í fyrsta skipti sem hún sér snjó. Hún er frá Taivan, er gift dana en flutti hingað á þessu ári. Við erum 15 í bekknum frá 14 löndum, skemmtilegt!! Við erum tvær íslenskar og báðar heitum við Sigga. Við vorum þrjár íslenskar i fyrsta bekknum sem ég var í, þ.e.a.s. Sigríður, Kristín og ég Sigríður Kristín.

Það er gaman að sjá hve margir og sérstaklega hve margar konur ganga í gúmmístígvélum hér, ég held nærri því að þetta sé í tísku því að það þarf ekki endilega að vera rigning eða bleyta til að sjá þennan algenga skófatnað. Mér finnst orðið svo óalgengt að sjá nokkurn í gúmmístígvélum heima, það eru helst börn sem fá ekki að velja sér skófatnaðinn.
Við erum alveg að klikka á afmælisdögum núna. Við sendum síðbúnar afmæliskveðjur til Dóru mágkonu sem átti afmæli þann 27.okt og Antons frænda Þórðar sem átti afmæli 25. okt. Hjartanlegar hamingjuóskir Dóra og Anton og til hamingju með bílprófið Anton.

En nú var að byrja fótboltaleikur í sjónvarpinu sem ég ætla að kíkja á. Þetta er auðvitað FC Köbenhavn og Manchester United. Bið að heilsa í bili.