Sigríður Kristín Óladóttir

29.11.05

Flugleiðir með dagprísa?

Ég ætla að segja ykkur frá pirringi mínum þegar ég keypti miðana fyrir Helgu og Nínu. Þannig var, að ég hringdi í fjarsölu Flugleiða mánudaginn 21. nóv., þá var ég stödd hjá mömmu rétt fyrir kl. 17:00. Ég gáði að símanúmerinu í símaskránni og sá að skv. upplýsingum þar á að vera opið virka daga frá kl. 10:00 – 18:00. Ég sem sagt panta fyrir þær mæðgur á þeirra nöfunum og kennitölu Helgu, en tók fram að ég ætlaði að tala við þær áður en ég borgaði fargjöldin og ætlaði svo að hafa samband daginn eftir. Verðið var rúmar 67 þúsundir, stúlkan sem afgreiddi mig var mjög almennileg og heitir Kristín. Daginn eftir (á þriðjudegi) kom ég ekki heim fyrr en rétt rúmlega 17 og þá hringi ég til að staðfesta og greiða fargjöldin. En viti menn, þá er búið að loka og símsvari segir mér að aðeins sé opið til 17, ég hringi á aðalskrifstofuna, en nei, þar er sama sagan, bara opið til 18:00. Ég næ því ekki í fjarsöluna fyrr en á miðvikudegi. Þegar ég gaf upp bókunarnúmerið segir stúlkan sem afgreiddi mig: Ég skil nú ekki alveg allt í bókuninni, má ekki Kristín sem afgreiddi þig hringja í þig eftir smástund? Ég játa því og Kristín hringir eftir smátíma, við göngum frá þessu (ég gef bara upp kortanúmerið mitt) og ég þakka fyrir. Eftir 1 mínútu eða svo hringir hún aftur og segir mér að verðið sem ég fékk uppgefið á mánudeginum gilti ekki lengur og verðið var komið upp í rúmlega 74 þúsund, það hafði þá hækkað um 7.500 krónur. Hún sagði að aðeins hafi verið sólarhrings trygging á þessu verði. Ég varð alveg öskureið, en ekki kom til greina að hætta við að kaupa farseðlana ég ákvað samt að rífast ekki við Kristínu.
Finnst ykkur þetta í lagi?
Mér datt helst í hug að fara með þetta í blöðin, en ætla að tala við einhvern af toppunum áður.
Nú er ég búin að fá fína manneskju til að kvarta og það er hún mamma. Nú er hún búin að reyna að ná í Guðjón Arngrímsson en það hefur ekki teksist ennþá þrátt fyrir yfirlegu og margar tilraunir í marga daga. Í gær náði hún í aðstoðarmannesku hans að ég held, stúlku sem heitir Áslaug.
Mamma buffaði hana eitthvað, úps... og Áslaug ætlar að hringja í mömmu í dag eftir að hafa athugað málið. Ég bíð spennt.
Farið ekki langt.... því næst ætla ég að segja ykkur frá Reykjvíkurferðinni um helgina.

22.11.05

Heimsókn 1. janúar

Gleðifréttir dagsins erruuuuu dadda, radda da......að

Helga og Nína ætla að koma í viku heimsókn snemma á næsta ári þ.e.a.s. frá 1. janúar - 8. janúar 2006. Alex verður í Brussel fyrstu 10 dagana árið 2006, þannig að þær mæðgur skella sér hingað í staðinn.Leikritið, Ég er mín eigin kona, Ich bin mein eigen Frau (obb obb bobb!!! )var afar skemmtilegt og leikurinn hjá Hilmi Snæ alveg meiriháttar. Það er ótrúlegt að klikka aldrei, en vera samt einn á sviðinu í rétt tæpa 3 klukkutíma talandi íslensku með þýskum hreim, þýsku og aðeins dönsku.

18.11.05

Leikhúsferðir

Lífið gengur sinn vanagang og það er svo sannarlega alltaf nóg að gera. Það afsakar ekki hversu léleg ég er að blogga, ég ætti ef til vill að stefna á að skrifa nokkrar línur einu sinni í mánuði, væri það ekki fínt?

Við Þórður sáum leikritið eða réttar sagt óperettuna "Gest" síðasta föstudagskvöld. Það var ein sýnig á Skaganum í tilefni Vökudaga. Þessi óperetta er eftir Skagamennina Gaut Gunnlaugsson og Gunnar Kristmannsson sem eru fæddir 1970. Við skemmtum okkur konunglega, verst var þó hvað var fátt í Bíóhöllinni.

Skólaysturnar komu svo til mín á laugardaginn og gaf ég þeim m.a. lax sem Valli veiddi, flakaði og gaf mér, mjög þægilegt!!. Auk þess var uppskriftin frá þeim heiðurshjónum Valla og Dóru og þótti hún mjög góð, stelpurnar voru sem sagt mjög hrifnar. Hanna hetjan okkar kom líka á Skagann og það var gaman að sjá hve dugleg hún er að ganga, þrátt fyrir sársauka þar sem enn grefur í stúfunum og auk þess finnur hún mikið til í beinunum og á eftir að gera það í a.m.k. ár í viðbót.

Í kvöld förum við svo á leikritið Ég er mín eigin kona sem sýnt er í Iðnó. Við förum með starfsfólki úr Brekkubæjarskóla, það fara reyndar ekki mjög margir. Á dagskrá er að borða léttan kvöldverð á Hressó fyrir leikritið og fara svo á pöbbarölt á eftir.

Um næstu helgi förum við svo á Kabarett með Valla og Dóru þannig að leikhúslífið er í góðum gír þessar vikurnar.

9.11.05

Prufa

Ætli þetta gangi hjá mér núna? Frábærri ferð til Þýskalands lokið og hversdagsleikinn tekinn við. Það er samt svo undarlegt hvað þessir dagar sem voru meira líkir sumardögum vegna hita og veðurs stytta veturinn.