Sigríður Kristín Óladóttir

26.1.04

Staðbundna lotan í Margmiðlun til náms og kennslu byrjaði í dag og það var mjög gaman. Við prófuðum aðeins verkfærin sem við eigum að vinna með í þessum áfanga svo sem Cool Edit sem er hljóðvinnsluforrit og Movie Maker. Við Jóhanna skemmtum okkur vel við hljóðblöndun og klippingar þrátt fyrir að vita ekki alltaf hvað við vorum að gera. Við eigum líka að nota Flash svo eitthvað sé nefnt.
Ég notaði USB dótið sem ég keypti mér úti og setti stuttmyndina okkar Jóhönnu þar, kanski klára ég hana seinna hér heima.

Ég fór til Þóru í hádegismat, það er aldeilis frábært að geta farið til barnanna í mat, takk fyrir mig Þóra.

Ég er ekki enn búin að fá svar varðandi húsakaupin og því miður verð ég að segja að vonir mínar um að fá húsið minnka eftir því sem lengra líður. Ég fæ svar á morgun og nú eru líkurnar bara 50 50, það hefur ekki gengið hjá eigendum að kaupa það sem þau hafa boðið í.

Ég fór beint á dansæfingu þegar ég kom heim úr skólanum í dag, við æfum og æfum fyrir bikarkeppnina sem er 8. febrúar.

Við Atli byrjuðum aðeins að pakka í gær, en ég hef verið að bíða eftir svari til þess að átta mig á hvernig ég þarf að pakka.

25.1.04

Ég skammast mín alveg ferlega fyrir lélega frammistöðu í blogginu. Óli og Helga og Alex eru alltaf að blogga og hafa linkað á mitt blogg, en þar gerist ekkert. "The Maza" klárar ekki einu sinni að skrifa um ævintýraaksturinn í Englandi. Óli, Þóra og Hlynur voru í mat hjá mér í dag en eru á leiðinni í bæinn þegar þessar línur eru ritaðar. Hlynur fór reyndar í sveitina í afmæli hjá frænku sinni.

Núna er leikurinn sem "Strákarnir okkar" verða að vinna til þess að komast í milliriðil. Ég verða að horfa á hann.

7.1.04

Atli Þór 20 ára.

Til hamingju með afmælið Atli minn. Yngsta barnið mitt orðið 20 ára, þetta er ótrúlegt.
Ég svaf bara í allt gærkvöld, fór ekki einu sinni að dansa og kláraði ekki að skrifa um Englandsrallýið. Ég ætla heldur ekki að skrifa það í kvöld en stefni á að gera það á morgun.

5.1.04

Gleðilegt ár.

Jæja þá er skemmtilegu jólafríi lokið og allir komnir heim heilir á húfi. Mér fannst mjög skemmtilegt að prófa að vera í Þýskalandi um jól og áramót og láta dekra við mig, takk fyrir mig og okkur Helga, Alex og Nína þetta var frábært.

Skólinn byrjaði í dag hjá okkur með skipulagsdegi. En ég ætla að skrá hér 2. jan. daginn sem við fórum heim.

Það verður að segjast að heimferðin var nokkuð skrautleg svo ekki sé meira sagt. Ég skil ekkert í mér að hafa gert þetta.
Við vöknuðum snemma eða kl. tæplega 4 um nóttina (3 að íslenskum tíma). Ég skellti mér í sturtu og fékk svo morgunverð hjá Helgu sem fór líka á fætur til að útbúa morgunverðinn.
Kl. 5 lögðum við af stað til Paderborn, Alex tengdasonur keyrði okkur þangað. Flugið frá Þýskalandi til London var kl 7.05. Það var reyndar smá seinkun þannig að við lentum 7.45 í London (græddum 1 klukkustund vegna tímamismunar)
Þegar þangað var komið fórum við að athuga hvað við áttum að gera, það kom eiginlega ekki til greina að bíða á Stansted til klukkan 19.50. Það kom til greina að fara til London með express lestinni eða taka bílaleigubíl og keyra til Oxford og fara til Witney í leiðinni. Við ákváðum sem sagt að taka bílaleigubílinn og hver haldið þið að hafi keyrt? Jú ég var sú sem var með ökuskírteini og gerðist bílstjóri og keyrði með stæl.
Það kom fljótlega í ljós að ég hefði þurft að fara í einhverja smá þjálfun áður en lagt var í´ann, en það var enginn tími til þess. Krakkar er ég hógvær þegar ég segi smáþjálfun??
Það vill til að ég lærði að keyra bíl í vinstri umferð, þó tók ég bílprófið eftir H- daginn sem var annað hvort í apríl eða maí 1968.
Það var ekki það versta að aka vinstra megin, heldur hitt að átta sig á fjarlægðum þar sem ökumaðurinn varð að sitja vitlausu megin í þokkabót. Djísús og svo varð ég að skipta um gír með vinstri hönd. Mér fannst líka gírarnir eitthvað svo asnalegir, bakkið við hliðina á 1. gír og eiginlega alveg eins nema aðeins öðruvísi!!

Ég var þó heppin að hafa Þóru og Atla sem klikkuðu ekki sem aftursætis-bílstjórar. Mamma skipta, mamma passaðu þig á bílunum vinstra megin, mamma skipta, mamma kanturinn, þetta hljómaði með stuttu og reglulegu bili!!!!
The "maza" eins og þau kölluðu mig stundum þurfti að útskýra fyrir þeim að maður getur ekki bæði keyrt í hringtorgum, stýrt og skipt um gír á sama tíma. Okkur gékk svo sem bara mjög vel til Oxford, Þóra var með kortið sem var ljósritað blað sem við fengum þar sem við leigðum bílinn. Við fórum á hraðbrautunum og vorum oftast á 65 - 85 mílna hraða. Ég ætla að hætta núna, en held áfram með þetta á morgun, en þá byrjar líka námið á netinu "Margmiðlun til náms og kennslu 2004"