Sigríður Kristín Óladóttir

27.12.03

Timinn líður ótrúlega hratt hér í Þýskalandi. Óli fór heim í gær og er örugglega búinn að sækja Hlyn núna, bestu kveðjur til ykkar strákar mínir.

Við fórum í bæinn í dag og fórum bæði í Karstadt og Real. Veðrið var mjög gott en það rigndi í morgun. Það var reyndar áður en við lögðum af stað svo það gerði lítið til.

Svo fórum við á skemmtilegt kaffihús og fengum okkur tertu og kaffi, súkkulaði og gos. Það er lítið eftir af púsluspilinu, ég giska á rúmlega 100 stykki. Ætli það klárist í kvöld?

25.12.03

Ég sendi ykkur öllum bestu óskir um Gleðileg jól héðan frá Þýskalandi.

Við höfum haft það mjög gott hér í Detmold hjá Helgu og fjölskyldu. Veðrið er afskaplega milt og fallegt en frekar kalt, það er samt ekki nema um það bil - 5°C.

Við fórum til Berlínar þann 22. des og gistum þar á fínu hóteli sem heitir Hotel Agon og er við Alexanderplatz. Við tókum lest héðan frá Detmold til Bielefeld og svo hraðlestina þaðan til Berlínar. Það er nú meiri lúxusinn að vera í hraðlestunum, maður finnur ekki fyrir því að vera á 250 km hraða.

Það var óneitanlega dálítið undarlegt að verja Þorláksmessu í skoðunarferð um Berlín og skoða jólamarkaðina og smakka á ýmsu sem þar var til sölu. Mér fannst jólaglöggin mjög góð og gott var að ylja sér á þeim góða drykk í kuldanum. Berlínarferðin var sem sagt mjög vel heppnuð að mínu mati en ég er ekki viss um að allir fjölslyldumeðlimir hafi verið sammála því.

Við ákváðum að vera ekki að gefa miklar gjafir þetta árið og höfðum það þannig að við settum nöfin okkar í pott, drógum svo öll eitt nafn úr pottinum og áttum þá að kaupa gjöf fyrir þann fjölskyldumeðlim. Enginn mátti vita hvaða nafn við drógum, en við keyptum jólagjafirnar hér í Detmold á aðfangadagsmorgun. Það hittist þannig á að enginn dró sitt nafn og það fannst mér vera undarleg tilviljun.

Nína er búin að læra ýmsa takta af Óla og er orðin hálfgerður skemmtikraftur.

Núna ætlum við að fara út í göngutúr, ekki veitir af að hreyfa sig aðeins þegar maður gerir ekkert nema belgja sig út af allskonar góðgæti.