Sigríður Kristín Óladóttir

2.5.04

Takk fyrir að setja inn myndirnar Óli minn. Mér finnst eins og nokkrar séu svolítið hreyfðar, en það er allt í lagi. Við lentum í 6. sæti á Íslandsmótinu og við höldum að það sé vegna þess að "pilsin" voru svo sexý. Sumir voru líka ferlega stressaðir og rugluðust aðeins, ég nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er frú Sigríður Kristín.

En árangur Skagahópanna var alveg frábær, Silfurperlurnar urðu Íslandsmeistarar í unglingaflokki, Silfurskotturnar náðu 3ja sætinu og Silfurstjörnurnar lentu í 5. sæti. Til hamingju með glæsilegan árangur. Hóparnir héðan eru allir í Ungmennafélaginu Skipaskagi, þeir eru allir nýkomnir í það félag, en vorum áður skráð í Kópavogi.

Þetta var mjög skemmtilegur dagur, við fórum á Caffedesso í Smáralind eftir keppnina, síðan í íbúðina hennar Söndru til að skipta um föt og skála og svo út að borða þorsk og lambakjöt á Kaffi Reykjavík. Þjónninn seldi okkur þorskinn sem steinbít, en honum varð ekki kápan úr því roðinu, við þekkjum auðvitað muninn á þessum fiskitegundum. Við vorum um 50 sem fórum út saman og Óli Geir sá um að allir skemmtu sér vel. Svo dönsuðum við til kl. 2 í nótt í Kópavoginum.

Gullkorn dagsins var: Hvað erum við að gera hér?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home