Sigríður Kristín Óladóttir

22.12.04

Frómas og fiskur

Mér datt í hug þegar ég var í sturtunni í morgun og það er alveg öruggt að ég var fiskur í fyrra lífi. Af hverju? Jú mér finnst ég alltaf vera komin heim þegar ég fer ofan í heita pottinn.

Ég reyndi að setja kleinuuppskriftina mína á heimasíðuna hjá Alex í morgun, en eitthvað hefur þetta klikkað hjá mér. Alex þarft þú að samþykkja aðgerðina?

Ég set hér uppskriftina mína af sherrýfrómasnum sem ég geri alltaf á aðfangadagsmorgun. Einnig set ég uppskriftina af ávaxtafrómasnum sem mamma mín gerir alltaf um jólin. Uppskriftin hennar er tekin orðrétt úr Matreiðslubók Jónínu Sigurðardóttur sem gefin var út árið 1945. Skemmtileg aðferðarlýsingin eins og eggin eru slegin sundur í miðjunni, að hræra saman með hægð o.fl.

Sherryfrómas

9 blöð matarlím
4 egg
200 g sykur (2 dl)
6 dl rjómi rjómi
2 dl sherry
125 g suðusúkkulaði eða annað gott súkkulaði
----

Aðferð:

1. Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn.
2. Þeytið rjómann og skerið súkkulaðið.
3. Þeytið egg og sykur í ljósa þykka froðu.
4. Setjið sherrý og súkkulaði saman við eggjahræruna og hrærið með perulaga þeytara (pískara). Athugið að nauðsynlegt er að smakka sherryið áður en það er sett út í og á meðan á gerð frómasins stendur.
5. Kreistið mesta vatnið úr matarlíminu og bræðið það.
6. Hellið matarlíminu í hárri bunu út í hræruna og hrærið í á meðan. Athugið að matarlímið má hvorki vera of heitt né kalt. Það á að vera volgt þannig að ef fingri er dýft í það, rétt drýpur dropinn.
7. Blandið þeyttum rjómanum saman við.
8. Setjið frómasinn í kristalsskálar eða aðrar fallegar skálar.


Granaldinbúðingur

250 g egg
12 blöð matarlím
250 g sykur
125 g vatn
25 g gulaldin
500 g rjómi
500 g granaldin
----

Aðferð:

Eggin eru slegin sundur í miðjunni og hvíturnar skildar frá rauðunum. Rauðurnar eru hrærðar með sykrinum, þar til þær eru orðnar að þéttri froðu; eru þá granaldinsafinn og gulaldinsafinn látnir í, ásamt matarlíminu, sem fyrst er leyst sundur í heitu vatni og látið kólna. Þegar búið er að hræra þetta vel saman, eru eggjahvíturnar og nokkuð af rjómanum, sem hvort tveggja er stífþeytt sitt í hvoru lagi, og granaldinbitarnir látnir saman við. Ef granaldinin eru í stórum bitum, er betra að skera hvern bita í 4 minni. Nokkra bita má skilja eftir til að láta ofan á.
Þetta þarf að hræra saman með hægð, þar til bætingurinn byrjar að hlaupa saman, sem er mjög fljótt. Er honum þá hellt í glerskálar, og þegar hann er orðinn vel stífur, er hann skreyttur með ofurlitlu af þeyttum rjóma og granaldinbitunum. Borðaður sem síðasti réttur til miðdegisverðar eða aukamáltíðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home