Sigríður Kristín Óladóttir

21.10.04

Kröfugangan

Jæja þá er rúmur einn mánuðuður liðinn síðan verkfallið hóst. Ég fór auðvitað til R.víkur í gær og tók þátt í kröfugöngunni. Það var frábært að sjá hvað það voru margir sem tóku þátt í henni, talað er að um 3 þúsund hafi gengið og það voru mest allt kennarar. Samstaðan er sem sagt mjög góð. Ég lagði bílnum við Listasafn Íslands og tók svo strætó upp á Hlemm. Sem betur fer var ég búin að kynna mér verðið í strætó til þess að lenda ekki í því sama og Helga sem átti bara 500 króna seðil!!! Þið vissuð hvernig það fór, en ég hefði auðvitað átt að nota sömu aðferð, verandi í verkfalli.
Gangan var byrjuð þegar ég kom á Hlemm, þ.e.a.s. flestir voru lagðir af stað. Ég gekk bara hratt og skeiðaði fram úr fleiri þúsund manns, ég ætlaði nefnilega að ná Skagaliðinu sem fór í rútu. Ég náði þeim auðveldlega og sagði við Magga Ben sem hélt á kröfuspjaldi: hvað stendur á þér? Ingi Steinar skellihló og var fljótur að segja Sigga mín, maður spyr karlmenn ekki þessarar spurningar. Við Maggi föttuðum ekkert, en þetta var lagt inn sem hugmynd í vísnabanka Inga Steinars.
Ræðurnar voru fínar sem fluttar voru og "Drengjakórinn" (flestir gráhærðir)úr Langholtsskóla sungu Stuðmannalagið Ísl. karlmenn með breyttum texta. Ísl. kennarar o.s.frv. í viðlaginu tóku allir undir og sungu m.a.
Stöndum þétt saman, snúum bökum saman.
Sumir á, sumir á, sumir á hausnum
aðrir á, aðrir á, aðrir á bótum.

Eftir fundinn hittumst við skólasystur í Perlunni og fengum okkur smárétti og kaffi. Við skipulögðum vetrarhitting og ákveðið var að Hanna ætlar að vera með föndurhitting 19.nóv. ef Halla föndurkona er til þá. Gussa í desember, Dómhildur í janúar, Sigrún í febrúar og Gunna í mars.

Ég heimsótti mömmu á Reykjalund og gengur mjög vel hjá henni, nema hún er óánægð með að þurfa að sofa með súrefni. Hún segist sofa ver ef hún er með það og strækar eiginlega á að nota það á nóttunni. Hún er búin að fara í lungnamyndatökuna á Landspítalanum, en vissi ekki hvað kom út úr því.
Við fórum niður í setustofu í kaffi og settist Hörður bakari hjá okkur. Hann sagði að ég væri eins og raketta þegar við mætumst í göngu í skógræktinni. Þetta segir okkur bara hvað sumir ganga hægt. Við fórum svo að rökræða um verkfallið, sem honum fannst alveg fyrir neðan allar hellur. Hann er auðvitað harður sjálfstæðismaður og reyndi að segja mér að dóttir hans sem er útskrifuð frá Bifröst sé með 115 þús fyrir fullt starf í utanríkisráðuneytinu. Þetta er örugglega einhver misskilningur hjá honum, enda frétti ég í morgun að hún vinni bara hlutastarf. Mamma reyndi að stoppa okkur í rif...rökræðunum og sagði Sigga mín það er farið að hvessa ansi mikið úti, ég vissi að hún meinti líka hér inni. En ég var ánægð með að mér fannst ég finna að mamma stendur með okkur kennurum í okkar baráttu. Gott hjá henni.

Helga ég hitti Siggu vinkonu þína í Hagkaup, ég hélt að hún væri ennþá hjá ykkur. Hún var mjög ánægð með ferðina og heimsóknina til ykkar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home