Sigríður Kristín Óladóttir

15.2.05

Dalalæður og Dalakútar !

Smart, ekki satt? Já "dalalæður" nefnast konur sem búa í Mosfellsdalnum og "dalakútar" eru þá karlar þeirra eða líklega allir karlar í dalnum. Hvað haldið þið að afkvæmin séu svo nefnd? Jú, afkvæmi þeirra eru nefnilega kallaðir grislíngar, skemmtilegt þetta.
Við skólasystur fórum sem sagt í boð til frú Guðrúnar (og Vals frænda míns)að Minna-Mosfelli á laugardaginn var. Þetta var frábært boð og höfðinglegar móttökur eins og venjan er á þeim bæ. Við mættum klukkan 12 og fengum þá þessa fínu fiskisúpu og nýbakað brauð, við gátum valið um rauðan, hvítan, eða tæran vökva í glösin með súpunni.

Eftir matinn fórum við svo að Gljúfrasteini og skoðuðum húsið, er þetta ekki orðið safn? Við vorum íklæddar saumuðum tauskóhlífum og vopnaðar geislaspilara þar sem hlustað var á skemmtilega lýsingu Þorsteins Joð á húsi, lifnaðarháttum íbúa þess, innbúi og fleiru. Þau Halldór og Auður kona hans komu líka með innlegg á geisladiskinn.
Mér finnst einhvern veginn að Auður hafi haft ansi mörg hlutverk, hún var m.a. ritari Halldórs, móttökustjóri, ráðskona, vinnukona (reyndar með aðstoðarstúlku), móðir barna hans (a.m.k. hluta þeirra) og þar af leiðandi hjásvæfa hans svo eitthvað sé nefnt. Þau sváfu ekki í sama herbergi og mikill munur var á svefnherbergjum þeirra, sem segir manni ýmislegt, ekki satt?

Hún Gunna eða frú Guðrún er sérfræðingur í mataræði nóbelsskáldsins og má segja að þemað hjá henni hafi að miklu leyti verið matur og eða kaffibrauð að hætti skáldsins. Við fengum sem sagt, biskmark og kóngabrjóstsykur meðan á skoðunarferð um Gljúfrastein stóð, en þetta var uppáhaldssælgæti hans. Við gengum svo frá Gljúfrasteini að Minna-Mosfelli og var áð á leiðinni. Þess má geta að við gengum þetta í stórhríð og kulda, en við fengum brjóstbirtu þar sem áð var. Þau hjón höfðu merkt girðingu eða hestastaur með rauðri slaufu og úr henni var spotti inní rjóður og við endann á spottanum var rauður bakpoki. Í pokanum var Gammel dansk, Stroh, staup, harðfiskur, súkkulaði, rúsínur og hnetur. Við supum á og borðuðum góðgætið áður en haldið var áfram í vinnustofu listakonunnar Þóru (veit ekki hvers dóttir). Þar skoðuðum við drottninguna hennar Gunnu, sem var auðvitað glæsileg og bíður eftir að Valur flytji hana heim að Minna- Mosfelli þar sem kóngurinn bíður hennar.
Svo héldum við heim til hjónanna og fengum þar uppáhaldskaffibrauð Halldórs. Borðið svignaði undan flatkökum með hangikjeti, nýbökuðum pönnukökum með sultu, sykri og rjóma, kleinum og sandköku. Það má eiginlega segja að við hefðum verið borðandi allan daginn og aldrei slegið slöku við. Takk fyrir mig!!

Við, þ.e. krakkarnir og ég höfum verið hálfslöpp í blogginu að undanförnu. Æææiii, ætli það sé ekki bara svona mikið að gera hjá öllum, eða bara leti. Óli og Helga eru farin að vinna, Óli með skólanum hjá Tómstundaráði R.víkur og Helga byrjuð að vinna við heimahjúkrun. Þóra á fullu í skólanum eins og Óli og reyndar við öll. Atli er í einum áfanga í íslensku, þá er bara einn eftir í stúdentsprófið, Helga að læra smáskammtalækningar og ég í lokaverkefninu.

Ég var að kaupa miða fyrir okkur Atla til Amsterdam, förum út þann 24.02. og heim á sunnudaginn, gaman gaman. Við tökum svo lest frá Amsterdam til Helgu og fjölskyldu í Þýskalandi. Ég er búin að fá E- miðann, en þetta var punktatilboð sem ég gat ekki látið framhjá mér fara.

Eitt að lokum, ég fékk mail frá lögfræðingi mínum þar sem hann svarar lögfræðingi þeirra sem keyptu Reynigrundina. Lögfræðingurinn bað um stuttan viðbótarfrest að beiðni þeirra, þannig að þeim gefist lokatækifæri til að gera skuldina upp.
Jón svarar beiðnina svona; Umbj. minn er því miður ekki reiðubúinn að veita viðbótarfrest í neðangreindu máli. Þegar er margsinnis búið að veita slíka fresti. Vonandi fer eitthvað að gerast í framhaldi af þessu, segi ég nú bara.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home