Sigríður Kristín Óladóttir

24.6.03

Ég ætla að láta þetta vaða hérna inn það les þetta hvort sem er enginn nema Helga og Þóra. Ekki satt?


Ferðapunktar um ferð 9 hústjórnarkennara til Parísar 13. – 17. júní 2003.

Við mættum galvaskar í Leifsstöð að morgni föstudagsins 13. júní. Fyrstar mættu 3 dreifbýliskonur, Margrét, Guðrún og ég. Við vorum mættar um kl. 6 og höfðum góðan tíma til að skoða, versla og fá okkur drykk. Fljótlega komu tvær í viðbót, þær Sigrún og Hanna Regína, en Anna Heiður sem kom með þeim til Keflavíkur var stöðvuð með vopn í farangrinum og tafðist því aðeins áður en henni var hleypt upp. Hún var að vísu bara með naglaskæri eins og reyndar fleiri í hópnum en slapp ekki í gegn með þau af því að hún hafði þau í handfarangrinum.
Svo komu Dómhildur fararstjóri og Halla. Sú níunda, Gunnþórunn ætlaði að hitta okkur í París. Hún var búin að vera í viku í Belgíu og Hollandi í skólaheimsókn með samstarfsfólki sínu og kom með lest frá Amsterdam.

Flugið gékk vel og við tókum leigubíla til Parísar og vorum um 40 mínútur á leiðinni á hótelið okkar, Hotel de Varenne sem er í 7. hverfi. Hótelið reyndist frábært í alla staði með þessum líka dásamlega garði með borðum og stólum sem við einangruðum svo gott sem alveg. Þarna borðuðum við morgunverðinn sem var það eina sem við gátum keypt á hótelinu og þarna vorum við með okkar vín og osta o.fl. sem við keyptum í búðum í götunni. Herbergin vorum mjög fín og hrein með ísskáp og öllum græjum. Við vorum þrjá saman í herbergi frjálslegar í fasi, Gunna, Gussa og ég. Við fengum aukarúm í líklega stærsta 2ja manna herbergið á hótelinu. Hinar voru tvær í herbergi.

Mottóið okkar í ferðinni var “ Lífið er dásamlegt” og var hugmyndin komin frá Gussu. Hún hafði sent Gunnu SMS með þessum orðum nokkrum dögum áður en við lögðum af stað.

Þegar við vorum búnar að hengja upp fötin okkar fórum við í göngutúr í tæplega 30 stiga hita og sól. Dómhildur fararstjóri rataði um allt og vissi hvað við vildum skoða. Föstudaginn og laugardaginn gengum við um og skoðuðum sælkera búðir og búsáhaldabúðir og skemmtum okkur dýrðlega. Þvílík listavert sem eru í þessum sælkera búðum, og bakaríum vááá! Hvað heitir aftur sælkerabúðin sem við fórum fyrst í Dómhildur? Fauchon var önnur er það ekki þar keyptum við m.a. kaffiskeiðarnar ekki satt? Þetta var um eða nálægt Place de la Madeleine. Við borðuðum snarl í hádeginu á laugardeginum í Lafayette eða hvað?

Á kvöldin fórum við á valda veitingastaði sem Dómhildur var búin að panta borð fyrir okkur á, undir nafninu Dominiqe. Nema fyrsta kvöldið þá fengum við sæti á ágætisstað, fínn matur og þjónusta nema hvað tungumál snerti þjónustustúlkan skildi ekki ensku og svo var bekkurinn sem Gunna og Halla sátu á yfir stóru gati eða holu í gólfinu. Þær voru heppnar að bekkurinn fór ekki niður þegar þær voru að færa hann til en þá kom þjónustustúlkan hlaupandi. Þegar við mættum á staðina sem við áttum pöntuð borð sungum við stundum byrjunina á Dominiqe a nikke nikke ....o.s.frv.

Já það er óhætt að segja að lífið er dásamlegt og París er borgin! Á sunnudeginum fóru Margrét, Gunna og Hanna í kaþólska messu og svo fórum við sem ekki höfðum komið til Parísar í skoðunarferð um borgina. Við vorum 6 sem keyptum okkur 2ja daga miða þar sem það munaði aðeins 3 evrum á verði. Á mánudagsmorgni fórum við í Louvresafnið og skönnuðum það hratt og kíktum svo á Mónu Lísu. Eftir það héldum við þrjár áfram að skoða borgina og kláruðum alla fjóra litahringina. Það kom ekki að sök að ég hafði tínt miðanum mínum eftir fyrstu innkomu í vagn á mánudeginum. Núna vitum við hvað við viljum skoða betur næst þegar við komum til Parísar.

Á þjóðhátíðardaginn héldum við okkar hátíð, ég kom með 4 fána og var fyrst niður í morgunverð og flaggaði að sjálfsögðu. Síðar um daginn fórum við í garðinn við Rodin safnið og þar flutti Hanna Regína ávarp fjallkonu sem hún samdi og skráði á Nike spjald sem fylgdi e-u sem hún keypti. Hanna er fædd leikkona og hefur leikið talsvert m.a. í sýningum Light nights. Hún flutti ávarpið listavel og Gunna og Sigrún stóðu heiðursvörð hjá henni. Við skemmtum okkur vel og skellihlóum. Við töluðum um að styttan í garðinum þar sem hátíðarræðan fór fram væri af Jóni Sig. þó vantaði haus og fleiri líkamsparta á hann t.d. happatappann sem hangir slappur niður. Ég læt ávarp fjallkonunnar fylgja með.



Ávarp Parísarfjallkonunnar.

Hæ hó jibbíjei
nú er kominn sautjándi júní.
Öxar við ána
Árdags í ljóma
Upprísi þjóðlíf
og skipist í sveit
Hún Sigga fer á fætur
við fyrsta hanagal
Að setja út fánann
sem á svo vel við
Út um græna grundu
gakktu hjörðin mín
Yndi vorsins undu
ég skal gæta þín
Sól og vor ég syng um
snerti gleðistreng

Í París er Dómhildur drottning
með dugmikinn kvennahóp
Lánsamar lítum í lotning
Ljómandina ferðina skók

Ljósið loftið fyllir
og loftin verða blá
Vorið tánum tillir
tindna á
Landið er fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar
Eldgamla Ísafold
með alla sína fínu hússtjórnarkennara
Sem útskrifuðust árið 1973
Við höldumst í hendur´
Út í ókomin lönd
Um ókomin ár
Ísland ögrum skorið
Eg vil nefna þig
Sem á brjóstum borið
Og blessað hefur mig
Lífið er dásamlegt

Eftir ávarpið færðum við Dómhildi skjaldböku sem þakklætisvott fyrir frábæra fararstjórn sem var full af súkkulaði. Við reyndum að finna önd með 8 unga en fundum hana ekki. Hún var ánægð með skjaldbökuna. Svo skoðuðum við safnið og garðinn og fórum svo á hótelið í sturtu og lokafrágang.

Rúmlega 19,00 lögðum við af stað út á Charles De Gaulle flugvöll og í þetta sinn tók um 1,5 tíma að keyra á völlin vegna umferðaþunga. Ég held að þetta sé leiðinlegasta og lélegasta flugstöð sem ég hef komið á svei mér þá. Við vorum sex að fara saman heim, þrjár ætluðu að vera lengur. Við ákváðum að tékka okkur inn allar saman við Gunna fyrstar og svo safnaði ég vegabréfum hinna og færði dömunni, hún vildi þá bara fá eitt og eitt í einu. Fyrst kom Sigrún með sitt og allt gékk vel. Svo Magga með sitt vegabréf, en viti menn það var útrunnið fyrir líklega einu ári síðan. Hún sagði að seinast þegar hún fór út þá þurfti hún aldrei að sýna vegabréf og hafði því ekki miklar áhyggjur af því þótt það væri útrunnið. Hún var beðin að bíða á meðan hringt var e-ð. En næst var röðin komin að Önnu Heiði, taskan hennar rann í gegn en ekki vegabréfið. Það tók ekki betra við þar á bæ, hún hafði tekið með sér vegabréf dóttur sinnar sem er fædd 1980 og myndin af henni er líklega nálægt 10 ára gömul. Svei mér þá þær eru ótrúlegar þessar dömur, en það verður að segjast eins og er og þeim til hróss að ekki stressuðust þær upp við þetta, þær voru alveg sallarólegar. Einhvernveginn fengum við þó að fara áfram og kvöddum þá Gunnþórunni sem var að taka á móti móður sinni og systur. Ég þrasaði samt við hana og hélt að hún gæti farið með okkur inn á sama stað og við fórum, en svo var ekki. Við fórum upp rúllu- eða rennibrautirnar og sáum okkur til skelfingar að þarna er sama og ekkert um veitingastaði, bara ekkert. Hefðum líklega átt að fara niður til þess að fá okkur í gogginn í stað upp. Við fórum því til baka og fundum Gunnþórunni þar sem hún beið og fengum okkur einn drykk með henni.
Jæja við komumst allar í flugið og heim á leið, en það vantaði ekkert nema að ein okkar væri með falsað vegabréf sagði fjallkonan Hanna á heimleiðinni.

En lífið er dásamlegt!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home