Sigríður Kristín Óladóttir

12.12.04

Sunnudagshugleiðing.

Ég vaknaði fyrir allar aldir í morgun, enda fór ég að sofa eldsnemma í gærkvöldi. Það rignir og rignir án afláts núna, vonandi fer ekki að sjóa í dag.
Jæja þá er þriðji sunnudagur í aðventu runninn upp og í dag kveikjum við á Hirðarkertinu. Vissuð þið þetta um kertin á aðventukrönsunum?

Fyrsta kertið er Spámannskertið, sem minnir á fyrirheit spámannanna um komu frelsarans.
Annað kertið er Betlehemskertið, og heitir eftir fæðingarbæ Jesús.
Þriðja kertið er Hirðakertið, nefnt eftir hirðingjunum sem fyrstir fengu fregnir um fæðingu frelsarans.
Fjórða kertið er Englakertið, sem minnir okkur á englana sem fluttu fréttina um fæðingu frelsarans.

Annars er allt fínt að frétta héðan fyrir utan Reynigrundar vesenið. Það er búið að senda Hönnu skeyti um riftingu kaupsamnings og hótun um útburð. Mér skilst að stefnan verði birt í næstu viku.
Hvernig dettur fólki í hug að kaupa hús og halda að hægt sé að sleppa við að borga nokkuð í því? Fá lán í banka, en borga ekkert af því, ég meina það hugsar fólk ekkert? Skyldi fólk sem virðist vera í öðrum heimi og tengir bara alls ekki við raunveruleikann vita hvenær það segir satt og hvenær það segir ósatt? Til hvers er verið að senda fax frá Líbíu um að peningar verði lagðir inn í banka á Íslandi fimmtudaginn 9. des.?
Þetta er nú meira ástandið, en ég hef sýnt þeim biðlund í tæplega 7 mánuði og ég get ekki gert það lengur. Ég er ekki vond :), ég er góð!!!

Í dag fer ég í bæinn í dekur og djamm. Við skólasystur úr HKÍ ætlum að hittast. Við ætlum að hefla hófana, skerpa augabrúnir og hressa uppá andlitið. Við förum líka með pakka og skiptumst á gjöfum, gaman gaman. Ef ég þekki Gunnþórunni rétt verður maginn ekki fyrir vonbrigðum heldur. Það kom meil í gær um að gott verði að hafa með sér bílstjóra, því Gunnþórunn hafði keypt dekurvökva, úps, og ég sem er að fara í leikhús með Þórði í kvöld. Við ætlum að sjá Eldað með Elvis. Þetta er fjórða stykkið sem við sjáum í vetur. Fyrst var það Piaf, svo Úlfhamssaga, þá Járnhausinn og svo Eldað með Elvis. Þannig að það hefur verið nóg að gera hjá okkur og auðvitað höfum við farið á böll líka.
Atli kemur líklega með mér í bæinn, en Þórður er í Reykjavík af því að hann var í 50 ára afmæli í gær.

Á föstudaginn kláraðist seinna námskeiðið sem ég vara að kenna á hjá Símenntunarmiðstöðinni. Eins og ég sagði einhvern tímann, þá var þetta alveg sérstaklega skemmtilega kennsla, þ.e.a.s. að kenna fötluðum. Nemendurnir voru alltaf svo þakklátir og ánægðir að ég bara hálfklökknaði. Tveir af Borgnesingunum komu með myndavél og tóku nokkrar myndir og svo kom framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar og tók nokkrar myndir. Ég er nú samt pínulítið fegin að þetta er búið vegna þess að þetta var mjög mikil viðbót við kennsluna, sérstaklega vegna þess að þetta voru 2 námskeið sem þýddi tveir dagar í viku.

Ég er að hugsa um að kvarta yfir gleraugunum mínum. Þetta er svoddan drast, maður má ekki einu sinni leggjast smá stund á þau án þess að beygla arminn.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home