Sigríður Kristín Óladóttir

14.12.04

Sitt lítið af hverju

Það sem liggur þungt á manni þessar vikurnar er vegna Reynigrundarinnar. Nú veit ég hvernig ferlið verður í þessu. Mestar líkur er því á að bráðum eigi ég tvö hús og þarf því að selja eða leigja annað. Næsta skref eftir riftun er að senda íbúunum reikning fyrir leigu frá því að þau fengu húsið afhent, svo er að stefna konunni og svo að bera þau út úr húsinu, þokkalegt þetta!!!
Best verður líklega fyrir mig að yfirtaka lánið sem þau fengu. Ég talaði við Jóhönnu áðan og hún skilur vel mínar aðgerðir, en sagði að Rafn kemur frá Líbíu í kvöld og þá kemur í ljós með peningana. Hún vissi nefnilega ekki hvort peningarnir væru komnir inná reikninginn hans, en einhver dráttur var á þessu vegna þess að IBAN númer var rangt. Hún kvaðst ætla að láta mig vita á morgun, gaman að vita hvort það stenst.
Ég er auðvitað alveg hætt að trúa nokkru sem þau segja.

Að öðru, smákökubakstur er á fullu í skólanum og mér finnst ég bara alveg vera búin að baka hér heima þótt lítið komi í hús. Ég þarf svo sem ekki að baka mikið fyrir jólin, því Sörurnar eru komnar í frysti og svo verð ég að gera laufabrauð. Ég er eiginlega alveg búin að ákveða matseðil jólanna, Óli minn, ég held að við verðum að sleppa rjúpunum þetta árið. Mér líst ekkert á þessar skosku rjúpur sem lifa líka á allt öðru en íslenska rjúpan og þá vantar þetta góða lyngbragð sem við þekkjum.

Hér er mín tillaga að matseðli jólanna
Aðfangadagur: Graflax skv.hefð, Kalkúnn, Sherrýfrómas (fastir liðir)
Jóladagur: Hefðbundinn matseðill
Annar í jólum: Nýr svínahryggur með tilbehör.
Gamlárskvöld: Forréttur, ekki alveg búið að ákveða hver og Nautalund Wellington
Nýársdagur: Svínahamborgarhryggur með öllu.

Ég hef ekki komist í pottinn síðustu daga vegna þess að ég hef verið kvefuð, kanski fer ég í kvöld. Haldið að ég hafi ekki fengið vatn frá Sigga og Silju á móti, ég sagði bara við Sigga viltu gjöra svo vel að gefa mér vatn í einn pott? Þegar Siggi sagði já, bætti ég við þetta er reyndar 1000 lítra pottur, er það ekki í lagi? Það skemmtilega er að samkvæmt mælingu, þá er vatnið í fínu lagi, tært og fínt. Það var reyndar þannig líka fyrst eftir að ég lét renna i hann með vatni úr bílskúrnum mínum. Ef til vill er rétt það sem Óli sagði að vatnið væri ekki alveg tært út af miðjunni í hauspúðunum, ég ætla ekki að setja miðjuna með og sjá hvað gerist.

Vonandi gengur Þóru vel í prófi sem hún er í núna, ég sendi rafmagnaða strauma til hennar.
Jæja ég verð að hætta núna og fara að útbúa pakka til Þýskalands.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home