Sigríður Kristín Óladóttir

1.7.05

Fæðingardagur pabba.

Ég fór í dag með blómin í kirkjugarðinn fyrir mömmu, en í dag hefði pabbi orðið 80 ára ef hann væri á lífi. Hann dó mjög ungur, aðeins 50 ára gamall. Ég fór með 7 rósir, en einhver var búinn að leggja eina rós á leiðið, örugglega einhver frá Valla bróður.

Annars er allt gott að frétta, við skólasystur hittumst hjá Gunnþórunni í gær til að ræða hvort við getum gert eitthvað fyrir Hönnu og fjölskyldu. Okkur kom saman um að það er ekkert sem við getum gert að svo stöddu, við verðum að bíða þar til hún verður vakin, en það verður ekki reynt fyrr en í fyrsta lagi eftir viku. Þá verður hún búin að sofa í 5 vikur.
Við ætlum að hafa fjölskyldu-grillveisluna hér á Skaganum, í skógræktinni í ágúst. Við ákveðum einhvern dag þegar gott er veður, jafnvel ákveðið samdægurs.
Einnig ætlum við í okkar árlegu sumarbústaðaferð í haust, þá verður horfið aftur til fortíðar í bústaðinn hennar Höllu sem er án rafmagns þannig að við munum ekki hafa allan lúxusinn sem við erum vanar. Gott mál það.

Valli bróðir hringdi áðan og bauð okkur Þórði að kíkja til þeirra Dóru og Gauja og Dóru í kvöld. Þau eru í bústað uppi í Andakílsá. Við sjáum til í kvöld hvað við gerum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home