Sigríður Kristín Óladóttir

14.6.05

Komin í fríið

Jíbbý, nú er ég komin í sumarfrí!!!
Ég notaði fyrsta daginn vel, þ.e.a.s. ég byrjaði að mála húsið fyrir mömmu, svo kom Þórður eftir vinnu til að mála með mér.
Ég hef varla kíkt á eða í tölvuna í óralangan tíma, rétt skoðað póstinn, aðallega til að fylgjast með fréttum af Hönnu skólasystur sem haldið er sofandi núna eftir heiftarlega sýkingu. Nú er komið á þriðju viku síðan hún veiktist blessun.

Það hefur verið stanslaus gleði allar helgar ég veit ekki hversu lengi. Við fórum í ferðalag 28. mai, meðal annars fórum við á snjósleðum á Mýrdalsjökul. Það var alveg meiriháttar gaman, en það kom mér á óvart hve erfitt er að aka þessum sleðum, maður þarf að hafa sig allan við til að hitta í sleðaförin og halda stýrinu stöðugu. Það var ótrúlega mikið gengið í ferðinni, fyrst gengum við upp við Seljalandsfoss, svo alla leiðina upp við Skógarfoss. Eins og þetta hafi ekki verið nóg um göngur þann dag, þá biluðu fjallatrukkarnir sem óku okkur áleiðis á jökulinn og við þurftum að ganga í u.þ.b. 40 mínútur til að komast að skálanum þar sem sleðarnir voru. Skálinn var í um 750 m hæð en við fórum svo á sleðunum í 1360 m hæð og fengum fínt veður á toppnum, en hálfgerða þoku á leiðinni upp.

Lokahnykkur Brekkubæjarliðsins var svo 3. júní. Farið var í Viðey og það var alveg meiriháttar gaman eins og alltaf þegar við skemmtum okkur. Afmælisveisla Þóru var svo þann 4. júní, við mættum auðvitað galvösk til hennar.

Nýliðin helgi var líka pökkuð, við skelltum okkur á tangónámskeið með kennurum frá vöggu Tangósins, Buenos Aires. Marino Galeano og Cecilia Pugin, tangódansarar og kennarar komu hingað til lands í fyrsta sinn. Við höfum alla vega prófað aðeins að dansa Argentískan tangó, en þessi dans krefst mikillar æfingar og parið þarf að vera algjörlega samstíga. Líklega þarf maður að fara á nokkur tangónámskeið til að ná einhverjum tökum á þessari list. Á laugardag skellti ég mér í kvennahlaupið með Boggu mömmu Þórðar, svo fórum við í tangó og á laugardagskvöldið vorum við með matarboð, Elsa, Eygló og Sessa ásamt mökum komu til okkar í mat. Veðrið var frábært og kvöldið heppnaðist frábærlega vel. Á sunnudagskvölið fórum við Þórður og Elsa og Reynir í Iðnó þar sem Tangóhljómsveit lýðveldisins stóð fyrir dansleik kennararnir okkar voru með stórkostlega sýningu, vááá.

Núna er klukkan orðin 9 og ég ætla ég að athuga hvað málningartröppur kosta, mín er alveg búin að vera. Svo er óhætt að fara að fara til múttu að mála, hún fer að vakna úr þessu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home