Sigríður Kristín Óladóttir

18.8.06

Kaupmannahafnarpistill

Þetta gengur bara vel hjá okkur hér í Kaupmannahöfn. Tókum myndir áðan af íbúðinni eftir breytingu á húsgagnaskipan og uppstillingu á vösum og kertastjökum sem við keyptum í Ikea fyrir tæpar 50 krónur (danskar)

Það voru reyndar smá byrjunarörðuleikar í sambandi við kortanotkun hjá okkur, ég held að ég fari ekki neitt nákvæmlega út í það, en í grófum dráttum var þessu þannig varið að þegar ég notaði kreditkortið í fyrsta skipti í Iso var ég ekki alveg með á nótunum varðandi notkun kortsins. Heima þurfum við ekkert að gera nema kvitta þ.e.a.s. ef við þurfum þess, en hér þurfti ég að stimpla inn upphæðina (ég hélt það a.m.k.) og setja svo inn pin-númerið. Ég gerði þetta samviskusamlega allt í einni lotu og viti menn, útkoman var "AFVIST". Ég stressaðist upp og sagði við Þórð: Gvöð þetta er vitlaust pin-númer, réttu mér símann Þórður!!! Ég fékk símann og hugsaði hver var aftur skráður á þetta kort (ég bý venjulega til platnöfn), úff hugsaði ég og leit á röðina sem var orðin alllöng og afgreiðslustúlkan sagði við næsta mann:
Hun kan ikke huske sit pinnumer!!
Eftir smáleit og stress byrjaði ég aftur og sá þá að ég hafði óvart bætt 4 stafa pin-númerinu við upphæðina, það var eins gott að þessu var afvist.
Það jákvæða við þetta var þó, að ég var með rétta pin-númerið.

Þórður lenti líka í því að safna röð fyrir aftan sig þegar hann tók út úr hraðbanka í dag. Það mætti halda að við værum úr afdölum eins og Þórður á Uppsölum eða Þórður í Haga , en allavega þá spýtti fjandans vélin alltaf kortinu út úr sér af því að hann ýtti alltaf á vitlausa takka þegar hann átti að ýta á "godkjent" ÉG er allavega fegin að kortið var ekki klippt!!!!

Við fórum í morgun með lest á aðalbrautarstöðina, löbbuðum stikið út að Hafmeyjunni og svo heim, veðrið var alveg frábært, en ef til vill aðeins of heitt það lak af okkur eins og venjulega.

Í gær þvoðum við þvott hér í fyrsta skipti og auðvitað var kortavél okkur til ánægju, en það gekk að ég held stórslysalaust, kanski borguðum við fyrir 2 þvotta í staðinn fyrir einn ég veit það ekki, þetta er eitthvað svo heilhveiti illa merkt!!!
Við þurfum að fara út í garðinn og á númer 33 eða 45 til að þvo, en við búum á 37. Svo löbbuðum við að Jónshúsi sem er bara um 15 mín ganga héðan fórum svo til baka, kíktum í Rúmfatalagerinn og Nettó. Þessar búðir eru ekki sambærilegar við það sem við þekkjum, bara smákompur liggur mér við að segja. Maður er alltaf að sjá það betur og betur hvað við Íslendingar erum flottir á því.

Eru 365 fjölmiðlar að sölsa undir sig dagblaðamarkaðinn hér, þetta er búið að vera stórfréttir hér og viðtöl við Gunnar Smára Egilss?

Við fjárfestum í símum í dag (Nokia 6111), keyptum sitthvorn símann á 1 krónu (rétt verð 2299),ég fékk bleikan og Þórður svartan.Við skuldbundum okkur til að vera í áskrft í 6 mánuði, þeir eiga örugglega eftir að ná þessum stórgróða okkar til baka á stuttum tíma. Símarnir eru í hleðslu, ég hringi kanski í kvöld ef við náum að læra smá á þá!!!!! Sendi ykkur kæra fjölskylda símanúmerin í tölvupósti.
Ekki meira núna, bestu kveðjur héðan.

4 Comments:

  • Það er nú frábært að lesa þessa pistla þín mamma mín, þú ert alveg ómetanleg. Það væri nú gaman að vera á fluga á vegg hjá ykkur þegar þið eruð að læra á nýja hluti. En þið náið þessu nú fljótt, bara gott að það hafið tíma til að læra á allt mögulegt.

    Gaman að veðrið skuli leika við ykkur, það er nú munur.

    Gott að þið fenguð ykkur á síma í gær, þá er hægt að hringja á ykkur og borga sjálfur.

    Hlakka til að sjá ykkur á þriðjudag. Bestu kveðjur Helga og co

    By Blogger Helga, at 19/8/06 09:00  

  • Ég fór með þennan pistil til ömmu Lillu og hún skemmti sér vel yfir eins og ég. Þið eruð alveg kostuleg :)

    Allt gott annars að frétta, ég bið æðislega að heilsa.
    B.kv. Þóra

    By Anonymous Nafnlaus, at 19/8/06 12:47  

  • Við lentum einmitt í því fyrsta daginn okkar að Netto tók bara Dankort og við vorum að sjálfsögðu ekki með neitt svoleiðis. Þannig að eftir að vera búin að safna röð fyrir aftan okkur urðum við að hætta við matarkaupin því við vorum ekki með neitt í lausu á okkur:o/

    En það er nú bara gaman að lenda í einhverju svona....það kryddar nú bara lífið;o)

    By Blogger Bippi, at 19/8/06 15:34  

  • Mér datt nú svo sem í hug að þetta væri ekkert einsdæmi hjá okkur, þetta er bara skemmtilegt, sérstaklega eftirá og eins og Heiðrún sagði kryddar tilveruna.

    Maður stressast samt óneitanlega á meðan á þessu stendur ;)

    By Blogger Frú Sigríður, at 19/8/06 16:25  

Skrifa ummæli

<< Home