Sigríður Kristín Óladóttir

1.4.07

Páskafrí og vorveður!!

Jæja nú er komið páskafrí hjá skólafólki, það er alveg dásamlegt. Ég þarf reyndar að læra svolítið í páskafríinu, en það er allt í lagi. Ég ætla að hafa vit á því að læra eitthvað á hverjum degi, hvað sem verður úr því en ég er nú samt aðeins byrjuð.
Veðrið hér þessa síðustu daga hefur verið alveg meiriháttar. Sól og blíða og stuttermabols-skyrtuveður. Í gær löbbuðum við niður í bæ og keyptum okkur lax í kvöldmatinn.
Við heyrðum tónlist og ræðuhöld við Cristiansborg og kíktum þangað. Þar var heldur betur mannfjöldi því þarna var á annan tug þúsunda fólks tóku þátt í friðsamlegum mótmælaaðgerðum til stuðnings íbúum fríríkisins Kristjaníu. Íbúar þar samþykktu tilboð danska ríkisins um að Kristjanía gangist undir sömu lög og önnur sveitarfélög gegn því að íbúarnir fái þróunarstyrki.
Fólkið krafðist þess einnig, að nýrri félagsmiðstöð í anda Ungdomshussins, sem rifið var nýlega, verði komið á fót.
Við vorum sammála um það, að aldrei áður höfum við séð þvílíkt samansafn furðufugla samankomið á einum stað, en það var vissulega gaman að sjá þetta lið.

Við komum við í Nýhöfninni á heimleiðinni, þar var þvílíkur fjöldi að hvergi var hægt að fá sæti á þessum lengsta bar heimsins. Ég minnist þess ekki að hafa séð svona marga sitja á bryggjunni sjálfri áður. Þar sat fólkið með bjórkippurnar sínar og sötraði bjórinn í blíðunni alveg við veitingastaðina. Við fengum okkur aftur á móti ís, því nú er búið að opna ísbúðina á horninu.

Nú er Helga flutt heim með börnin, en Alex kemst ekki fyrr en seinnipartinn í apríl. Þau munu búa á Jörundarholtinu þar til þau eru búin að byggja húsið sitt. Þannig að þegar við komum heim í lok júlí verðum við 7 í heimili, spennandi ekki satt?
Bestu kveðjur úr blíðunni í Kaupmannahöfn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home