Sigríður Kristín Óladóttir

30.9.05

Þórsmerkurferð

Ég nota tækifærið og sendi þessa lýsingu úr skólanum en ég gat ekki komið henni á Netið úr minni tölvu.

Ég leyfi mér að fullyrða eða í það minnsta vona, að þessi fyrsta Þórsmerkurferð mín 24.- 25. september verði ekki sú síðasta. Fegurðin er ótrúlega mikil og haustlitirnar ægifagrir. Við vorum alveg sérstaklega heppin með veður, sól og blíða allan tímann. Það var að vísu dálítill snjór og pínulítið frost en það var nú í góðu lagi.
Við komum í Þórsmörk nánar tilgekið í Langadal um klukkan 13:00 á laugardegi og mjög lítið var í ánum, þ.e.a.s. Hvanná og Krossá. Þegar við vorum búin að tala við Heiðu skálavörð og fara inn með dótið okkar var farið í gönguferð. Flestir gengu yfir í Húsadal, fóru svo aðra brattari leið til baka. En Röggi, Ragnheiður og Maggi gengu líka á Valahnúk. Við Þórður, Guðbjörg og Reynir og Elsa gengum svaka hring sem reyndist vera 9 km langur. Við fórum upp Slyppugil, meðfram Tindafjöllum að Tröllakirkju og yfir Stangarháls til baka. Ég hef sjaldan verið eins hrædd á æfinni eins og í þessari ferð. Þetta var snarbratt og hált, en ægifagur leið. Ég þorði ekki að snúa við og fór því hluta leiðarinnar á rassinum sem mér fannst öruggast þá stundina, úps!!. Sem betur fer lánaði Reynir læknir mér annan göngustafinn sinn, Þórður var líka lofthræddur og ég hef grun um að Elsu hafi ekki alveg verið sama. En við vorum afar stolt þegar við komumst niður og skáluðum í en öl. Ég er fegin að vera búin að fara þennan hring og mun ekki fara hann aftur þótt engin verði hálkan.
Þessi ganga okkar tók um 3 og hálfa klukkustund með stoppum og var það vel að verki staðið.
Þegar við komum aftur í skálann, var byrjað að elda matinn. Skipulagsnefndin sem voru þær Ragnheiður Ragnars, Inga Rún og Elsa ásamt mér sem var starfsmaður nefndarinnar sáum um forréttinn sem var reyktur og grafinn lax og svo auðvitað um aðalréttinn, grilluð lambalæri með bökuðum kartöflu, grænmetissalati og sósu. Við nutum dyggrar aðstoðar kolakveikimannsins Þórðar og grillmeistaranna Reynis og Rögnvaldar. Eftirrétturinn var kaffi og koníak.

Það var aldimmt um klukkan 20:30, þá hélt ég að klukkan væri að nálgast miðnætti, maður er svo tímalaus í myrkrinu. Við fengum lánaða sjoppuna til að syngja og skemmta okkur um kvöldið af því að fleiri en við vorum í skálanum.
Þegar við fórum að sofa kom í ljós að Stefán var ekki kominn í hús, hann hafði þá misst gleraugun af nefinu og skreið úti í myrkrinu til að reyna að finna þau. Sigga Skúla og Sirrý fóru og hjálpuðu honum að finna gleraugun með aðstoð klósettvasaljóssins. Sem minnir mig á að ef þið farið í haustlitaferð í Þórsmörk, hafið endilega með ykkur vasaljós.
Þegar ég lagðist til svefns, fékk ég algjört hláturskast þegar ég heyrði nokkra hrjóta. Daginn eftir frétti ég að seinna um nóttina var talið að 17 hefðu hrotið í aljörri hrotu-sinfoníu og hafði Ragnheiður Ragnars orð á að takturinn hjá okkur Þórði hefði verið sérlega góður!! Rúmið hennar var þvert á okkar rúm og höfuð okkar Ragnheiðar snertust nærri því.
Þetta minnir mig á söguna sem þú sagðir Hlyni um ljónið og tígrisdýrið í næsta herbergi Óli minn.

Á sunnudagsmorguninn gengum við Þórður í Húsadal þrátt fyrir miklar harðsperrur sem versnuðu svo á mánudag og voru slæmar í gær. Við komum aðeins við í Básum á heimleiðinni og gengum svo í Stakkholtsgjá og ókum að Steinholtslóni. Heim komum við um klukkan 17:00 eftir frábæra haustlitaferð í Þórsmörk.

Hvernig stendur á að þegar ég ætla að publisha póstinn kemur og bara The page cannot be displayed? Ég tapaði eiginlega öllu þegar ég var búin að skrifa ferðasöguna fyrst, en hafði vit á að vista í word þegar ég skrifaði í annað sinn.

1 Comments:

  • Það hefur greinilega verið fallegt í Þórsmörkinni. Já alveg rétt, mamma ég ætlaði að muna að segja þér að taka með þér göngustaf. En æi, stundum er þetta svona. Mannst það næst.

    By Blogger Helga, at 30/9/05 18:13  

Skrifa ummæli

<< Home