Sigríður Kristín Óladóttir

15.3.03

Hér kemur stutt greinargerð frá UT ráðstefnunni á Akureyri 2003.

Ómar Örn Magnússon - Raunveruleikur.
Málstofa þar sem kynnt var forritið og jafnframt þróunarverkefnið Raunveruleikur Landsbankans. Höfundur þess, Ómar Örn Magnússon sá um kynninguna.
Raunveruleikur Landsbankans er gagnvirkur hlutverkaleikur sem hannaður er sem kennsluefni í lífsleikni í 10. bekk.
Markmið leiksins er að ná til nemenda með fjármálafræðslu og kynna fyrir þeim ýmsa þætti íslensks samfélags. Í Raunveruleik þurfa þátttakendur að setja sig í ákveðin spor og móta lífshlaup sitt, óháð sinni raunverulegu stöðu og nemendur fá innsýn í þær ákvarðanir sem fólk þarf að taka í lífinu. Í leiknum er reynt að líkja eftir raunveruleikanum eins og kostur er.
Markmiðunum er skipt í yfirmarkmið, þekkingarmarkmið og færnimarkmið.
Yfirmarkmið eru t.d. ábyrgð á eigin lífi, að velja og hafna, fjármál heimilanna og fréttir líðandi stundar.
Þekkingarmarkmið eru t.d. útgjöld og innkoma, lán, vextir, skattar, vinnumarkaðurinn, verðbólga og vísitölur og sparnaður.
Færnimarkmið eru t.d. nákvæm og sjálfstæð vinnubrögð, Netið notað til þekkingaröflunar og einfaldar reikniaðgerðir.
Þátttakendur byrja 20 ára í leiknum og verkefnin eru unnin einu sinni í viku. Hver vika er eitt ár í lífi nemenda. Fyrir verkefnin sem nemendur vinna vel fá þeir stig og jafnframt örlög.
Mér fannst þetta afar áhugavert forrit og sá þarna gott efni sem hægt væri að nota með í heimilisfræði í 10.bekk. Gallinn er sá að leikinn þarf að spila allan veturinn og hentar því ekki valgrein, en ef til vill verður því breytt síðar.

Fyrirlestur um NámUST rannsóknina frá leikskóla til háskóla.
Það er óhætt að segja að þessi fyrirlestur var sérstakur fyrir það að engin leið var að fá leið á fyrirlesurunum. Þau voru hvorki meira né minna en 8 sem sáu um kynninguna þetta voru: Allyson Macdonald, Anna Magnea Hreinsdóttir, Þuríður Jóhannesdóttir, Torfi Hjartarson, Ásrún Matthíasdóttir, Michael Dal, Samuel C. Lefever og Anna Ólafsdóttir.
Tilgangurinn með rannsóknarverkefninu er að skoða möguleika sem notkun upplýsinga- og samskiptatækni sem miðils opnar fyrir nám og kennslu.

Fyrirlesararnir svöruður fyrstu tveimur rannsóknarspurningunum sem eru:
• Hvað hefur notkun UST sem miðils í för með sér fyrir nemendur og fyrir nám?
• Hvað hefur notkun UST sem miðils í för með sér fyrir kennara og fyrir kennslu?

Það var margt sem kom fram í fyrirlestrinum, meðal annars jákvæð viðhorf til UST í kennslu, talað var um kynjamun í leikskólum og í grunnskólum í frjálsum verkefnum og leikjum. Ennig kom fram að hlutverk kennara og nemenda hefur lítið breyst síðustu 20 ár samkvæmt erlendum rannsóknum.
Þetta var sem sagt líflegur og skemmtilegur fyrirlestur um fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home