Sigríður Kristín Óladóttir

11.2.03

Ég var að senda bræðrum mínum meil og er að prófa á þeim fyrsta vefrallýið mitt. Þetta er auðvitað hálfgert grín en ég er orðin svo fj.... góð í að afrita að ég skelli því bara hér inn. Ef ég fæ viðbrögð þá finnst mér líklegt að sá elsti vinni keppnina, en þetta er nú bara okkar á milli kæra dagbók.

Sælir kæru bræður mínir

Nú er ég komin í hóp hinna alræmdu bloggara. Þið vitið sjálfsagt hverjir þar eru á ferð? Það er fólk sem vill láta allan heiminn vita hvað þeir eru að gera eða hugsa!!!
Þetta er liður í náminu hjá mér og er skylda á þessu námskeiði sem heitir Nám og kennsla á Netinu hjá Salvöru Gissurardóttur. Ég var svo hneiksluð á þessu að ég átti ekki orð yfir þessa vitleysu. Þið vitið hvað ég er óframfærin og feimin og þagði því eins og venjulega yfir þessari skoðun minni. Skrifa dagbók á Netinu!! fáránlegt og ekki nóg með það, þar verður að vera kynning á mér, tæknisaga, framtíðarsýn mín og fleira og fleira. Ef þið skoðið fyrstu færsluna þá lýsir hún hugarástandi mínu í byrjun. En þetta er nú líklega eitt af því sem hægt er að venjast eða hvað haldið þið?

Mamma var að hringja í mig, ég sem var að koma heim frá henni. Hún vildi að ég bætti aðeins á "tossaseðilinn" sem ég er með frá henni yfir það sem ég á að kaupa fyrir hana á morgun. Svakalega er langt síðan maður hefur séð orðið "tossi", þetta er ekki lengur til í orðaforðanum og algjört bannorð í skólum. En þessir miðar frá mömmu heita einfaldlega "tossaseðlar" og það var fullt af tossum í gamladaga þegar við vorum börn. Ekki satt?

Ég set hér með á stað Vefrallý og það er mjög auðvelt. Hér koma leiðbeiningarnar:

Þið eruð í Vefrallýi strákar mínir og nú ætla ég að gá hver er fyrstur. Þið eruð sem sagt í keppni, en ekki í golfi eða lax- eða silungsveiði að þessu sinni, heldur er galdurinn þessi:

1. Þið eigið að kíkja á bloggið mitt. (ég er sko komin með teljara)

2. Hvernig er fyrsta bloggið mitt?

3. Láta mig vita svo ekki verði véfengt að þið hafið skoðað það (bloggið).

4. Komið með nákvæma lýsingu á tossaseðlinum frá mömmu! (þ.,e.a.s.útlit, helst stærð, lit og allt sem ykkur dettur í hug)

Þegar þessu er lokið sendið mér póst og munið að þetta er keppni. Hver verður fyrstur? Hér er slóðin http://siggaola.blogspot.com/

Bestu kveðjur, ykkar systir
Sigga

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home