Sigríður Kristín Óladóttir

5.3.07

Stríðsástand í Køben

Bara nokkur orð til að láta ykkur vita að það er allt í lagi með okkur hér í Kaupmannahöfn. Við höfum ekkert verið að blanda okkur í eða taka þátt í þessu stríði sem hér hefur ríkt. Núna er búið að handtaka yfir 600 manns og setja í fangelsi. Á meðal þeirra eru víst margir útlendingar, mest Þjóðverjar, Svíar og Norðmenn. Við búum á Austurbrú og erum því ekki þar sem mestu lætin hafa verið, sem er á og við Nørrebrogade og í Christianshavn. Okkur brá samt nokkuð á föstudagsmorguninn, þegar ég fór í skólann þegar við sáum verksummerkin við Nørrebrogade. Skólinn er við þá götu, en ekki sömu megin og Ungdómshúsið sem nú er verið að rífa. Það var einmitt verið að sýna frá því í sjónvarpinu núna og þar standa grátandi ungmenni og horfa á. Ég hef ekki samúð með þeim lengur það verð ég að segja.
Á föstudaginn þurfti ég að kafa í gegnum reyk því enn logaði bál á götunni, en gatan var lokuð fyrir umferð. Búið var að brjóta meira og minna allar rúður í bönkum og á fleiri stöðum og eyðileggja hjól og fleiri muni. Í morgun var búið að negla krossviðsplötur eða fleka fyrir glugga margra verslana, þetta var eins og að vera kominn inní glæpabíómynd svei mér þá. Átta löggubílar í einni halarófu keyrðu framhjá mér með vælandi sírenur rétt áður en ég kom í skólann, þetta er ótrúlegt.
Við þorðum ekki annað en hætta við að fara á tónleika í Copenhagen JazzHouse á laugardagskvöldið. Við förum bara seinna þangað.

Það var gaman að tala við Hlyn á afmælisdaginn hans. Þegar ég spurði hann hvort hann hafi farið með köku eða eitthvað í skólann sagði hann: Nei amma, ég hélt uppá afmælið mitt heima!!! Svo spurði ég hann hvort það hefðu margir komið í afmælið, þá sagði hann: Svona tæplega 8.... Góður!!

Þetta minnir mig óneitanlega á unga stúlku sem sagði við okkur um daginn þegar hún var að segja frá: Það er ekki hundur í hættunni!!!

Annars er allt gott að frétta af okkur, bara smábakvesen á mér. Ég held að það sé vegna þess að ég var svo stíf í hálkunni um daginn, var þá skíthrædd um að detta. Þetta hlýtur að lagast fljótlega.
Í gærmorgun var yndislegt veður, hitinn fór í 11 stig og sólin skein. Veðrið í dag er ekki eins gott, nú er rok og rigning.
Tíminn flýgur alveg áfram, þetta ár verður svo sannarlega liðið áður en maður veit af. Við biðjum að heilsa í bili.

6 Comments:

 • Pssið ykkur á þessum óeirðargaurum. Ekki frá því að maður verði bara hræddur um ykkur.

  kv
  Helga

  By Anonymous Nafnlaus, at 5/3/07 17:02  

 • Er hérna með mömmu að lesa bloggið. Vonandi fer þér að batna í bakinu og við byðjum að heilsa Tóta.
  kv. Bogga og Mæja.

  By Anonymous Nafnlaus, at 5/3/07 18:27  

 • Úff hrikalegt ástand búið að vera, gott að þið eruð óhult.
  Mér finnst Hlynur dásamlegur þegar hann segir manni einmitt að það hafi verið tæplega átta eða að eitthvað sé svona 3 metra héðan eða þaðan.
  Hann er alger gullmoli!

  By Blogger Karen, at 6/3/07 13:51  

 • Já það er satt hjá þér, hann er dásamlegur þegar hann kemur með þessar skemmtilegu lýsingar.

  Við vorum einmitt að reyna að muna (munum það ekki enn) hvað það var sem hann hafði sett á ákveðinn stað í tölvuherberginu og við áttum að leita 3 eða 5 metra frá tölvunni, frábært :)

  By Blogger Frú Sigríður, at 6/3/07 14:05  

 • Það voru einhverjir lyklar sem hann hafði sett á þennann góða stað þessi elska :)

  By Blogger Karen, at 7/3/07 09:26  

 • Já það var sá sem gengur að skápnum sem er í eldhúsinu :) Hann er algjört krútt.

  B.kv. Þóra

  By Anonymous Nafnlaus, at 7/3/07 13:33  

Skrifa ummæli

<< Home