Sigríður Kristín Óladóttir

30.9.04

Ætli verkfallið sé að leysast, ég vona það svo sannarlega. Þetta er orðið nógu langt, en við kennarar verðum að standa fast á okkar kröfum.

Kennarar frá Akranesi fjölmenntu við Karphúsið í morgun, samtals var víst vel á annað þúsund kennarar mættir á staðinn og það er svo sannarlega merki um samstöðu okkar. Annars er lítið að frétta síðan í dag.
Hanna Regína var skorin upp en ekki var hægt að taka hinn eggjastokkinn og legið eins og fyrirhugað var vegna þess að þetta var gróið við ristilinn. Vonandi gengur allt vel, ég sendi mínar bestu batakveðjur til Hönnu.

Mamma er á Reykjalundi, hún er búin að vera í rannsóknum og mælingum og var í þrekprófi í gær. Þannig að hún hefur líklega byrjað í þjálfun í dag. Ég hringi í hana á morgun og fæ fréttir af gangi mála.

Óli er búinn að setja myndirnar bæði frá fimmtudagshittingi vinnuhópsins í framhaldsnáminu og frá sumarbústaðaferð skólasystranna á Skagann út á Netið, ég set slóðin inná bloggið mitt á morgun.

Afmæli

Þórður á afmæli í dag, er á besta aldri 47 ára. Hjartanlegar hamingjuóskir!

Ég gleymdi að segja í gær að það er ómetanlegt að hafa hann Atla m.a. til að keyra mig til og frá í bæjarfélagi sem er oft án leigubíla. Já það er ótrúlegt að ekki skuli vera hægt að fá leigubíl, ekki einu sinni um helgar.
Annars kom Atli heim úr vinnunni rúmlega 9 í morgun með bullandi hálsbólgu. Við pöntuðum tíma hjá Þóri HNE lækni og hann fær ekki tíma fyrr en 22.okt. Það er ekki ólíklegt að það þurfi að taka úr honum kirtlana.

Verð að hætta af því að Hrönn Egg og Sandra komu. Ég ætla að úrbeina 2 læri fyrir hana Hrönn sem er stílistinn minn hér í húsinu.

29.9.04

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki mátt vera að því að "rokka" í verkfallinu, svei mér þá.

Á fimmtudaginn komu þrjár konur til mín, þetta voru þær Jóhanna, Sigga G., og Þórunn sem eru með mér í náminu og ég hafði mest samskipti og samvinnu við. Þær komu kl. 14 og voru þar til eftir kvöldmat og þetta var ferlega góður og skemmtilegur dagur. Það var mikið spjallað, borðað, drukkið, og auðvitað var farið í pottinn í dásamlegu veðri.

Um kvöldið fór ég svo á Mörkina með Þóru og Erlu til að hlusta á Óla og Villa, kíkið á myndirnar á blogginu hans Óla . Þeir voru mjög góðir eins og ávallt og fólk var aðallega að hlusta á þá, en samt var dansað smávegis í lokin. Ég var auðvitað mjög stolt af syninum og klappaði víst nokkuð mikið, ég man nú ekki eftir því, enda er ég með alzheimer ekki bara light heldur high. Þóra vildi að ég hætti í bjórnum og færi yfir í hollasta drykkinn, ég var auðvitað treg til, vegna þess að eins og sumar skólasysturnar segja þá getur maður fengið vatnshöfuð af of mikilli vatnsdrykkju!!! Maður tekur nú ekki svoleiðis sjénsa, en ég skemmti mér ferlega vel og lét vel að stjórn þegar Þóra og Þórður ákváðu að ég þyrfti að “hvíla” mig og yfirgefa staðinn, rétt fyrir 1 (minnir mig).

Skólasysturnar komu svo til mín fyrir hádegi á laugardag í hina árlegu sumarbústaðaferð okkar. Þetta var alveg frábært hjá okkur eins og alltaf. Við dekruðum við okkur í mat og drykk, lituðum okkur, hefluðum hófana og fórum í göngutúr. Atli var sendur að heiman og allar gistu auðvitað hérna. Ég sendi ykkur slóðina að myndunum þegar Óli er búinn að setja þær út á Netið.

Gleðifrétt dagsins.
Nú er ég búin að sjá hvað ég geri, hætti í kennslunni og sný mér alfarið að kvikmyndagerð, það verður hvort sem er líklega ekki samið við okkur í bráð.
Hvað haldið þið, ég er, fyrir hönd Kvikmyndagerðarinnar “Frú Sigríður” búin að selja stuttmyndina mína. Góður Fróður.
Auður skólastjóri talaði við mig í dag og hún vill kaupa myndina og verður hún sýnd í Englandi á Spáni og í Austuríki. Ég lánaði henni eintak sem verður sýnt í Austuríki á næstu dögum en svo vill hún 3 eintök til kaups.
Nú vantar ráðleggingar varðandi verðlagningu, hvað finnst ykkur?
Er ekki lífið dásamlegt?

20.9.04

Hann á afmæli í dag....... Þessi ungi maður á afmæli í dag. Skál!!Í tilefni dagsins fór ég aðeins að fikta í Fireworks og Dreamweaver og er alveg hissa á að vera ekki búin að gleyma öllu.

Valli bróðir er sem sagt 50 ára í dag, 20 september 2004. Hjartanlegar hamingjuóskir Valli minn.

15.9.04

Elísabet Halldóra Einarsdóttir vinkona á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið Elsa mín!

Bara nokkrar línur til að láta vita að ég er enn á lífi,(lífið er dásamlegt) þótt lítið gerist í blogginu. Haldið þið að ég hafi ekki klárað að mála gluggana í gærkvöldi!!. Já í gærkvöldi, það var sko alls ekki nógu bjart, og þó. Það getur verið gott að hafa afsökun, ef einhver finnur eitthvað að einhverjum glugga ( það eru vissulega litlar líkur á því) þá er það sko glugginn sem var málaður í myrkrinu.Hahahaha.
Ég skrapp svo niður á Ægisbraut og hitti Óla sem var á hljómsveitaræfingu og hlustaði á eitt lag með þeim. Ég þurfti að hlusta úti, af því að ég komst ekki inn fyrr en ég hafði hringt í Óla.

Annars er allt gott að frétta, skólasysturnar koma til mín helgina 24. - 26. september og vonandi koma Jóhanna, Sigga Guðna og Þórunn þann 23. sept.

Valli litli bróðir minn verður 50 ára á mánudaginn og hann sagði við mig í dag, þá verð ég búin að ná þér. Ég er alveg sátt við það.